31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þá umsögn Jafnréttisráðs sem hér liggur fyrir tel ég mjög gott innlegg í þá umr. sem hér fer fram um frv. hæstv. félmrh. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og þmfrv. á þskj. 109. Á s.l. Alþingi, þegar frv. þetta var til umr., sagði ég að verið væri að fjalla um frv. til l. um staðfestingu á óbreyttu ástandi í jafnréttismálum kynjanna. Undir þessi orð mín tekur raunar Jafnréttisráð í sinni umsögn, en í umsögn Jafnréttisráðs kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Á sínum tíma var setning núgildandi jafnréttislaga spor í rétta átt, en þau hafa nú runnið sitt skeið og geta jafnvel veikt jafnréttisbaráttuna þar sem þau ýta ekki undir nýja umræðu um jafnréttismál og hlífa valdhöfum við að hafast að í jafnréttismálum og breyta stöðu kvenna því lítið.“

Einnig kemur fram að ráðið telji skv. reynslu sinni að kynhlutlaus lög séu áhrifalítil og breyti ekki ríkjandi ástandi í þjóðfélaginu. Og í lok umsagnarinnar kemur fram að ráðið mælir með samþykkt þmfrv. sem kveður á um bætta stöðu kvenna og nái það ekki fram að ganga sé jafnvel betra að una lengur við núgildandi lög en að stjfrv. verði samþykkt.

Ég tel að hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstj. geti varla komist hjá því að taka tillit til þeirra aths. og ábendinga sem fram koma hjá Jafnréttisráði. Jafnréttisráð hlýtur að vera sá aðili sem besta yfirsýn hefur yfir stöðu jafnréttismála og á skv. 10. gr. laga um jafnrétti kvenna og karla frá 1976 að vera ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla. — Ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, segir í þessari grein og það er reyndar ítrekað í 15. gr. í þessu frv. félmrh. Nú er spurningin, þegar fyrir liggja ráð Jafnréttisráðs til stjórnvalda og Alþingis á 7 bls. í þessari umsögn og ítarlega rökstudd, hvort hæstv. félmrh. og stjórnvöld ætli að fara að þessum ráðleggingum Jafnréttisráðs eða hreinlega að hundsa þær. Það mun koma í ljós nú og reynir því á 10. gr. í núgildandi jafnréttislögum, hvort stjórnvöld ætli að fara eftir ráðleggingum Jafnréttisráðs eða hvort hæstv. félmrh. og ríkisstj. ætla að virða að vettugi ráðleggingar Jafnréttisráðs. Þá mun það auðvitað sýna sig hvort þessi grein jafnréttislaganna, sem kveður á um ráðgjafarhlutverk Jafnréttisráðs gagnvart stjórnvöldum, sé gagnslaus eins og reyndar önnur ákvæði jafnréttislaganna.

Félmrh. leggur til í 15. gr. í stjfrv. að verkefni Jafnréttisráðs sé að vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi. Stefnumótandi, segir hæstv. félmrh. í þessari grein frv. Við skulum skoða nokkru nánar hvað hæstv. ráðh. meinar með því. Hann leggur hér fram stefnulaust frv. sem engum árangri mun skila í jafnréttisbaráttunni. Jafnréttisráð leggur hér fram umsögn sem er stefnumótandi og gæti haft afgerandi áhrif á framgang jafnréttismála hér á landi ef stjórnvöld færu eftir því sem þar segir. Og ég spyr enn: Hvers virði eru slík ákvæði í núgildandi lögum um hlutverk Jafnréttisráðs sem ráðgefandi aðila fyrir stjórnvöld og ákvæði í þessu frv. um hlutverk Jafnréttisráðs sem stefnumótandi aðila í jafnréttismálum ef stjórnvöld ætla að hundsa allar ráðleggingar og stefnumótun sem koma frá Jafnréttisráði? Í umsögn Jafnréttisráðs segir, með leyfi forseta:

