02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4685 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

Skýrsla um utanríkismál

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég fylgi nú úr hlaði öðru sinni skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál sem ég hef góðri venju samkvæmt lagt fyrir hv. Alþingi. Skýrslunni var dreift til hv. þm. þegar þingstörf hófust að nýju að afloknu páskaleyfi. Hún var því nú nær mánuði fyrr á ferðinni en s. l. ár og hefur því verið í höndum hv. þm. í þrjár vikur. Ætla ég því að gefist hafi rúmur tími til að kynna sér efni hennar. Með skýrslunni fylgdi að vanda sérstök skýrsla fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um störf síðasta allsherjarþings og þátttöku okkar í því.

Í fyrstu skýrslu minni á síðasta þingi gafst mér tækifæri til að leggja áherslu á þá grundvallarþætti sem ég tel mestu skipta að móti íslenska utanríkisstefnu. Sams konar tækifæri hefur gefist við samningu skýrslunnar nú auk þess sem nokkrir þættir utanríkismálanna hafa komið til sérstakrar og ítarlegrar umræðu fyrr á þessu þingi. Af þessum ástæðum: að rúmur tími hefur gefist til að kynna sér skýrsluna, að grundvallarstefna liggur ljós fyrir og nýlegar umræður hafa þegar gefið tækifæri til að brjóta til mergjar nokkur utanríkismál sem nú eru til meðferðar, get ég í þessari framsögu verið stuttorðari en ella. Það ber þó á engan hátt að skilja svo að ég vilji víkja mér undan eða draga úr umræðum um þessi mál, heldur er það þvert á móti eins og ég hef raunar áður lagt áherslu á.

Ég tel opinskáar umræður um utanríkismál mikilvægar. Þær eru fallnar til að eyða misskilningi sem ella getur valdið ágreiningi og sundrung. Það er þjóðinni ekki til heilla að ágreiningur sé meiri en efni standa til sökum ónógrar umfjöllunar og vanþekkingar á staðreyndum mála. Öllum þjóðum er mikilvægt — og smærri þjóðum fremur en öðrum — að sem víðtækust samstaða ríki um þau mál er snúa að öðrum ríkjum og þar á meðal hugsanlegum utanaðkomandi hættum. Það er slík samstaða um grundvallarþætti utanríkismála sem ráðið getur úrslitum um að þjóðir haldi sjálfstæði sínu, frelsi til orðs og æðis. Í þessu efni hafa Íslendingar verið gæfusamir. Þeir hafa langflestir staðið saman í þéttri fylkingu um þá meginstefnu í utanríkis- og öryggismálum sem mótuð var á fyrstu árum lýðveldisins og tryggt þannig viðhald og margs konar velgengni ríkis og þjóðar.

Um ástand alþjóðamála og nokkurra einstakra utanríkismála, sem nú eru sérstaklega á döfinni, vil ég segja þetta: Þegar ég flutti ræðu mína í fyrra um skýrslu um utanríkismál voru uggvænlegar horfur í samskiptum stórveldanna. Viðræðum þeirra á milli um afvopnunarmál hafði verið slitið og Stokkhólms-ráðstefnan var í raun eini vettvangurinn þar sem fulltrúar stórveldanna ræddust við. Ég held við hljótum því að vera sammála um það að merkasti atburðurinn, sem áhrif hefur haft á þróun alþjóðamála síðan við ræddum í fyrra skýrslu mína um utanríkismál, sé samkomulag stórveldanna um að setjast að nýju að samningaborði um vopnatakmarkanir. Þessar viðræður stórveldanna fara nú fram með nokkuð öðru sniði en áður og hafa víðara umfang en fyrri umræður þeirra. Eins og hv. þm. er kunnugt slitu Sovétríkin viðræðum við Bandaríkin um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga í Evrópu svo og um langdrægar kjarnaflaugar í nóvember 1983, þegar hin þríþætta samþykkt Atlantshafsbandalagsins frá því í desember 1979 kom til framkvæmda og fyrstu Pershing II flaugarnar voru settar upp til mótvægis við hina gífurlegu fjölgun SS-20 flauga Sovétríkjanna.

