24.04.1985
Neðri deild: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4566 í B-deild Alþingistíðinda. (3851)

98. mál, sóknargjöld

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um sóknargjöld. Meginbreytingin sem felst í frv. er að sóknargjaldið er ekki lengur lagt á sem nefskattur, það er ekki sama skatthæð án tillits til tekna manna eða gjaldþols, heldur verður gjaldið tiltekinn hundraðshluti af útsvarsstofni hvers gjaldskylds manns. Í nokkur ár hefur sóknargjaldið verið eini nefskatturinn sem lagður er á. Veldur þetta óhagræði og auknum kostnaði við framkvæmd álagningar og innheimtu opinberra gjalda, m. a. í þeim tilfellum þar sem sóknargjaldið er eini skatturinn sem gjaldandi greiðir.

Helsti kosturinn við þær álagningarreglur sem í frv. eru er sá að þær tryggja sjálfkrafa aðlögun að hækkandi verðlagi og tekjum og þar með útgjöldum safnaðanna. Auk þess er í verulegum atriðum sniðinn af því sá vankantur sem áður greinir um álagningu innheimtugjaldsins.

Rétt er að benda á ákvæði 8. gr. frv. þar sem héraðsfundi er heimilað að ákveða að allt að 5% sóknargjalds renni í sérstakan sjóð, héraðssjóð, sem ætlað er að standa undir sameiginlegum útgjöldum prófastsdæmisins. Er þetta nýmæli og gæti orðið til að örva kirkjulegt starf innan hvers prófastsdæmis.

Þetta frv. hefur verið afgreitt frá hv. Ed. Deildin hefur fjallað ítarlega um það og gert á því nokkrar breytingar. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.