08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4963 í B-deild Alþingistíðinda. (4202)

146. mál, sjómannalög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Við nm. í hv. samgn. höfum fjallað um þetta frv. á nokkuð mörgum fundum og hef ég virkilega velt fyrir mér 17. gr. Til þess að fá álit fleiri aðila á þessari grein benti ég t. d. hv. 11. þm. Reykv. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur á að í sjómannalögum væri fjallað um konur, en eins og eðlilegt má teljast, þar sem hún á ekki sæti í n., gat hún ekki gert sér í hugarlund að í sjómannalögum væri yfirleitt fjallað um konur. Það taldi ég mjög eðlilegt. Bæði varðandi 17. gr. og 23. gr. tjáði ég henni mínar skoðanir og efasemdir varðandi 17. gr., hvort sú grein þyrfti að vera inni í frv., hvort 36. gr. sjómannalaga næði ekki yfir þau tilfelli ef kona, sem er skipverji, verður vanfær og hagsmunir hennar krefðust þess og barnsins að hún fengi lausn úr skiprúmi, hvort það gæti þá ekki verið vegna veikinda, ef hún gæti ekki unnið uppsagnarfrestinn, sem er vika og allt upp í einn mánuður, og ég taldi þetta jafnvel geta skert rétt kvenna. Auk þess hafði ég samband við Jafnréttisráð og bað það að taka þetta sérstaklega fyrir á sínum fundi sem það og gerði og sendi hv. samgn. Ed. umsögn um þessar greinar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Jafnréttisráð hefur fjallað um ákveðnar greinar í frv. til sjómannalaga og vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við n.:

Í 23. gr. laganna 3. tölul. segir að skipstjóri geti vikið úr skiprúmi konu, sem er skipverji, er verður vanfær og af þeim sökum ófær til að annast störf sín. Jafnréttisráð telur að hér verði að koma til dómur læknis um ástand barnshafandi konu. Ráðið telur í hæsta máta óeðlilegt að leggja slíkt mat í hendur skipstjóra. Sama á raunar við um 1. og 2. tölul. 23. gr.

Ég taldi eðlilegt í framhaldi af þessu og reyndar áður líka að fella 3. tölul. út úr 23. gr. Þar sagði — það var reyndar fellt út:

„Kona, sem er skipverji, verður vanfær og af þeim sökum ófær til að annast störf sín, eða 4) læknisskoðun samkv. 33. gr. leiðir í ljós, að skipverji er eigi fær til að vinna starf sitt, þótt eigi sé hann sjúkur.“

Ég taldi að 4. málsl. næði yfir vanfærar konur jafnt og aðra skipverja og 3. málsl. væri óþarfa innskot. Nm. féllust allir á þetta og þar af leiðandi kom sú brtt. fram. Við 2. umr. þessa máls kemur hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 11. þm. Reykv., hér í stól og ræðir um viðbót við 17. gr. Ég sá ekki þá og sé ekki enn, þrátt fyrir góðan hug til kvenna, að við getum komið þar fyrir því sem hún ræddi um við 2. umr., enda féll hún frá því. Það er engin bót að því að gera háseta að kokk eða gera kokk að skipstjóra.

Þess er kostur hjá stórum skipafélögum að færa fólk á milli starfa. Við vitum það varðandi millilandaskip. Sambandið hefur t. a. m. upp á margvísleg störf að bjóða innan sina vébanda. En að setja almennar hugleiðingar um mannleg samskipti inn í lög tel ég enga þörf á. Ég tel að ef kona óskar eftir lausn úr skipsrúmi og sækir um annað starf hjá viðkomandi útgerð fari það eftir hennar mannkostum hvort útgerðin ræður hana til annarra starfa. Það er ekki hægt að segja, að mínu mati: Ef kona fær lausn úr skipsrúmi eftir ákvæði 1. málsgr. skal útgerðarmaður, sé þess kostur, veita henni annars konar starf á sínum vegum, æski konan þess. — Ég veit ekki hvernig væri hægt að dæma eftir slíkum lögum. Þetta er viljayfirlýsing um að venjuleg mannleg samskipti eigi sér stað á milli útgerðarmanns og vanfærrar konu. Auk þess er mjög líklegt að þær konur sem verða vanfærar og eru sjómenn hætti sjómennsku því það er mjög ósennilegt að þær fari á togara eða millilandaskip frá ungbarni.

En ég hef rætt við mjög marga um 17. gr. frv. vegna minna efasemda, bæði utan þings og innan, og það hefur enginn komið með þessa ábendingu fyrr. Ég get ekki séð minnstu ástæðu til að bæta þessu inn í frv. þó ég beri góðan hug til kvenna hvort sem þær eru vanfærar eða ekki.