08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4991 í B-deild Alþingistíðinda. (4257)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 3. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Kannske hæstv. forsrh. hafi með lokaorðum sínum hér áðan sætt þingheim við hina spakviturlegu lausn á deilumálinu um auglýsingar að gefa þær frjálsar, þ. e. gefa öllum keppinautum á markaðinum, sem kynnu að stofna til útvarps- eða sjónvarpsstöðvar, heimild til þess að flytja og birta auglýsingar gegn gjaldi að því tilskildu að auglýsingaiðnaðurinn færist inn í landið. Að því er varðar hugmyndina um gjaldtöku af erlendum aðilum til þess að efla innlenda dagskrárgerð, þá liggur sú till. hér fyrir og hefur lengi legið hér fyrir og ef ég má skilja orð hæstv. forsrh. á þá leið að hann styðji hana fagna ég þeim stuðningi.

Ég er hingað kominn til þess, herra forseti, að mæla fyrir brtt. á fjórum þskj. Það eru í fyrsta lagi á þskj. 863 breytingar á frv. til útvarpslaga. Sú er skýring á þessu máli að þar sem við fluttum á sínum tíma nánast sérstök útvarpslög, þ. e. gerðum ráð fyrir allt annarri kaflaskiptingu, á þskj. 518, þá höfum við nú tekið þann kost að draga þær till. í heild sinni til baka, en flytja þær að nýju á sérstöku þskj., 863, og þá er birtingarröð þessara till. í samræmi við frv. eins og það liggur nú fyrir að lokinni 2. umr. Við höfum þannig fallið frá sérstökum tillögum um að kaflaskipting frv. verði önnur.

Í annan stað flytjum við brtt. á þskj. 862 sem eru fyrri till. okkar um boðveitukerfi í eigu sveitarfélaga, en að þessu sinni flutt sem ákvæði til bráðabirgða er orðist svo: „Þar til lokið er endurskoðun þeirra ákvæða fjarskiptalaga, nr. 73/1984, er snerta boðveitur í eigu sveitarfélaga, gilda eftirfarandi ákvæði um uppsetningu og rekstur þeirra.“ Síðan koma þessar till. sem ákvæði til bráðabirgða. Þessi tillöguflutningur er beint svar við þeirri gagnrýni að tillögur um boðveitukerfi eigi ekki heima í útvarpslögum, heldur sé æskilegt að fella þær inn í lagabálk um fjarskiptalög. Í raun og veru var okkar sjónarmið þveröfugt, það hefði átt að endurskoða útvarps- og fjarskiptalög samtímis. Það var ekki gert. Við teljum að þessi breyting sé kjarni málsins og því verði ekki frestað. Afstaða okkar til ýmissa annarra till. að því er varða þetta mál er undir því komin hvort þessi hugmynd um boðveitukerfi í eigu sveitarfélaga fær samþykki eða ekki. Þess vegna flytjum við þetta sem till. um ákvæði til bráðabirgða og meiningin er sú að þar til endurskoðun fjarskiptalaga hefur farið fram gildi þessi ákvæði í stað annarra ákvæða fjarskiptalaga.

Loks flytjum við á þskj. 861 brtt. við till. frá hv. þm. Kristínu Kvaran sem efnislega er heimild fyrir frelsi til þess að birta og selja auglýsingar. Brtt. er á þá leið að úr till. Kristínar falli brott „Útvarpsstöðvar skulu sjálfar ákvarða verð þeirrar þjónustu sem þær veita“ og í staðin komi: Gjaldskrár fyrir auglýsingar skulu háðar samþykki úfvarpsréttarnefndar. Með öðrum orðum er hér flutt brtt. við heimildina til þess að birta auglýsingar um það að á tilraunatímanum verði gjaldskrár slíkra auglýsinga háðar samþykki útvarpsréttarnefndar. Sá tillöguflutningur er þó skilyrtur því að það fáist stuðningur við till. okkar um boðveitukerfi sveitarfélaga sem við teljum aðalatriði málsins.

