09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5060 í B-deild Alþingistíðinda. (4355)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á Alþingi 1982 lögðu þm. Alþfl. fram frv. sem hafði það að markmiði, eins og þetta frv. sem hér er til umr., að jafna greiðslubyrði á fasteignaveðlánum einstaklinga vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Frv. hlaut þá afgreiðslu hér á Alþingi 1982 að meiri hl. fjh.- og viðskn., skipaður fulltrúum Framsfl., Sjálfstfl. og Alþb., lögðu til að málinu yrði vísað til ríkisstj. og var meginröksemd þeirra að þó meiri hlutinn teldi að jafna bæri greiðslubyrði fullverðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga taldi meiri hlutinn ekki rétt að fara löggjafarleiðina að greindu marki, heldur væri eðlilegra að leita samráðs í þessu máli við lánastofnanir. Minni hl., skipaður fulltrúa Alþfl. Sighvati Björgvinssyni, lagði hins vegar til að frv. yrði samþykkt. Í nál. minni hl. kom fram að um væri að ræða mál sem skipta mundi sköpum fyrir fjölmarga aðila sem væru að kikna undir greiðslubyrði lána þar eð lánskjaravísitalan hefði hækkað langt umfram kaupgjald og allar greiðsluáætlanir húsbyggjenda farið úr skorðum. Benti minni hl. á að þótt fyrir lægi skilningur og góður vilji meiri hl. í þessu máli væri hætta á að litið yrði úr framkvæmd ef ekki yrðu lögfest ákvæði þar að lútandi. Sú spá hefur vissulega ræst.

Nú, þremur árum eftir að sú málsmeðferð var lögð til, m. a. af fulltrúum núv. stjórnarflokka, en þrír núv. ráðh. skipuðu þá m. a. meiri hl. í hv. fjh.- og viðskn., sem lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstj. á þeirri forsendu að ekki væri hægt að fara löggjafarleiðina í þessu máli, þá er lagt til af núv. ríkisstj. að löggjöf verði sett um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og að því standa þá væntanlega ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson, Matthías Á. Mathiesen og Albert Guðmundsson sem kváðu svo á um í nál. fyrir þremur árum að allsendis ófært væri að setja löggjöf um þetta efni.

Nú ber vissulega að fagna að menn viðurkenni með þessum hætti að þeir höfðu rangt fyrir sér og viðurkenna, eins og hæstv. forsrh. hefur gert, að um hafi verið að ræða meiri háttar pólitíska skyssu og mistök og rétt hefði verið, eins og Alþfl. knúði fast á um fyrir þremur árum, að sett yrði löggjöf um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. En hefðu hv. alþm. áttað sig á því fyrr hvað hér var brýnt mál á ferðinni á árinu 1982, þá hefði mátt koma í veg fyrir eða a. m. k. draga verulega úr þeim gífurlegu greiðsluerfiðleikum sem íbúðarkaupendur og húsbyggjendur hafa orðið fyrir á undanförnum árum og keyrðu um þverbak þegar vísitala launa var tekin úr sambandi en lánskjaravísitalan fékk að æða óheft áfram.

Alþfl. lagði að nýju fram þetta frv. á yfirstandandi þingi, sem tryggja átti jöfnun á greiðslubyrði húsnæðislána, og þó málið sé brýnt veit ég ekki til að málið hafi fengið neina umfjöllun svo að heitið geti í hv. fjh.- og viðskn. þótt það hafi legið þar á fjórða mánuð, en væntanlega er hugmynd ráðh. sú að frv. ríkisstj. verði afgreitt með forgangshraði nú á hv. Alþingi.

Ég vil gagnrýna þau vinnubrögð að ekki hafi verið nýttur betur sá tími sem Alþingi þó hafði til að fjalla um þetta mál þegar fyrir þinginu hefur legið á fjórða mánuð frv. svipaðs efnis sem Alþingi var fullfært um að taka afstöðu til og fjalla um, en þá fyrst sé tekið til hendi um skoðun þessa máls þegar ráðh. hefur á mestu annadögum þingsins stuttu fyrir þinglok lagt fram frv. um svipað efni sem af sjálfu leiðir að fær þá ekki eins vandaða meðferð og umfjöllun á hv. Alþingi og hægt hefði verið ef hv. fjh.- og viðskn. hefði nýtt það svigrúm sem gafst þar sem á fjórða mánuð hefur legið fyrir Alþingi frv. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Við erum á þessum síðustu vikum þingsins að sigla inn í hefðbundin vinnubrögð í þinglok, að Alþingi er í raun ekkert annað en stimpilstofnun fyrir frv. ríkisstj. sem samin eru af embættismönnum og fá þar ítarlega skoðun og umfjöllun, þar sem embættismennirnir taka sér þann tíma sem þeir þurfa, en alþm., sem ábyrgð bera á lagasetningunni, er ætlaður skammur tími, kannske örfáir dagar, til skoðunar á málum. til að mynda þessu máli, í sex umræðum í deildum og umfjöllun í tveim nefndum. Enn sér engan veginn fyrir endann á þessum skrípaleik því skv. lista ríkisstj. virðist svo vera að nálægt tveir tugir frv. séu enn ókomnir fram í þinginu, þ. á m. ýmsir stórir lagabálkar sem ítarlega umfjöllun ættu að þurfa að fá hér á hv. Alþingi ef eðlileg vinnubrögð væru í heiðri höfð.