SS-20 flaugar Sovétmanna eru nú yfir 400 talsins með yfir 1200 kjarnaodda og þeim hefur verið komið fyrir á skotpöllum í Austur-Evrópu. Ríki Atlantshafsbandalagsins ákváðu að bíða í fjögur ár með gagnráðstafanir til þess að mæta þessari nýju ógn í trausti þess að takast mætti samkomulag við Sovétríkin um jafnvægi í kjarnavígbúnaði í Evrópu með það lokatakmark í huga að öllum slíkum vopnum yrði útrýmt án þess að jafnvægi hinna tveggja varnarbandalaga og öryggi Evrópu raskaðist.

Enginn skyldi búast við að viðræður kjarnaveldanna í Genf betri skjótan árangur. Þær eru flóknar og viðamiklar og gagnkvæm tortryggni er vissulega til tálmunar. Deilt verður um stöðu vígbúnaðar í dag og hvort jafnvægi ríkir í þeim efnum. Af hálfu Atlantshafsbandalagsins er viðurkennt að Sovétríkin eigi rétt á varnarviðbúnaði til að tryggja öryggi sitt en markmiðið hljóti að vera að jafnvægi sé náð meðal stórveldanna með sem minnstum vígbúnaði, lágmarks herbúnaði. Tortryggni og aðgæsla Sovétríkjanna er eðlileg þegar þess er gætt að á þessari öld og hinni síðustu hafa erlendir herir setið gráir fyrir járnum um Moskvu og litlu munað að höfuðborgin félli þeim í hendur. Á hinn bóginn ýkja og valdhafar Sovétríkjanna þá tortryggni sem býr með íbúum Sovétríkjanna að þessu leyti, m. a. til þess að þeir sætti sig við lakari lífskjör en vera þyrfti ef ekki væri kostað svo miklu til vígbúnaðar sem raun ber vitni. Hafa þó valdhafar Sovétríkjanna sem allsráðandi stjórnarherrar þá yfirburði yfir stjórnir vestrænna lýðræðisríkja að geta ákveðið einhliða hve miklu skuli varið til vígbúnaðar og þurfa ekki að fá samþykki skattgreiðenda fyrir slíkum útgjöldum.

Tortryggni vestrænna ríkja gagnvart Sovétríkjunum á rætur sínar að rekja til þess að vígbúnaður þeirra er mun meiri en þörf er á ef hann væri eingöngu ætlaður til varnar. Útþenslu- og yfirráðastefna Sovétríkjanna eftir aðra heimsstyrjöldina knúði vestræn lýðræðisríki til stofnunar Atlantshafsbandalagsins og reynslan sýnir að Sovétríkin hafa eftir stríð aukið herbúnað sinn þegar vestræn lýðræðisríki hafa í skjóli meintrar þíðu dregið úr honum. Á þetta bæði við á árunum eftir aðra heimsstyrjöld og á síðasta áratug í kjölfar Helsinki-yfirlýsingarinnar.

Vestræn lýðræðisríki eru sökuð um andvaraleysi fyrir aðra heimsstyrjöldina og á það er bent að öllum mátti vera ljós heimsyfirráðastefna Hitlers eftir lestur Mein Kampf. Á sama veg má auðvitað segja að kenning kommúnista og Sovétmanna um alheimsbyltingu ætti að opna augu lýðræðissinna fyrir nauðsyn aðgæslu og varðstöðu.