„Jafnréttisráð telur tilgang jafnréttislaga eiga að vera þann að kyn sem verr er sett í þjóðfélaginu skuli beinlínis fá stöðu sína bætta með þeim, enda er ekki ágreiningur um að jafnréttislög voru sett á Íslandi árið 1976 vegna ójafnrar stöðu kynjanna að miklu leyti vegna þrýstings frá kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975 og þá ekki síst kvennadeginum 24. okt. 1975. En hver er staðan nú? Búa konur og karlar við jafnrétti? Ég nefni launamálin. Hver er staðan þar? Þar er enn langt í land að sömu laun séu greidd fyrir sömu eða sambærileg störf. Hæstv. félmrh. svaraði þeirri spurningu raunar sjálfur í framsöguræðu sinni fyrir nokkrum dögum. Hann sagði: Barátta kvenna hefur ekki skilað nægilegum árangri. Og hann sagði: Raunverulegur launamismunur hefur í sumum starfsgreinum verið mikill. Hæstv. ráðh. sagði einnig: Konum hefur reynst erfitt að fá stöðuhækkanir. Og enn fremur segir hann: Vinnumarkaðurinn hefur þróast í átt til skiptingar karla- og kvennastarfsgreina. Þetta er hárrétt hjá hæstv. ráðh. Hann virðist þarna í stórum dráttum vera með á nótunum um stöðu jafnréttismála, a.m.k. af og til, í ræðu sinni fyrir nokkrum dögum. En skilningurinn nær samt ekki lengra en svo að á öðrum stað segir hann að í jafnréttislögum eigi bæði kynin að sitja við sama borð. Hvað með raunveruleikann, hæstv. ráðh.? Sitja konur við sama borð á vinnumarkaðinum og karlar? Fá þær sömu laun fyrir sömu störf? Hvað með vinnumarkaðinn? Hafa þær jafna möguleika? Vinnumarkaðurinn hefur þróast í átt til skiptingar karla- og kvennastarfsgreina, segir hæstv. ráðh. Hvaða afleiðingar hefur það haft? Hver eru kjörin í kvennastarfsgreinunum, hjá fóstrunum, sjúkraliðunum, hjúkrunarstéttinni, Sóknarkonunum og kennarastéttinni, svo að dæmi séu tekin? Stuðlar þetta frv. að því að breyta þeirri skiptingu sem er á vinnumarkaðinum eða að bættum kjörum kvenna í láglaunastéttunum? Nei, á engan hátt að mínu mati.

Lítum nánar á orð ráðh. þegar hann segir að í jafnréttislögum eigi konur og karlar að sitja við sama borð. Hver er reynslan af þeim lagasetningum, sem frá Alþingi hafa farið, sem stuðla eiga að jafnrétti kvenna og karla? Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grg. með beiðni um skýrslu frá félmrh. um framkvæmd laga um jafnrétti kvenna og karla sem óskað var eftir hér á síðasta þingi, en ráðh. lagði ekki fram og enn hefur ekki birst hv. alþm. Hæstv. ráðh. er kannske enn að lesa sér til um allar þær lagasetningar sem settar hafa verið á undanförnum áratugum og áhrif þeirra til að koma á jafnrétti í þjóðfélaginu. Þetta frv. gefur ekki tilefni til að ætla að hann sé langt kominn í þeirri lesningu. En í grg. með beiðni um skýrslu um framkvæmd laga um jafnrétti kvenna og karla segir svo, með leyfi forseta:

„Á undanförnum tveim áratugum hefur Alþingi reynt að stuðla að því með setningu löggjafar um launajöfnuð kynjanna að þessi mannréttindi, sem launajafnrétti kynjanna er, væru virt í samfélaginu. Í því sambandi má benda á lög um launajöfnuð kvenna og karla frá 1961, lög um jafnlaunaráð frá 1973, fullgildingu á alþjóðasamþykkt um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf, lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1976 og nú síðast samþykkt þáltill. í apríl 1980 um úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum.

Þrátt fyrir þessa lagasetningu og samþykktir gefa allar kannanir ótvíræða vísbendingu um að langt sé í land að launajafnrétti kynjanna sé virt í reynd.

Hlutverk Alþingis á ekki einungis að vera löggjafarstarf, heldur einnig að fylgjast með framkvæmd laga og að lögum sé framfylgt í þjóðfélaginu.