Við það frv. sem hér er til umfjöllunar hef ég ýmislegt að athuga, enda gengur það að mörgu leyti skemur en tillögur Alþfl. í þessu efni.

Í fyrsta lagi nær greiðslujöfnunin eingöngu til fasteignaveðlána einstaklinga hjá Byggingarsjóði ríkisins og allir endar lausir. Hvað verður um greiðslujöfnun húsnæðislána hjá lífeyrissjóðunum og bönkum?

Í öðru lagi þurfa þeir húsbyggjendur og íbúðakaupendur sérstaklega að leita eftir þessari fyrirgreiðslu um greiðslujöfnun sem lán tóku fyrir gildistöku þessara laga, en fá ekki sjálfkrafa leiðréttingu.

Í þriðja lagi er sú launavísitala, sem greiðslujöfnunin á að miðast við, óhagstæð þeim sem hafa minnstar tekjur sér til framfærslu, nefnilega þeim sem ekki njóta yfirborgana, hlunninda eða fríðinda í einhverju formi eða geta aukið tekjur sínar með yfirvinnu. Þessi viðmiðun er t. d. óhagstæð opinberum starfsmönnum, sem ekki njóta yfirborgana eins og algengt er á almenna vinnumarkaðinum, og öðrum lægra launuðum þjóðfélagshópum, eins og stórum hópi kvenna sem byggja afkomu sína á kauptöxtunum og eru ekki í aðstöðu til að bæta á sig yfirvinnu eða njóta hlunninda í formi yfirborgana eða annarra kaupauka. Launavísitalan, sem frv. gerir ráð fyrir, skal samsett að jöfnu úr vísitölu atvinnutekna á mann og vísitölu meðalkauptaxta allra launþega. Vægi þessarar vísitölu byggist því að hálfu á breytingu launa umfram samningsbundnar launagreiðslur og með atvinnutekjum er átt við hvers konar tekjur, hvort sem greitt er í peningum eða öðrum hlunnindum. Það segir sig því sjálft að með þessari viðmiðun, sem hér er lögð til, er mismunur launa og lánskjara mun meiri hjá tekjulægri hópunum og þar af leiðandi þyngri greiðslubyrði en hjá þeim sem hafa verulegan hluta tekna sinna gegnum yfirborganir og aðra kaupauka. Er hér nægjanlegt að vísa til þess dæmis um greiðslujöfnun sem fram kemur á bls. 6 í fskj. með þessu frv. Þar kemur fram sá mismunur sem myndast hefur á launum og lánskjörum frá mars 1982 áætlað fram til ársins 1986, en þar er um að ræða að á 157 þús. kr. láni sem tekið er 1. mars 1982 sé mismunur lánskjara og launavísitölu rúmar 34 þús. kr. Sá munur verður mun meiri ef ekki er miðað við launavísitölu eða að hálfu vægi atvinnutekna, en inni í henni er reiknað meðaltal heildartekna, þar með talið yfirborganir. kaupaukar og yfirvinna, sem gefur engan veginn rétta mynd af tekjum lægra launuðu hópanna í þjóðfélaginu. Ef í þessu sama dæmi og fram kemur á bls. 6 í frv. er reynt að áætla hver mismunurinn á launum og lánskjörum hefði orðið á þessu fjögurra ára tímabili, sem þar kemur fram, og vísitala viðmiðunar væri meðaltal kauptaxta allra launþega, þá hefði mismunurinn í þessu dæmi, sem birt er með þessu frv., þ. e. sú greiðsla sem frestað er vegna misvægis lánskjara og launa, verið um 50 þús. kr. en ekki 34 þús. eins og í þessu dæmi. M. ö. o.: sé notað meðaltal vísitölu kauptaxta allra launþega í stað þeirrar launavísitölu sem hér er gert ráð fyrir verður sá mismunur sem húsbyggjendur og íbúðarkaupendur eiga tök á að festa um 40–50% hærri en sá mismunur sem sýndur er þegar viðmiðunin er launavísitala eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Í fjórða lagi vil ég nefna ákvæði til bráðabirgða. Þar er hæstv. ríkisstj. greinilega með tilburði uppi til að bæta fyrir mistök sín og þá meiri háttar pólitísku skyssu sem hæstv. forsrh. hefur ítrekað bent á opinberlega, þ. e. að ríkisstj. skyldi ekki fara að ráðum Alþfl. 1982 og samþykkja það frv. sem þá lá fyrir um greiðslujöfnun á lánum vegna öflunar húsnæðis. En þetta ákvæði til bráðabirgða er augljóslega mjög gallað og nær skammt því að einungis þeir sem eru í umtalsverðum greiðsluerfiðleikum að mati Húsnæðisstofnunar geta sótt um afturvirkni greiðslujöfnunar. Ef ég skil þetta ákvæði rétt er um að ræða þann mismun sem myndast hefur frá mars 1982 og þar til kemur að næstu greiðslu afborgana og vaxta af lánum þegar lögin taka gildi. Menn geta fengið þeim mismun frestað og dregið frá næstu greiðslu afborgana og vaxta. Þetta ákvæði mun vissulega hafa mikla þýðingu og létta á greiðslubyrði fyrir þá sem slíka fyrirgreiðslu geta fengið, en ákvæðið er opið í alla enda um það hverjir fá slíka fyrirgreiðslu og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess.