Það verður vissulega erfitt að komast að niðurstöðu um hvað teljist jafnvægi í vígbúnaði en erfiðara kann að reynast að ganga úr skugga um að afvopnunarsamningar séu haldnir. Sovétmenn telja tryggt alþjóðlegt eftirlit til njósna og afskipta af innanríkismálum, en slíkt eftirlit er lýðræðisríkjum lífsnauðsyn. Það á sínar eðlilegu skýringar að Sovétríkin leggja ekkert upp úr slíku eftirliti. Vígbúnaður lýðræðisríkja liggur fyrir þeim sem opin bók, bæði vegna lýðræðislegrar og opinnar umræðu um fjárveitingar til einstakra þátta herbúnaðar í vestrænum ríkjum og ferðafrelsi sem þar ríkir. Gagnstætt því eru Sovétríkin lokuð og þurfa ekki að gera reikningsskil gerða sinna opinberlega. Þá hefur það og torveldað afvopnunarsamninga að Sovétríkin hafa treyst því að þau gætu haft áhrif á skoðanamyndun og almenningsálit á Vesturlöndum til að knýja þau til einhliða afvopnunar án þess að sovétríkin þyrftu nokkuð að draga úr vígbúnaði af sinni hálfu. Það er hald margra manna að þá fyrst hafi Sovétríkin sest að samningaborðinu í Genf þegar þau voru orðin úrkula

vonar að geta komið í veg fyrir framkvæmd tvíþættu samþykktar Atlantshafsbandalagsins frá 1979. Vestræn ríki hafa ekki samsvarandi skilyrði til að hafa áhrif á almenningsálit í Sovétríkjunum sem þau vestantjalds.

Leiðtogaskiptin í Sovétríkjunum hafa aukið á bjartsýni sumra um að fram undan sé batnandi sambúð og samskipti risaveldanna sem leitt gæti til samninga um takmörkun vígbúnaðar og fækkun kjarnavopna. Fyrir nokkrum vikum lýsti Gorbachev, hinn nýi leiðtogi Sovétríkjanna, því yfir að Sovétríkin mundu einhliða stöðva uppsetningu fleiri SS-20 kjarnaflauga fram til hausts í trausti þess að Atlantshafsbandalagið hætti við að koma fyrir fleiri Pershing II flaugum og stýriflaugum. Nú hafa hins vegar borist fregnir af því að Sovétmenn haldi áfram að reisa skotpalla fyrir SS-20 flaugarnar víða um Austur-Evrópu. Inn í þessa mynd kemur áætlun Reagans Bandaríkjaforseta um stórefldar rannsóknir á hagnýti varnarvopna í geimnum sem hann telur að geti leitt til þess að ókleift verði að beita kjarnavopnum til árásar. Þessar hugmyndir Reagans hafa síður en svo farið leynt og þær hafa verið skýrðar í flestum meiri háttar fjölmiðlum heims, jafnvel í smáatriðum. Skoðanir eru því skiptar um þessar hugmyndir enda er slíkur búnaður óheyrilega dýr og kynni að torvelda um sinn stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins. Niðurstöðu rannsókna varðandi geimvopn og geimvarnir, sem bæði Sovétríkin og Bandaríkin stunda, er ekki að vænta og væntanlega er niðurstöðu lengur að bíða. Hafa ber í huga þó að því meira og gleggra sem risaveldin vita um athafnir hvors annars á hernaðarsviðinu því minni líkur eru á því að hernaðarátök, þ. á m. kjarnastríð, hefjist.

