15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5355 í B-deild Alþingistíðinda. (4620)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hvað er það sem stendur eftir að þessum umræðum senn loknum? Það liggur ljóst fyrir að forsendum þessa máls hefur ekki verið hnekki, staðreyndir tala sínu máli. Bankaráð ríkisbankanna samþykktu tillögu um að breyta þeim hlunnindum, sem áður giltu skv. reglum, í peningagreiðslur. Þan samþykktu að bæta við þau hlunnindi áætluðum skattgreiðslum. Þrjú bankaráðanna gerðu samþykktir um að þessi peningahlunnindi skyldu verða vísitölutryggð. Enginn hefur getað vefengt það að sú ákvörðun var lögbrot.

Spurt er: Hvaða gildi hefur þáltill.? Það ber ekki vott um mikla virðingu fyrir störfum Alþingis ef þm. segja sem svo: Já, það er nú mörg þáltill., það er oft sem Alþingi samþykkir viljayfirlýsingar. Ef það er staðreynd — og það er staðreynd — að framkvæmdavaldið standi illa í stykkinu við að framfylgja vilja Alþingis, hvað þýðir það? Ætla alþm. yfirleitt að leggja blessun sína yfir það að vilji Alþingis sé að engu hafandi, jafnvel þegar um það er að ræða að Alþingi er að reyna að gegna þeirri skyldu sinni að líta til með framkvæmdavaldinu í málum eins og þessu?

Það er líka upplýst að um einn ríkisbankanna,

Búnaðarbankann, gegnir öðru máli en hina að því leyti að þar var komið í veg fyrir hina upphaflegu samþykki sem var upphaflega óbreytt hin sama og í Landsbanka Íslands og Seðlabanka. Staðreynd er það að fyrir liggur í bókum Búnaðarbankans bókun frá bankaráðsmanni Alþfl. þar sem hann andmælir þessari tillögu um hina löglausu vísitölubindingu og að sú tillaga var dregin til baka — (Gripið fram í: Hún var bókuð eftir á þegar hann var búinn að samþykkja eigin tillögu.) Ég held að það væri rétt, herra bankaráðsmaður og hv. alþm., að bankaráðsmaðurinn kæmi með gerðabókina og staðreyndi að þá bókun er þar að finna. Eftir að sú bókun var lögð fram var hin tillagan dregin til baka. Þetta eru efnisatriði málsins.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson, fyrrverandi hæstv. dómsmrh., komst að orði á þá leið að ef hægt væri að álasa því bræðralagi, sem verið hefur lengi meðal bankaráðsmanna Búnaðarbankans, fyrir nokkuð væri það helst það að þeir hefðu framfylgt lögum og reglum of vel. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hamrar á því að þær reglur, sem áður giltu frá 1970, hafi verið settar fyrir atbeina Gylfa Þ. Gíslasonar fyrrv. formanns Alþfl.

Það er enginn sem neitar neinum staðreyndum í þessu máli. Staðreyndirnar voru þær að að frumkvæði fyrrv. hæstv. fjmrh., Magnúsar frá Mel Jónssonar, var gerð breyting árið 1970 á þessu máli. Sú breyting átti að vera liður í sparnaði og hagkvæmni í opinberum rekstri og átti að vera á þá leið að bankastjórar ættu sjálfir sína bíla en fengju ákveðin hlunnindi, afslátt af aðflutningsgjöldum.

Nú er það svo að þó að þessi reglugerð hafi gilt er það niðurstaða endurskoðanda eins ríkisbankanna — ég þori ekki að fullyrða eftir minni við hvaða banka hann er endurskoðandi — að framkvæmdin á þessari reglugerð hafi verið með þeim hætti að hún varði við skattalög. M. ö. o., þarna var um að ræða hlunnindi sem voru ígildi tekna og hefðu átt að vera framtalsskyld og skattskyld. Það er upphaf þessa máls að það er endurskoðandinn sem vekur athygli á því að reglugerðinni hafi verið framfylgt með þeim hætti að um brot á skattalögum væri að ræða og hann gæti ekki heiðurs síns vegna sem endurskoðandi undirritað slíkt.

Er þetta, hæstv. fyrrv. dómsmrh., að framfylgja lögum og reglum of vel? Til hvers eru bankaráðsmenn? Það er gott að vita að bræðralagið er gott og vináttan góð milli manna, það er gott alls staðar þar sem það er. En bankaráðsmenn starfa í umboði Alþingis — (Gripið fram í.) Nei, en bankaráðsmenn starfa í umboði Alþingis, þeir eru þarna ekki bara í vinaklúbbi heldur sem eftirlitsmenn framkvæmdavaldsins með einhverjum þýðingarmestu stofnunum ríkisvaldsins, m. a. til þess að líta eftir því að lögum og reglum sé framfylgt.

Og annað, hv. þm. Það er upplýst að frumkvæðið að þessu máli kom ekki frá bankaráðsmönnum heldur frá blaðamönnum þegar þeir upplýstu hvernig komið var.