Þá vil ég fyrst víkja örfáum orðum að því. Hvers vegna það er svo? „Afnám ríkiseinokunar“ og „frjálst útvarp“ eru einföldustu slagorðin sem menn bera sér í munn í sambandi við þetta mál. Það er víðtækur stuðningur fyrir því að gera tilraun með að afnema einokunarrétt Ríkisútvarpsins, en menn eru hins vegar ekki á eitt sáttir um hvað á að koma í staðinn. Eru menn sáttir við að í stað ríkiseinokunar komi forræði nokkurra mjög öflugra fjölmiðlarisa sem hugsanlega nái allt að einokunarstöðu eða forræðisaðstöðu á markaðinum? Er það það sem fyrir mönnum vakir? Að því er okkur varðar er það ekki svo. Og ef við viljum koma í veg fyrir þetta og móta einhverja stefnu fram í tímann að því er þetta varðar er aðalatriðið í okkar huga spurningin: Hverjir eiga að eiga hið sameiginlega boðveitukerfi? Á það að vera í einkaeign líka? Eiga slík fyrirtæki að eignast sjálft boðveitukerfið, sem er forsendan fyrir því að þau geti náð þessu forræði á markaðinum, eða ætlum við að fara þá leið að boðveitukerfið verði á einni hendi, og í okkar till. í eigu sveitarfélaga, sem er raunverulega stefnumótandi um lýðræðislega þróun í þessu efni? Þar með er tryggt að aðrir aðilar, þó smáir kunni að vera og hafi lítið fjárhagslegt bolmagn, eigi jafnan aðgang og jafnan rétt að rásum í slíku kerfi. M. ö. o.: Till. er um það í stað einokunar Ríkisútvarpsins komi frjáls aðgangur sem flestra til þess að sinna dagskrárgerð og koma á framfæri efni í þessum fjölmiðlum, sem er auðvitað aðalatriðið, hvað fram fer í þeim, í stað þess að þar verði fjárhagsvald örfárra stórfyrirtækja allsráðandi.

Til þess að skýra þetta örlítið nánar langar mig til þess, með leyfi forseta, að vitna í það sem við sögðum að gefnu tilefni við 2. umr. málsins um þetta efni. Við leggjum til að inn í frv. komi, og þá núna sem ákvæði til bráðabirgða, nýtt ákvæði um boðveifur sveitarfélaga. Ábendingar um það hafa borist bæði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Boðveitur á vegum sveitarfélaga eru ýmist þegar staðreynd eða í uppbyggingu í mörgum nágrannalöndum okkar. Um slíkar veitur er flutt efni af margvíslegu tagi. Má þar til nefna hljóðvarpsdagskrár, sjónvarpsdagskrár og svokölluð skjárit eða videotex. Enn fremur eru slíkar boðveitur notaðar til þess að flytja tölvuboð. Boðveitur eru því bæði notaðar til fjölmiðlunar í eiginlegri merkingu þess orðs og til einstaklingsbundinnar boðmiðlunar í formi tölvuboðmerkja, þ. e. þetta er eins konar æðakerfi hins tölvuvædda upplýsingaþjóðfélags framtíðarinnar. Upphaflega voru þessar boðveitur háðar þræði. Þær voru kapalkerfi af því tagi sem við könnumst við. Tilkoma glertrefjaþráða, sem nú standast fyllilega samkeppni við venjulega kapla hvað snertir verð, hefur valdið byltingu á þessu sviði. Önnur nýtilkomin nýjung mun einnig valda miklum breytingum á þessu sviði. Sú nýjung er að komið er fram á sjónarsviðið þráðlaust kerfi þar sem nota má um 12 cm bylgjulengd og hægt er að flytja margar rásir samtímis á afmörkuðu svæði fyrir tiltölulega lágt verð.

Gert er ráð fyrir því í okkar till. að boðveitur lúti hver um sig sérstakri stjórn sem eingöngu sjái um rekstur en hafi ekkert með dagskrárgerð að gera eða útsendingu efnis. Að okkar mati er hér um að ræða meginatriði þess máls, nefnilega að glögg skil séu gerð á milli annars vegar dreifikerfisins og hins vegar þeirra aðila sem leggja til innihaldið, þ. e. sjálfa dagskrána. Fjölmargir aðilar, útvarpsfélög og einstaklingar, eiga þannig aðgang að einu sendikerfi sem er undir stjórn annars aðila. Allir sem uppfylla sett skilyrði eiga aðgang að boðveitunni. Þetta fyrirkomulag þýðir að boðveitan er í rauninni öllum opin. Hún er það sem á ensku máli er nefnt common carrier sem er grundvallarregla varðandi framtíðarþróun þessara mála í grannlöndum okkar.