Hin öra þróun á sviði rafeindatækni, fjarskipta og gervihnatta, er fylgjast úr háloftunum með hverri hreyfingu á jörðu niðri, er ein helsta von mannkyns um að hvorki komi til kjarnastyrjaldar fyrir ásetning, slysni eða misskilning. Og víst er um það að raunhæfir samningar milli stórveldanna um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar nást aldrei nema fullkomið og traust eftirlit með slíkum samningum verði meginþáttur þeirra. Yfirburðir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra, a. m. k. eins og nú standa sakir, í þeirri byltingu fjarskipta- og rafeindatækni sem nú á sér stað í heiminum gæti því leitt til aukinnar samningslipurðar af hálfu Sovétríkjanna. Og báðir aðilar ættu að hafa hugfast að efnahag þeirra væri betur borgið ef svo mikið fjármagn færi ekki til vígbúnaðar eins og raun ber vitni. Því meira sem aðilar vita hvorir um aðra því meira dvínar tortryggnin og grunsemdirnar um launráð og sviksemi gagnaðilans. Með eyðingu tortryggninnar hverfur ásælnin til að sitja yfir annarra hlut í nafni ráðstafana til tryggingar nauðsynlegs öryggis.

Ég hef kosið að drepa á þessum höfuðþætti þeirra tilrauna sem nú fara fram varðandi afvopnun. Þar sem ég hef í skýrslunni rætt um einstök mál og ágreiningsefni og átök, sem eiga sér stað nú í heiminum, vík ég ekki frekar að þeim enda er ekki unnt í framsöguræðu með þessari skýrslu að drepa á nema fátt eitt af því sem telja má til markverðra utanríkismála.

En þar sem þessi skýrsla, er ég mæli nú fyrir, er viðameiri og ítarlegri en áður, þrátt fyrir þá augljósu annmarka sem á slíkum skýrslum hljóta ætíð að vera, tel ég óþarft að fara sérstökum orðum um þau efni sem um er fjallað í skýrslunni og varða einstaka heimshluta, en vísa til hennar.

Ég vil þá þessu næst víkja nokkuð að varnar- og öryggismálum okkar sjálfra, en kafli skýrslunnar um þau efni er mun ítarlegri í ár en þekkst hefur í fyrri skýrslum um utanríkismál. Er þetta þáttur í þeirri viðleitni minni að upplýsa frekar um eðli varna landsins og starfsemi varnarliðsins. Við höfum látið undir höfuð leggjast, eins og kunnugt er, að afla sérfræðiþekkingar og reynslu í herfræðilegum málum, sérfræðiþekkingar sem að mínu viti er forsenda fyrir ákvörðunum í veigamiklum þáttum varnarmála í framtíðinni. Tækninni fleygir fram á öllum sviðum, ekki síst á sviði hermála og varnarmála. Sérhæfing í þessum málum sem öðrum verður stöðugt meiri og ég tel að nú sé svo komið að við getum ekki lengur skotið okkur undan þeirri ábyrgð og skyldu að afla okkur slíkrar þekkingar. Í þessu sambandi vil ég minna á að hér á Alþingi hefur komið fram í nokkur ár till. til þál. um ráðunaut í öryggis- og varnarmálum og hafa áform þau er ég hef birt varðandi styrkingu varnarmáladeildar og varnarmálaskrifstofu það að markmiði að ráða bót á í þessu efni.

Í skýrslu minni til Alþingis á s. l. ári sagði ég að grundvöllurinn að virkari þátttöku okkar Íslendinga í varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins væri að við öðluðumst sjálfir meiri reynslu og þekkingu á varnarmálum er geri okkur fært að leggja sjálfstætt mat á þá hernaðarlegu stöðu sem þjóð okkar býr við. Með þeim hætti verðum við í stakk búnir til að taka fullan þátt í stefnumörkun um fyrirkomulag varna landsins og þeirra ráðstafana sem gerðar eru landinu til öryggis. Með slíka þekkingu að bakhjarli hljótum við að óska úrbóta, ef við teljum vörnum að einhverju leyti áfátt, eða hafna hugmyndum og fyrirætlunum á þessu sviði ef við teljum að ekki séu í samræmi við þarfir okkar og stefnu í öryggismálum. Jafnframt lét ég þess getið að stefnt yrði að eflingu varnarmáladeildar bæði með hliðsjón af núverandi umfangi verkefna hennar og ekki síður í þeim tilgangi að á vegum utanrrn. verði ávallt til staðar fullnægjandi sérfræðileg þekking á varnarmálum. Í því skyni að fylgja þessari stefnu fram hefur sú breyting nú verið gerð að varnarmáladeild er orðin sérstök skrifstofa í utanrrn. Þar fær varnarmálaskrifstofan mun víðtækara starfssvið en varnarmáladeild hafði áður. Hefur verið gerð grein fyrir þessum verkefnum hennar opinberlega þannig að ég tel ekki þörf á því að fara nákvæmlega í þær sakir. En þessi verkefni eru:

1. Málefni er varða framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

2. Herfræðileg og hertæknileg málefni er lúta að upplýsingaöflun og rannsóknum.

3. Þátttaka í starfi hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, samstarf við varnarliðið og yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins.

4. Auk þessara verkefna yrði jafnframt starf varnarmálaskrifstofu að annast skýrslugjöf og ráðgjöf fyrir ríkisstj. og stuðla að samstarfi við almannavarnaráð og Landhelgisgæslu.

Herra forseti. Fyrr á þessum fundi fylgdi ég úr hlaði þáltill. um fullgildingu hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og hef því ekki fleiri orð um það efni. En í samræmi við stefnu ríkisstj. og ályktanir Alþingis á grundvelli þeirra ákvæða hafréttarsamningsins er snerta þau mál hefur verið unnið markvisst að því að tryggja hafsbotnsréttindi landsins utan efnahagslögsögunnar. Nú er staða mála sú að Bretar og Írar hafa afmarkað meint landgrunn sín þannig að Hatton-Roekallsvæðið falli innan landgrunnsmarka þeirra. Færeyingar og Danir telja að svæðið sé í eðlilegu framhaldi af Færeyjum og falli því undir þeirra yfirráð. Hafa þeir haft í undirbúningi útgáfu tilkynningar um slíka afmörkun landgrunns Færeyja sem væntanlega verður gefin út á næstunni. Hins vegar telur dr. Talvani, sem hefur verið ráðunautur íslenskra stjórnvalda í þessu máli að því er varðar jarðeðlisfræði, að Bretland og Írland séu skorin frá svæðinu með Rockall-trogi svokölluðu og dýpi Færeyjasundsins sunnan og suðaustan eyjanna raski réttindakröfum þeirra. Ísland geti aftur á móti rakið landgrunn sitt til svæðisins án þess að rekast á landgrunnshlíðar annars lands.

Svo einhæfar sem undirstöður íslensks efnahagslífs eru og landið sjálft snautt að auðlindum getum við ekki gefið frá okkur réttindi sem rök herma að okkur beri. Því verðum við að gæta réttar okkar þótt enn sé lítt vitað hvort eða hvaða verðmæti umrætt hafsbotnssvæði kann að hafa að geyma. Ríkisstj. telur því rétt að landgrunn Íslands verði afmarkað með framangreind sjónarmið í huga. Verður sú afmörkun birt á næstunni. Síðan verður framhaldið að fara eftir viðurkenndum reglum þjóðaréttarins er miða við að strandríki byrji með því að afmarka landgrunnið reglum samkvæmt og tilkynni það nefnd um mörk landgrunns, sem stofnuð verður skv. hafréttarsamningnum, svo og aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ef kröfur ríkja rekast á er það aðalreglan að ríkin reyna að ná samkomulagi með samningum. Hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á að hlutaðeigandi þjóðir komi sér saman um málið. Átti sér fyrir skemmstu stað gagnlegur viðræðufundur um það við Færeyinga og Dani og boð okkar til annarra aðila málsins um viðræður og samráð stendur. Fyrirhugaður er enn fundur með Dönum og Færeyingum á næstunni, og við, utanríkisráðherrar Íslands og Danmerkur, munum ræða þetta mál í opinberri heimsókn minni til Danmerkur síðast í þessum mánuði. Jafnhliða þessu verður málið ávallt til meðferðar í utanrmn. og innan ríkisstj.

