15.05.1985
Efri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5291 í B-deild Alþingistíðinda. (4575)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta við örfáum orðum, m. a. út af máli síðasta hv. ræðumanns. Efni þessa frv. var m. a. sent Verslunarráði Íslands til umsagnar sem dró í efa að þessi viðskipti gætu fallið undir lög um verslunaratvinnu. Hins vegar höfum við líka undir höndum álitsgerð frá viðskrn., frá Jóni Ögmundi Þormóðssyni, þar sem segir:

„Í lögum um verslunaratvinnu og í grg. með þeim lögum er engin skilgreining á verslun. Verslunarráð Íslands hefur bent á að leiga skv. almennri málvenju geti ekki kallast verslun. Sú skoðun breytir því þó ekki að ýmis frávik frá almennum málvenjum geta falist í lagaákvæðum og dómaframkvæmd.“

Það er m. a. með tilliti til þessara ábendinga sem við höfum fallist á það að setja þetta ákvæði um leigu lausafjármuna, myndbandaleigur, inn í lögin um verslunaratvinnu. En ég endurtek það sem ég sagði í framsögu minni áðan, að auðvitað er full þörf á því að setja um leigu lausafjármuna löggjöf eða almennar reglur því að þetta form viðskipta er mjög útbreitt milli manna.

Það er eitt sem mér láðist að taka fram áðan og hafði reyndar ekki tekið eftir. Hv. þm. Ragnar Arnalds var samþykkur áliti n. en nafn hans hefur fallið niður undir nál. Ég hafði ekki veitt þessu athygli en tek það fram hér með.