03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4757 í B-deild Alþingistíðinda. (3997)

292. mál, tollskrá

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur rætt mál þetta á allmörgum fundum. Það hefur raunar líka verið til umr. opinberlega eins og mönnum er kunnugt um, en það fjallar um niðurfellingu aðstöðugjalda á bifreiðum ráðh. Á fund n. hefur komið Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri í fjmrn. Hann upplýsti þar á fundi 22. apríl s. l. að fjmrh. hefði ákveðið að leggja fram frv. til tollalaga og í því frv. yrði felld niður heimild sú, sem nú er að finna í gildandi tollskrá, um niðurfellingu aðflutningsgjalda af bifreiðum ráðh. Hann skýrði jafnframt frá því að verið væri að undirbúa reglugerð og sýndi nefndinni drög að henni þann 24. þ. m.

Á þessum fundi var einnig lagt fram bréf frá forsrh. þar sem það er staðfest að samstaða sé um það í ríkisstj. að heimild til niðurfellingar þessara aðflutningsgjalda verði afnumin úr íslenskum lögum og reglugerðum. Bréf hæstv. forsrh., sem dags. er 23. apríl, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hr. formaður Eyjólfur Konráð Jónsson,

fjh.- og viðskn. Ed. Alþingis,

Alþingi.

Málefni: Bifreiðamál ráðherra.

Að ósk þinni vil ég taka fram eftirfarandi:

Hinn 4. nóv. 1983 skipaði ég nefnd til þess að gera athugun á bifreiðamálum ríkisins og gera brtt. til ríkisstj. telji nefndin það nauðsynlegt. Niðurstaða nefndarinnar barst 10. febr. 1984 ásamt viðamiklum tillögum um breytingar. Tillögur þessar ná til bifreiðamála ríkisins og ríkisstarfsmanna í heild og eru því langtum viðameiri en bifreiðamál ráðh. eingöngu. Tillögurnar voru ræddar í ríkisstj. og ákveðið að taka þær til nánari meðferðar. Það hefur nefndin gert og voru tillögurnar enn til meðferðar á ríkisstjórnarfundi s. l. fimmtudag, 18. apríl og í dag. Endanlegri afgreiðslu var þó frestað til næsta fundar að ósk fjmrh.

Þar sem mér er tjáð að nefndin hyggist afgreiða það mál sem hjá henni liggur á morgun vil ég þó upplýsa eftirfarandi: Samstaða er um það í ríkisstj. að heimild til að fella niður aðflutningsgjöld af bifreiðum ráðh. verði ekki notuð lengur. Mun fjmrh. fella þá heimild úr tollalögum sem fljótlega munu lögð fram til heildarendurskoðunar. Í stað þessa er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að ráðh. fái til umráða ríkisbifreið sem ríkissjóður ber allan kostnað af.

Þó er talið eðlilegt að ráðh., sem ekki kysi að fá ríkisbifreið til umráða, eigi þess kost að nýta eigin bifreið til embættisþarfa og greiðir þá ríkissjóður kostnað af rekstri slíkrar bifreiðar. Með tilvísun til þess sem þegar er ákveðið í ríkisstj. og ég hef nú upplýst er óþarfi að Alþingi samþykki frv. það sem hér er til umr. í nefndinni.

Steingrímur Hermannsson.“

Eins og ég gat um í upphafi máls míns hafði ráðuneytisstjóri í fjmrn. þegar áður en bréf þetta barst komið á fund nefndarinnar og tilkynnt að reglugerð væri þegar í smíðum um þetta efni og að fjmrh. mundi leggja fram frv. til breytinga á tollalögum sem afnæmi endanlega þessar heimildir. Ætti því að vera ljóst að þessum afslætti eða niðurfellingu á aðflutningsgjöldum á ráðherrabifreiðum er hér með hætt og þess vegna leggur meiri hl. n. til að málinu verði vísað til ríkisstj. þar sem óþarft sé að samþykkja það.