Tilraunum til að ná samkomulagi um loðnuveiðarnar við Ísland, Jan Mayen og á Grænlandssvæðunum hefur verið haldið áfram. Málið var rætt ítarlegar en nokkru sinni fyrr á fundi Íslendinga, Norðmanna og fulltrúa grænlensku heimastjórnarinnar í Kaupmannahöfn um miðjan apríl. Ekki ber nú ýkjamikið á milli. En þó er torvelt að ná endum saman. Þurfa allir aðilar að leggja sig fram um lausn. Grænlendingar hugsa sér að stunda loðnuveiðar sjálfir þegar fram í sækir en munu fyrst um sinn selja veiðikvóta sinn. Þetta ágreiningsmál, sem nú eftir útgöngu Grænlands úr Efnahagsbandalaginu er orðið innbyrðis mál norrænna þjóða einvörðungu, þarf að leysast fyrir næstu vertíð nú í sumar.

Samskipti Íslands og Grænlands hafa verið til vaxandi umræðu síðustu misseri, og er áhugi af beggja hálfu á að efla þau á ýmsum sviðum. Meðal annars hefur verið rætt um möguleika á samvinnu á sviði sjávarútvegsmála, þ. á m. fiskirannsókna, fiskveiða, vinnslu og markaðsmála, en jafnframt m. a. um samgöngumál, sem Grænlendingum er mikið kappsmál að ráða betur fram úr en unnt hefur verið til þessa, og rjúfa þannig þá einangrun sem er hemill á ýmsa framþróun í landinu.

Fyrir liggja hugmyndir um tilhögun samskipta íslenskra og grænlenskra stjórnvalda en á næstunni þarf að ræða nánar einstaka þætti. Nálægð landanna veldur því að eðlilegt er og nauðsynlegt að þau hafi samstarf sín á milli. Af hálfu Íslands er vilji til að verða Grænlendingum að því liði í uppbyggingarstarfi þeirra, sem þeir æskja og unnt er, jafnframt því sem efnt verði til samstarfs er hagkvæmt verði fyrir báða aðila. Í þessu sambandi vil ég einnig á ný leggja áherslu á mikilvægi þess að samvinna landanna allra á norðurslóðum Atlantshafs, Noregs og Danmerkur, Færeyja, Íslands, Grænlands og Kanada, verði treyst enn frekar í framtíðinni, enda eiga þau samofna hagsmuni m. a. á sviði fiskverndunar, veiða og markaðsmála svo og t. d. öryggismála.