Ákvæði um boðveitur sveitarfélaga eiga að tryggja að öllum almenningi nýtist kostir hinnar nýju fjölmiðlunartækni. Þau eiga að tryggja að ekki taki við einokun fjársterkra einkaaðila af einokun Ríkisútvarpsins. Í þessum skilningi er þetta grundvallaratriði. Þau eiga að tryggja að ekki aðeins fjölgi þeim aðilum sem fást við útvarps- og sjónvarpsrekstur, heldur aukist raunveruleg fjölbreytni að því er varðar dagskrárefni og áhorfendur og hlustendur hafi raunverulegt val. Tjáningarfrelsið eykst með þessu fyrirkomulagi og lýðræðið fær betur notið sín. Í þessum skilningi er þetta þýðingarmesta atriði þessa máls.

Frá því er að segja að þessar till. okkar, sem við lögðum fram snemma í umfjöllun málsins, snemma á s. l. hausti, hafa ekki fengið nægilega virkan stuðning hingað til. Menn hafa borið því við að þessi ákvæði eigi heima í fjarskiptalögum og þetta eigi að endurskoða, það eigi að skipa nefnd, það eigi að taka afstöðu til þess síðar. Við getum ekki sætt okkur við þetta sjónarmið. Við teljum að þetta sé rangt. Við teljum nauðsynlegt að taka afstöðu til þessa grundvallaratriðis strax vegna þess að það er stefnumótandi um alla þá stefnu sem við tökum í málinu. Þess vegna höfum við farið þá leið að flytja þessi ákvæði um boðveitukerfi sveitarfélaga sem ákvæði til bráðabirgða sem verði í gildi þangað til menn hafa lokið því verki að endurskoða fjarskiptalögin í heild sinni og tekið þá afstöðu til þess hvort þeir vilja afnema einokunarrétt Pósts og síma í þeim efnum sem að mínu mati og margra annarra hefur að verulegu leyti staðið fyrir þrifum vexti og viðgangi rafeindaiðnaðar í landinu.

Þá er spurningin: Eru einhver líkindi á því að menn fallist á þetta sjónarmið?

Ég nefni því til stuðnings að það hefur komið fram í till. BJ stuðningur við slíkt sjónarmið. Þó að þeir geri að vísu ráð fyrir því í sínum tillögum að sveitarstjórnir hafi einkarétt á uppsetningu kapalkerfa, þá er þeim heimilt skv. þeim till. að framselja þennan rétt til einstaklinga eða félaga með samningum. Út af fyrir sig kann það að koma til álita.

Í annan stað hefur það komið fram í till. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að Alþb. styður það grundvallarsjónarmið að dreifikerfið sjálft skuli vera í opinberri eigu þó mér sé ekki fullkomlega ljóst hvort þeir eru því sammála að það skuli vera sveitarfélögin eða einhver ríkisstofnun sem fari þar með umboðið. (HG: Hvort tveggja.) Hvort tveggja gæti komið til greina.

Í þriðja lagi er þess að geta að á landsfundi Sjálfstfl. var, eftir því sem ég er upplýstur um, samþykkt tillaga á þá leið að stefna beri að afnámi einkaréttar Pósts og síma í þessu efni. Mér skilst hins vegar að þar hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvað skuli koma í staðinn, hvort það eigi að vera einkaréttur sveitarfélaga eða einhverra annarra, en a. m. k. er afstaða tekin gegn einokunarrétti Pósts og síma.

Í fjórða lagi er þess að geta að þótt þeir framsóknarmenn hafi ekki í starfi menntmn. tekið undir þessar till. okkar hefur það heyrst hjá þeim að þeir geti vel hugsað sér að styðja slíkar till., enda væri annað óeðlilegt ef þeir meina eitthvað með því að þeir séu málsvarar byggðanna því að þar með væri það á valdi sveitarstjórnanna í hinum dreifðu byggðum vítt og breitt um Ísland að móta þróunina í þessum efnum.

Það er út frá þessum grundvallarsjónarmiðum sem við leggjum megináherslu á þetta mál og flytjum það nú sem ákvæði til bráðabirgða.

Meginröksemdirnar hef ég þegar flutt fyrir þessu, en þær eru einfaldlega á þá leið að þetta er stefnumótandi fram í tímann, ekki aðeins að því er varðar þetta einstaka mál heldur að því er varðar rammann sem við höfum utan um þá þróun sem verða mun í tölvuvæðingu þessa þjóðfélags. Það varðar ekki bara fjölmiðlun, það varðar boðmiðlun einstaklinga líka og það varðar jafnan rétt hinna mörgu smáu aðila í þessu þjóðfélagi til þess að koma á framfæri í gegnum þetta sameiginlega veitukerfi dagskrám, upplýsingum. M. ö. o. stuðlar það að lýðræðislegri þróun í þessum efnum og það er grundvallarsjónarmið.

