24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4565 í B-deild Alþingistíðinda. (3847)

372. mál, hitaveita Reykjavíkur

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 592 að flytja eitt lítið frv. til l. um breyt. á lögum nr. 38 frá 12. febr. 1940, um Hitaveitu Reykjavíkur.

Forsaga málsins er sú, að í vændum eru miklar virkjanir Hitaveitu Reykjavíkur á nýjum svæðum, sem teljast mikil háhitasvæði, og þar býðst sá möguleiki að virkja hita til framleiðslu á raforku. Skv. lögum er Hitaveitu Reykjavíkur þetta ekki heimilt og þarf því lagabreytingar til að svo megi verða. Því legg ég til að breytt verði 1. gr. laga um Hitaveitu Reykjavíkur sem orðist eins og fram kemur í þskj. Þar er eingöngu um þá breytingu að ræða að inn kemur það verkefni fyrirtækisins að selja ekki einungis heitt vatn til upphitunar, heldur einnig að framleiða og selja rafmagn. Síðan koma greinar er lúta að verðlagningu þessarar raforku og einnig grein sem lýtur að niðurfellingu aðflutningsgjalda og söluskatts af tækjum og vélum til orkuvers sem Hitaveita Reykjavíkur hugsanlega vildi reisa.

Allar þessar greinar, að undanskilinni 1. gr., eru í samræmi við gildandi lög um svipaðar framkvæmdir, sbr. 10. gr. laga nr. 100 frá 1974 og efnislega samhljóða greinar í lögum nr. 21 frá 1974 og einnig í lögum nr. 100 frá 1974, þ. e. annars vegar lögum um Kröflu og hins vegar um Hitaveitu suðurnesja, og enn fremur í lögum nr. 105/1974, um Bessastaðaá.

Ætlunin með þessu frv. er engin önnur en sú að opna borgarstjórn Reykjavíkur og fyrirtæki hennar, Hitaveitu Reykjavíkur, þann möguleika að virkja jarðhita þar sem kostur er á í þeim tilgangi að framleiða rafmagn og selja með svipuðum hætti og öðrum hefur verið leyft og heimilað, m. a. Hitaveitu Suðurnesja, og fæ ég ekki séð að ástæða sé til þess að nema Hitaveitu Reykjavíkur, ef áhuga kynni að hafa, að nýta sér þann möguleika.

Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. þetta fari til 2. umr. og til iðnn. þessarar hv. deildar.