Þegar svo er komið að lög um launajafnrétti kynjanna eru þverbrotin í þjóðfélaginu og a.m.k. 23 ár eru liðin síðan Alþingi kvað upp úr um að fullum launajöfnuði kynjanna skyldi náð á árinu 1967, þá ber Alþingi skylda til að grípa í taumana, endurmeta stöðuna og leita raunhæfra leiða til að fá þessi lög virt í samfélaginu. Hér eru ekki einungis í húfi mannréttindi kvenna í samfélaginu, heldur virðing Alþingis sem ekki getur setið hlutlaust hjá þegar lög og aðrar samþykktir, sem Alþingi hefur gert í þessum málum, hafa verið brotin í áratugi.“

Það liggur sem sagt fyrir að þrátt fyrir ótal lagasetningar og samþykktir héðan frá Alþingi hafa almennt orðuð ákvæði um jafnrétti engum árangri skilað og það ætti að liggja ljóst fyrir að þegar sett hafa verið lög um jafnrétti kynjanna, eins og gert hefur verið hér, þar sem tilgangur laganna er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla, þá hafa stjórnvöld þar með tekið að sér að stuðla að jafnrétti. Þegar þær lagasetningar sýna að þær eru gagnslausar og duga ekki ber Alþingi skylda til að grípa í taumana. endurmeta stöðuna og leita raunhæfra leiða til að fá jafnréttislögin virt í samfélaginu.

Enn ein marklaus lög, sem hæstv. félmrh. stefnir að að fá afgreidd héðan frá Alþingi, eru einungis viðbót án breytinga við þá lagabálka og samþykktir í jafnréttismálum sem ekki hafa skilað nægjanlegum árangri. Ég vil þó fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðh. sem fram kom hér fyrir nokkrum dögum, en hæstv. ráðh. lýsti því yfir að unnið væri að því í félmrn. að leggja fyrir Alþingi til staðfestingar fullgildingu á sáttmála um afnám hvers konar misréttis gegn konum. Hæstv. ráðh. vænti þess að unnt yrði að leggja sáttmálann fyrir Alþingi til fullgildingar fyrir áramót. Þess verður því að vænta að hæstv. ráðh. sé sammála þeim ákvæðum sem í sáttmálanum felast og hafi kynnt sér þau ákvæði þó það falli ekki alveg saman við sumt sem fram kom í ræðu hans um daginn. Í sáttmálanum er að finna ákvæði um jákvæða mismunun og eins og fram kemur í umsögn Jafnréttisráðs hefur Ísland gerst aðili að ýmsum alþjóðasamningum og samþykktum þar sem opnaðir eru möguleikar á jákvæðum aðgerðum stjórnvalda til að bæta stöðu ákveðinna þjóðfélagshópa. Vísað er í að nærtækasta dæmið sé sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum. Í umsögn Jafnréttisráðs segir því að sú regla sé almennt viðurkennd að sérstakar aðgerðir til að koma á raunverulegu jafnrétti gangi ekki gegn jafnréttishugsjóninni.

Í umsögn Jafnréttisráðs segir síðan, með leyfi forseta: „Í lögum á Íslandi hafa verið samþykktar reglur sem beinlínis veita ákveðnum þjóðfélagshópum forgang fram yfir aðra þegna þjóðfélagsins. Því fer fjarri að um sé að ræða nýja stefnu í lögum þegar rætt er um jákvæða mismunun í jafnréttislögum. Sem dæmi má nefna lög nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, en í 24. gr. þeirra segir að þeir sem notið hafi endurhæfingar eigi öðrum fremur rétt á atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn annarra sem um starfið sækja.“

Til þess er einnig vitnað í umsögn Jafnréttisráðs að öll Norðurlönd utan Finnland hafi sett almenn jafnréttislög, ýmist um öll svið þjóðlífsins eða einungis um atvinnulíf. Ísland er eina landið sem ekki hefur í lögum sínum ákvæði sem veita ráðrúm til jákvæðra aðgerða til að bæta stöðu þess kyns sem verr er sett. Ekki er ágreiningur um að jafnréttisbaráttu hefur betur miðað í þeim löndum sem hafa þannig jákvæða mismunun í jafnréttislögum sínum.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt öllu frekar. Frv. hæstv. félmrh. er ekki til þess fallið. eins og hann hélt fram í ræðu sinni, að sætta ólík sjónarmið sem uppi eru í þessu máli. Það staðfestir umsögn Jafnréttisráðs rækilega. Ég ráðlegg hæstv. ráðh. eindregið að taka ábendingum og rökum Jafnréttisráðs sem lögum skv. er hans ráðgjafaraðili í jafnréttismálum.