Herra forseti. Um þessar mundir er til gaumgæfilegrar athugunar hvort unnt sé að marka ákveðnari stefnu um aukningu framlaga til stuðnings þróunarríkjum þannig að náð verði t. d. á sjö til tíu árum því takmarki velmegunarríkja Sameinuðu þjóðanna að opinber framlög séu 0.7% af þjóðarframleiðslu. Framlögin af Íslands hálfu hafa aldrei verið hærri en á þessu ári og árin tvö á undan, en samt eru þau óralangt frá áðurnefndu marki, nú ekki nema 1/8 eða 1/9 hluti þess. Þó að okkur Íslendingum finnist okkar eigið bú þurfa margs við getum við ekki til lengdar horft svo aðgerðarlitlir á það hyldýpi örbirgðar og eymdar, hungurs og þjáninga sem margar þjóðir í öðrum heimsálfum búa við. Þeir erfiðleikar sem við stöndum andspænis verða að engu í slíkum samanburði. Það er áreiðanlega í anda íslensku þjóðarinnar, sem sjálf man verri tíð, að við stígum ný skref til stuðnings þeim þjóðum sem nú standa í svipuðum sporum og við á fyrri öld eða enn þá verr. Við höfum nú auk efna öðlast reynslu og þekkingu, m. a. á sviði fiskveiða og jarðhitanýtingar, sem við getum með góðum árangri hagnýtt í þágu þróunarríkja. Þetta eigum við nú að gera í vaxandi mæli og treysta jafnframt samskipti okkar við þessi ríki eftir því sem aðstæður leyfa.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu þykir mér hlýða að víkja nokkrum orðum að utanríkisþjónustunni. Að því er utanríkisþjónustuna snertir þá tel ég nú tímabært bæði að utanrrn. geti komið sér upp húsnæði og að ráðist verði í stofnun nýs sendiráðs á næsta ári. Ráðuneytið er tvískipt í leiguhúsnæði og býr nú orðið á ýmsan hátt við erfiðar aðstæður. Hefur því verið hafinn undirbúningur að nýbyggingu á lóð ríkisins við Skúlagötu austan húss Rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Þar teldi ég hagkvæmt að viðskrn. yrði einnig til húsa, óháð því hvort utanrrn. verði falin utanríkisviðskipti eins og margir telja þó hyggilegt. Í reynd er starf utanríkisþjónustunnar og viðskrn. að utanríkisviðskiptum svo samofið að að minnsta kosti nábýli af þessu tagi væri tvímælalaus ávinningur er stuðlað gæti að enn þá betri þjónustu við þá aðila sem viðskipti stunda við önnur lönd. En mikilvægi utanríkisviðskiptanna kemur m. a. fram í þeirri staðreynd að á árinu 1984 nam útflutningur vöru og þjónustu um 50% af þjóðarframleiðslu. Sendiráðin annast samskipti stjórnvalda en þau gegna jafnframt mjög víðtæku fyrirgreiðslu- og þjónustuhlutverki, m. a. á sviði viðskipta.

Nú þegar mikið er rætt um þörfina á nýjum iðngreinum hér á landi, reistum m. a. á erlendum tækninýjungum og raunar ýmsum tækniframförum íslenskum, er ljóst að sendiráðin geta, ef rétt er á haldið, unnið mikið gagn bæði við að koma á samstarfi um slíkt við erlenda aðila og greiða fyrir sölu eða markaðssetningu nýrra framleiðsluvara. Vonirnar um árangur í þessari mikilsverðu viðleitni til að treysta undirstöður efnahags- og atvinnulífs þjóðarinnar eru því m. a. háðar því að utanríkisþjónustan verði efld til að geta rækt á sem bestan hátt sinn þátt í þessari sókn þjóðarinnar til nýrra framfara. Tekið hefur verið upp nýlega samstarf við Útflutningsmiðstöð iðnaðarins að markaðsmálum og fleira er í deiglu eins og hv. þm. er kunnugt. En þegar er margt sem bendir til þess að t. d. stofnun sendiráðs í Japan gæti komið að verulegu gagni í því skyni sem ég hef gert hér sérstaklega að umtalsefni. Auk þess hefur af ýmsum ástæðum verið rætt um hugsanlega stofnun sendiráða í Kanada og Finnlandi. En utanrmn. mun fjalla frekar um þessi mál áður en ákvörðun er tekin, auk þess sem hún byggist á fjárveitingu til þessara útgjalda.

Þá hefur og farið fram á vegum utanrrn. söfnun upplýsinga um styrki, tollvernd og aðrar viðskiptatálmanir af hálfu annarra þjóða, sem eru keppinautar okkar á erlendum mörkuðum, í því skyni að geta betur unnið í alþjóðasamtökum að frjálsum viðskiptum á jafnréttisgrundvelli sem fáum þjóðum er nauðsynlegra en okkur Íslendingum.

Ég vil svo í lok þessara inngangsorða nota tækifærið til að þakka hv. utanrmn. mikið og gott samstarf á undanförnu ári. Ég mun svo, herra forseti, að sjálfsögðu leitast við að svara fsp. sem fram kunna að koma og læt máli mínu því lokið að sinni.