30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég leyfi mér að lesa svör við fsp. hv. 5. landsk. þm., en efnis til svara var aflað hjá Seðlabanka Íslands.

Svar við 1. fsp.: a. Kostnaður við nýbyggingu Seðlabanka 1. sept. s.l. nam í heild 154 millj. 242 þús. kr. — b. Kostnaður á rúmmetra á núgildandi verðlagi er 3870 kr.

Svar við 2. fsp.: Endurskipulagning og hagræðing í rekstri er erfið í framkvæmd á meðan bankinn býr við eins ófullnægjandi húsnæði og nú er, en starfsemi er skipt á hluta í fimm húsum við Austurstræti og Hafnarstræti. Reynt er að halda öllum rekstrarkostnaði niðri, sbr. litla fjölgun starfsmanna. Þeir voru 124 í árslok 1974 og eru nú aðeins fjórum fleiri, sjá svar við 3. fsp. Ýmis hagræðing er nú í undirbúningi sem mun koma í framkvæmd þegar flutt verður í nýtt húsnæði.

Svar við 3. fsp.: Stöðugildi voru 128 hinn 1. okt. 1984 auk þriggja bankastjóra.

Svar við 4. fsp.: Launagreiðslur bankans árið 1983 námu 44 millj. 987 þús. kr.

Svar við 5. fsp.: Bifreiðaeign Seðlabankans, einkum vegna bankastjórnar og bankaeftirlits, var sem hér segir 1. okt. 1984: Range Rover, árgerð 1981, Volvo 240, árgerð 1983, Audi, árgerð 1984, Range Rover, árgerð 1984 og seðlaflutningabíll, Chevrolet Suburban, árgerð 1984.

Svar við 6. fsp.: Kostnaður við fundahöld og gestamóttöku tímabilið 1. jan. til 31. ágúst 1984 nam 1 millj. 681 þús. kr.

Vona ég að skýr svör hafi verið gefin við fsp.