03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4792 í B-deild Alþingistíðinda. (4042)

424. mál, erfðalög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það ber vissulega að fagna því að með þessari breytingu, sem hér er lögð til af hv. allshn. á frv. Guðrúnar Helgadóttur og fleiri hv. þm., skuli stigið skref í réttlætisátt og opnaðir möguleikar eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi, en ég harma það að n. skuli ekki hafa séð sér fært að stíga skrefið til fulls eins og lagt er til í hinu upphaflega frv., þ. e. fullur réttur eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi, þannig að skipti á búi, sé þess krafist, taki ekki til íbúðarhúsnæðis sem eftirlifandi maki býr í né til húsmuna hans nema hann óski þess sjálfur.

Mér finnst í rökstuðningi allshn. fyrir þessari breytingu lögð megináhersla á að með ákvæðum frv. á þskj. 53, frv. Guðrúnar Helgadóttur o. fl., sé skertur mjög réttur niðja og áhorfsmál, eins og sagt er, að svipta lögerfingja rétti til að krefjast búskipta á búi sem eftirlifandi maki situr í. Í rökstuðningi n. finnst mér því megináhersla lögð á hagsmuni lögerfingja að fá arfshluta sinn greiddan úr búinu. Þessi viðhorf og áherslur finnst mér rangar því að megináhersluna á að leggja, að mínu mati, á hagsmuni eftirlifandi maka.

Í annan stað er í rökstuðningi n. talað um skilning á því að við lát maka geti skapast erfiðleikar ef erfingjar geri kröfu um búskipti og með till. allshn. sé komið til móts við þau sjónarmið. Þetta er að mínu mati einmitt kjarni málsins og meginrök fyrir því að ganga á eins lagt og lagt er til í upphaflegu frv. Guðrúnar Helgadóttur o. fl., þ. e. þeir miklu erfiðleikar, bæði fjárhagslegir og félagslegir, sem geta orðið hjá eftirlifandi maka ef erfingjar krefjast búskipa.

Ég verð að segja að mér finnst það stríða gegn öllu réttlæti að hægt sé að hrekja eftirlifandi maka af heimili sínu sem er eign hans og hann hefur byggt upp og eignast ásamt sínum maka með margra áratuga striti og vinnu. Með þeirri leið sem í frv. allshn. er lýst eru að vísu opnaðir möguleikar til setu í óskiptu búi ef viðkomandi hafa athugað sérstaklega að mæla svo fyrir um í erfðaskrá. En ég er hrædd um að fæstir athugi slíkt þegar ekki er að öðru leyti gerð erfðaskrá og athugi því ekki þennan möguleika fyrr en um seinan. Auk þess breytir samþykkt þessa frv. engu fyrir þá sem nú sitja í óskiptu búi og því um mismunun og ójafna möguleika að ræða fyrir þá sem misst hafa maka sinn og nú sitja í óskiptu búi og þá sem möguleika hafa á, eftir að frv. verður að lögum, að mæla svo fyrir um í erfðaskrá. Mér finnst því ekki alls kostar rétt það sem fram kom í framsöguræðu hv. þm. Gunnars G. Schram fyrir þessu frv., að frv. þetta tryggi þeim sem það vilja rétt til setu í óskiptu búi.

Mín skoðun er því sú, herra forseti, að frv. allshn. gangi of skammt til að tryggja rétt eftirlifandi maka og harma ég að allshn. skuli ekki hafa treyst sér til að mæla með frv. í upphaflegri mynd. En úr því að allshn. stendur öll að þessu frv. met ég stöðuna svo að tilgangslaust sé að flytja brtt. í þá veru sem upphaflegt frv. gerði ráð fyrir og ekki verði lengra gengið í þessu máli að sinni, enda ljóst að flm. þessa frv. virðast meta stöðuna með líkum hætti þar sem þeir flytja aðeins brtt. sem tryggja á að stjúpbörn eftirlifandi maka geti ekki krafist búskipta ef annað er fyrir mælt í erfðaskrá.