Í öðru lagi er það spurningin um auglýsingarnar. Afstaða okkar var sú að við töldum að þegar um væri að ræða lokuð kapalkerfi, þar sem tæknilega er gerlegt að innheimta áskriftargjöld af neytendum þeirrar þjónustu sem þar er boðin, væri óþarfi að hafa jafnframt heimild til að afla tekna fyrir slíkar stöðvar með auglýsingum. Við gerðum okkur að vísu ljóst að þetta kann að vera álitamál. Kjarni málsins er einfaldlega: Við erum að reyna að feta okkur áfram, að efna til tilraunaþróunar sem á að standa í þrjú ár. Ég felst á það sjónarmið að það sé kjarni málsins að þeir aðilar sem fara út í slíkan rekstur eigi að sitja við sama borð, vera á samkeppnisgrundvelli. Þetta þýðir að ef við viðhöldum heimildum Ríkisútvarpsins sem stofnunar, hljóðvarps og sjónvarps, til þess að afla tekna með auglýsingum getur það jafnvel verið útilokandi þáttur ef keppinautar þess, sem verið er að heimila starfsemi samkv. þessum lögum, fá ekki að afla tekna með slíkum hætti. Þetta er spurningin um að menn sitji við sama borð, að keppinautar keppi á sama grundvelli.

Við erum m. ö. o. tilbúin að fallast á að auglýsingar verði heimilaðar öllum aðilum á sama grundvelli að því tilskildu að á tilraunatímanum verði verðlagsákvæðum við haldið að því er þetta varðar, sbr. brtt. á þskj. 861 um að gjaldskrár fyrir auglýsingar skuli háðar samþykki útvarpsréttarnefndar. Samt er þessi afstaða algerlega bundin því hver verða örlög till. okkar um boðveitukerfi. Það er miklu auðveldara að fallast á að þetta nái fram að ganga á tilraunatímanum ef það er um leið tryggt að sjálft veitukerfið verði í eigu félagslegs aðila og eins aðila. Það þýðir að við erum ekki að renna stoðum undir væntanlega fjölmiðlarisa eða einokunarfyrirtæki með því að samþykkja hér auglýsingar. Hinn sameiginlegi aðgangur að boðveitukerfinu er tryggður öðrum aðilum sem þurfa ekki mikið fjárhagslegt bolmagn til þess að leigja sér rás í slíku kerfi og koma á framfæri því sem þeir vilja, hvaða félagsskapur sem það er eða jafnvel einstaklingar.

Ég hygg að þetta dugi til að skýra aðalatriðin í afstöðu okkar til málsins á þessu stigi.

Ég vil láta þess getið, af því ég vék nokkrum orðum að afstöðu annarra stjórnmálaflokka til till. um boðveitukerfi, að í nýútgefinni skýrslu fjarskiptanefndar, sem unnin hefur verið á vegum nefndar sem starfað hefur að frumkvæði Verslunarráðs Íslands, er vikið að þessari spurningu um dreifikerfið, í kafla um helstu niðurstöður, með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Enn er almennt talið að staðbundin dreifikerfi, jarðstrengir, verði ekki rekin með hagkvæmni nema í eigu eins aðila, einkafyrirtækis, sveitarfélaga eða ríkis. Þó þekkjast dæmi þess að samkeppni hafi verið innan svæða þegar um er að ræða þjónustu fyrir vissa hópa, t. d. viðskiptalífið.“

Þarna er viðurkennt að meginreglan sé sú að þegar um er að ræða kapalkerfi eða veitukerfi af slíku tagi verði þau ekki rekin með hagkvæmni að öðru jöfnu nema þau séu í eigu eins og sama aðilans.

Afstaða okkar er m. ö. o. þessi: Við erum tilbúnir til þess að fallast á heimild til þess að auglýsingar verði leyfðar á jafnréttisgrundvelli öllum aðilum, sem gera þessar tilraunir á tilraunatímanum, að því tilskildu í fyrsta lagi að gjaldskrár verði háðar samþykki útvarpsréttarnefndar og í annan stað að ákvæðin um einn eiganda, þ. e. sveitarfélögin, að því er varðar boðveitukerfin nái fram að ganga. Fari svo öndvert mínum vonum, miðað við afstöðu flokkanna hingað til, að till. um boðveitukerfin verði ekki samþykktar áskiljum við okkur hins vegar rétt til að endurskoða afstöðu okkar þegar málið kemur til Ed.