09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5019 í B-deild Alþingistíðinda. (4291)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Frsm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Allshn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. sem heitir því stirða nafni: um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, öðru nafni svokölluð tölvulög.

Þessi lög tóku gildi 1. janúar 1982 og þá var í þeim ákvæði á þessa leið, með leyfi forseta: „Lög þessi taka gildi 1. janúar 1982 og falla úr gildi hinn 31. desember 1985.“ Þá segir enn fremur svo í 30. gr. laganna: „Dómsmrh. skal endurskoða lögin og leggja fram frv. þar að lútandi fyrir Alþingi í þingbyrjun 1984.“

Þetta hefur allt gengið eftir og þær breytingar sem lagt hefur verið til að gerðar séu á þessari löggjöf eru tiltölulega lítilvægar.

Síðla árs 1983 leitaði dómsmrh. álits tölvunefndar á því hvaða breytingar nefndin legði til að yrðu gerðar á lögunum og dómsmrh. gerði að sínum tillögum þær brtt. sem samkomulag var um í nefndinni. Þær eru raktar í athugasemdum við frv. eins og það var lagt hér fram og ég tel ástæðulaust að fara að gera þær að sérstöku umtalsefni, það var gert hér þegar að mælt var fyrir málinu. Þetta eru ekki stórvægilegar breytingar, enda segir tölvunefnd í bréfi sínu til ráðh., með leyfi forseta:

„Lög nr. 63/1981 hafa verið í gildi í tæp tvö ár og er því fengin nokkur reynsla af framkvæmd þeirra. Segja má að lögin hafi reynst vel í framkvæmd og ekki komið fram stórvægilegir gallar á þeim.“

Þegar þessi lög voru til meðferðar hér á Alþingi 1981 var lögð mikil vinna í að breyta og laga það frv. sem upphaflega var lagt hér fram. M. a. tóku þátt í þeirri vinnu Þorkell Helgason dósent og Hjalti Sóphóniasson sem síðar varð ritari tölvunefndar. Ég held að þessi mikla vinna, sem var lögð í þetta þá, hafi skilað árangri, þ. e. að sú löggjöf sem varð til sem afrakstur þeirrar vinnu hefur reynst vel í framkvæmd.

Á fund allshn. nú, þegar þetta mál var til meðferðar, komu Benedikt Sigurjónsson formaður tölvunefndar og Hjalti Sóphóníasson ritari nefndarinnar og gerðu grein fyrir þeim brtt. sem gerðar hafa verið á frv. Enn fremur var rætt um þær till. sem ágreiningur var um en sem ekki er lagt til hér að séu látnar koma til framkvæmda.

Það var á nefndarfundi í morgun sem allshn. afgreiddi þetta mál út úr n., en ég skal hins vegar játa að ég hef fengið svolítinn bakþanka eftir að við afgreiddum málið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að milli 2. og 3. umr. ætti n. að skjóta á fundi og ræða í sinn hóp hvort ekki er rétt að hafa sams konar ákvæði í 31. gr. laganna og var áður, þ. e. að lögin gildi ekki nema ákveðinn tíma og við skulum segja að að þremur árum liðnum eða tveimur árum liðnum skuli dómsmrh. leggja fram endurskoðað frv. að nýju. Á þessum vettvangi eru breytingar svo örar og gerast svo fljótt að það hlýtur að vera nauðsynlegt að aðlaga þessa löggjöf breyttum aðstæðum á hverjum tíma. Það er nauðsynlegra með þessi lög en flesta aðra löggjöf held ég.

Eins rekur mig minni til að hafa heyrt í fréttum fyrir fáeinum dögum að í Danmörku, að mig minnir, hafa verið stórhert viðurlög við tölvumisferli, tölvuglæpum sem menn virðast vera býsna lagnir við að iðka þó að það sé kannske ekki vandamál hér enn sem komið er. En reynslan segir okkur að öll vandamál og öll afbrot sem upp koma í nágrannalöndunum koma hingað fyrr eða síðar. Það tekur kannske tvö til þrjú ár. Ég er ekki að leggja til að gerðar verði breytingar á refsiákvæðum þessarar löggjafar nú, en ég held að það væri alveg tímabært að horft yrði sérstaklega til þeirra mála og þá með tilliti til þeirra breytinga á löggjöf sem gerðar hafa verið á Norðurlöndunum og við sem sagt öflum okkur reynslu þaðan um hvernig löggjöfin, sem þar er í gildi, er brotin, hverjar séu algengustu tegundir tölvuafbrota o. s. frv. Ég held að það sé ákaflega brýnt að við fylgjumst með þeim málum.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri. N. mælir með samþykkt frv., en ég mæli með því og óska eftir því að n. komi saman til stutts fundar milli 2. og 3. umr., sem væntanlega gæti verið þá núna á eftir, til að taka afstöðu til þeirrar till., sem ég hef munnlega gert grein fyrir, og þá að sjálfsögðu að höfðu samráði við hæstv. dómsmrh.