Ég á von á því að það verði stór hópur húsbyggjenda og íbúðakaupenda sem sækir um slíka fyrirgreiðslu, en þeir eiga von á að á næsta gjalddaga lána eftir að lög þessi taka gildi geti þeir fengið frestað vegna uppsafnaðs mismunar frá árinu 1982 kannske 20–40 þús. kr.

En sú spurning stendur eftir: Hverjir geta sótt um slíka fyrirgreiðslu? Eru það þeir sem eiga sínar íbúðir undir hamrinum eða þeir sem geta sýnt fram á bréf frá fógeta um nauðungaruppboð? Þurfa viðkomandi að vera í vanskilum við Húsnæðisstofnun til að fá slíka fyrirgreiðslu? Fá þeir fyrirgreiðslu sem staðið hafa í skilum með sín húsnæðislán en eru aftur á móti í mikilli skuld með sín opinberu gjöld hjá Gjaldheimtunni, t. d. af því að þeir létu húsnæðislánin ganga fyrir? Spurningin er: Hver er viðmiðunin? Hvar eru mörkin? Þurfa menn að sanna fátæki sína eða greiðsluerfiðleika til að fá þessa fyrirgreiðslu? Ég held, herra forseti, að hæstv. félmrh. þurfi að gera Alþingi betri grein fyrir framkvæmd þessa ákvæðis en hér er gert.

Og önnur spurning til hæstv. félmrh.: Hvaða áhrif mun þetta ákvæði hafa á ráðstöfunarfé byggingarsjóðanna? Skv. útreikningum á bls. 7 í frv. er varla ofáætlað að ráðstöfunartekjur Húsnæðisstofnunar geti dregist saman um 123 millj. vegna minni endurgreiðslu til byggingarsjóðanna skv. ákvæðum frv. Ég vil spyrja: Hvaða ráðstafanir hyggst hæstv. félmrh. gera til að þetta hafi ekki áhrif á lánveitingar úr byggingarsjóðunum á þessu eða næsta ári? Verður aukið fjármagn til byggingarsjóðanna vegna þessara sérstöku ráðstafana í frv. sem hér er til umr. eða munu ákvæði þessa frv. hafa þau áhrif að samdráttur verður í lánveitingum byggingarsjóðanna sem nemur þeim endurgreiðslum sem fresta verður til byggingarsjóðanna hjá þeim sem nú eru í greiðsluerfiðleikum? Bætist þessi mismunur við þá fjárvöntun sem fyrir er hjá byggingarsjóðunum, sem ef ég man rétt er skv. lánsfjáráætlunum 700–800 millj. kr., eða til hvaða ráðstafana verður gripið til að standa við lánveitingar úr byggingarsjóðunum til þeirra sem nú eru að byggja eða kaupa sér húsnæði?

Herra forseti. Þó þetta frv. sé vissulega spor í rétta átt hef ég, eins og hér hefur komið fram, ýmislegt við þetta frv. að athuga og ljóst er að þessar ráðstafanir nægja engan veginn nema sem einn liður í þeim heildarráðstöfunum sem gera þarf í húsnæðismálum.

Hæstv. félmrh. hefur óskað eftir því að þetta frv. fari til umfjöllunar í hv. félmn. Ég vil benda hæstv. forseta þessarar deildar á það, eins og reyndar hefur komið fram í máli mínu, að fyrir hv. fjh.- og viðskn. liggur frv., 267. mál þessa þings, sem er svipaðs efnis og frv. sem við fjöllum nú um. Því tel ég eðlilegt að frv. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga gangi einnig til hv. fjh.- og viðskn. Ég hlýt að óska eftir því, herra forseti, að sú nefnd sem fær frv. til meðferðar taki til umfjöllunar samhliða þessu frv. frv. á þskj. 267, sem er um svipað efni og legið hefur fyrir hv. fjh.- og viðskn. á fjórða mánuð, og að það frv. fái einnig afgreiðslu frá nefndinni samhliða því frv. sem nú kemur frá hæstv. félmrh. þannig að nefndin skoði einnig þær leiðir sem þar eru lagðar til um greiðslujöfnun til húsbyggjenda og íbúðakaupenda.