13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5144 í B-deild Alþingistíðinda. (4425)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég er samþykkur meginefni þess frv. sem hér um ræðir. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar. Það gefst tækifæri til að ræða það nánar þar og ég mun því ekki hafa mörg orð við þessa umr.

Ég held að það sé í samræmi við þá stefnumörkun, sem samþykki var á síðasta þingi, að ákvarðanir um laun bankastjóra fari til Kjaradóms. Það var, eins og fram hefur komið hér hjá síðustu ræðumönnum, samþykkt frv. um það á síðasta þingi að launakjör æðstu starfsmanna ríkisins yrðu ákveðin af Kjaradómi. Mér finnst eðlilegt að launakjör bankastjóra ríkisbankanna falli þarna undir, að þeir séu í þessum hópi.

Ég get ekki verið samþykkur því að það sé almennum launasamningum í landinu neitt til framdráttar að þessir æðstu embættismenn fái frjálsan samningsrétt og þar af leiðandi verkfallsrétt. Ég get ekki séð það, það verður að hafa visst öryggi í þessum málum. Ég vil t. d. ekki sjá það að t. d. sýslumenn í landinu fái verkfallsrétt eða æðstu embættismenn yfirleitt. Ég held að verkfallsvopnið sé alveg jafnbeitt hjá launafólki þó að það sjálfsagða öryggisatriði sé viðhaft að þessir menn hafi ekki verkfallsrétt. Það mætti spyrja hvort við alþm. ættum þá að bætast í hóp opinberra starfsmanna og fara í verkfall ef sú staða kæmi upp að þeir færu í verkfall. Ég vil sem sagt ekki samþykkja það að það sé neitt óeðlileg ráðstöfun að laun þessara manna séu ákveðin af Kjaradómi. Ég held að það sé hugsunin á bak við þetta frv.

Ég vil hafa vissa fyrirvara um 2. gr. frv. Ekki það að ég er samþykkur efni hennar en mér finnst einhvern veginn að það sé varla hægt að senda til Kjaradóms fyrirmæli um hvernig hann á að dæma í málum bankastjóra. Þessi ákvæði eiga heima í tollalögum, sem eru nú væntanleg fram. Þetta verður skoðað nánar í nefnd og ég ætla ekkert að orðlengja um það við þessa umr.

Ég get ómögulega fallist á það að það sé vantraust á bankaráðin að vísa ákvörðun um launakjör bankastjóra til Kjaradóms. Það er eðlilegt að taka þennan kross frá bankaráðunum, að semja við bankastjórana um kaup og kjör, og þau hafa nægt hlutverk í eftirliti með starfsemi bankanna þó að þetta sé frá þeim tekið. Ég lít a. m. k. ekki svo á með mínum stuðningi við frv. að það sé að neinu leyti vantraust á bankaráðin og vil láta það koma skýrt fram við þessa umr.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. frekar að sinni en mun skoða málið nánar í nefnd eins og áður hefur komið fram.