Í þriðja lagi. Hvernig var framkvæmdin á reglugerðinni, sem gilti s. l. 15 ár, að öðru leyti? Var það bara svo að bankastjórarnir ættu þessa bíla sem þeim voru skenktir skv. reglubundnum hlunnindum? Það er vitað mál að margir ríkisbankanna eiga aðra einkabíla — ég er ekki að tala um sérhannaða sendibíla til flutninga á peningum. Sumir þeirra hafa reyndar bílstjóra í sinni þjónustu. Það fór því saman að þeir þáðu hlunnindin sem þeir ekki töldu fram til skatts og borguðu ekki skatta af og sumir þeirra þáðu líka einkabíla sem bankarnir héldu áfram að eiga og reka að öllu leyti og skenktu þeim síðan einkabílstjóra að auki.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk bankaráðsmanna, af því að þeir eru kosnir í umboði Alþingis, að líta til með framkvæmd laga. Bregðist það lít ég ósköp einfaldlega svo á að það komi aftur til kasta Alþingis ef Alþingi þóknast að gera breytingar á eða fela öðrum mönnum að framfylgja þessu, telji það að það hafi ekki verið gert með fullnægjandi móti.

Um ræðumátann í þessari umræðu, skætinginn, stóru orðin um róg og dylgjur, er ósköp fátt að. segja. Staðreyndirnar tala sínu máli og með vísan til þeirra þarf ekki að svara slíkum skætingi. Þessir hv. þm., sem eru að reyna að verja þetta, hafa farið út um víðan völl en þeir hafa forðast að svara þeim spurningum sem snúast um kjarna málsins. Kjarni málsins er þessi: Vilji Alþingis var sniðgenginn. Það eru ekki rök í því máli að það hafi gerst áður. Það er hins vegar réttmæt ábending hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að framkvæmdavaldið brást í því efni, auðvitað var það skylda hæstv. forsrh. og viðskrh. að framfylgja vilja Alþingis. Hins vegar er það upplýst að þeir hafa brugðist þeirri skyldu og þá er okkar niðurstaða sú að það komi aftur til kasta Alþingis að freista þess að knýja fram vilja Alþingis. Á Alþingi verður ekki skipt um ríkisstjórn, það verður að gerast í kosningum trúlega. Það er staðreynd að um lögbrot var að ræða. Það er líka staðreynd að í sumum ríkisbankanna hafði þessi umdeilda ákvörðun verið framkvæmd áður en þeim tilmælum hæstv. viðskrh. að fresta henni var beint til bankaráðanna, sem þau að sjálfsögðu urðu við.

Þá er komið að hv. 4. þm. Suðurl. Hann sagði í sínu máli að hann væri svo prinsippfastur maður, svo stefnufastur, að hann greiddi kerfisbundið atkvæði gegn öllum tillögum sem frá þm. Alþfl. kæmu þótt hann hefði ekki lesið þær. Þessa yfirlýsingu hv. þm. ætti að undirstrika rækilega í þingtíðindum sem mjög merka heimild um merkan þingferil. Þm. lýsir því yfir að hann greiði atkvæði vegna persónulegra hleypidóma eða pólitískra hleypidóma gegn málum sem hann ekki hefur fyrir að kynna sér eins og reyndar berlega kom fram í ræðu hv. þm.

Sparðatíningurinn, sem hann fór með, var ekki merkilegur en við skulum aðeins renna yfir stiklurnar hjá honum. Hann veifaði Alþýðublaðinu og lagði út af fréttapistli í Alþýðublaðinu með tilheyrandi hneykslan og leikaraskap. Nú er rétt að það komi fram að í þessu blaði var skýrt frá því á sínum tíma að hv. þm. hefði verið einn um það í bankaráði Útvegsbankans að greiða atkvæði gegn tillögunni þegar hún var þar flutt. Hv. þm. heimskaði sig á því að taka undir með hv. 3. þm. Norðurl. e. um það að ábyrgðin á málum eins og þau standa nú væri öll á vegum Alþfl. vegna þess að Gylfi Þ. Gíslason hefði á sínum tíma átt aðild að þessari reglugerðarsetningu.

Eru það rök í málinu, hv. þm., þótt þm. sem nú er horfinn af þingi og gegndi ráðherrastörfum 1970–1971 hefði átt aðild að reglugerð þegar fyrir liggur í fyrsta lagi að reglugerðin hefur verið framkvæmd með þeim hætti að endurskoðandi telur að hún hafi verið skjól fyrir skattsvik, þ. e. reglugerðin var framkvæmd með þeim hætti að í stað þess að afnema bílaeign bankanna þá hélt það kerfi áfram? Eru það rök í málinu, hv. þm., þegar til þess er tekið að þingflokkur Alþfl. hefur síðan, reyndar allt frá árinu 1978–1979, flutt tillögur hér á hinu háa Alþingi um breytingar á þessu? Vill hv. þm. Garðar Sigurðsson bera persónulega ábyrgð á hverju því orði eða hverri þeirri stjórnarathöfn eða hverri þeirri reglugerð eða hverjum þeim lögum sem einhverjir menn í hans flokki kynnu að hafa sett einhverjum árum eða áratugum áður en hann settist á þing, jafnvel þótt vitað væri að flokkur hans hefði síðan í ljósi reynslu og aðstæðna flutt tillögur á Alþingi um breytingar? Eru þetta einhver rök í málinu, hv. þm.? Heldur hv. þm. að þetta væru nægilega góð rök í lúkarnum, af því að hv. þm. er stundum að stæra sig af því að hann sé fulltrúi hinna karlmannlegu sjónarmiða lúkarsins hér á þessari stundum lognmollulegu samkundu? Heldur hv. þm. að hann kæmist upp með svona rugl í lúkar? Hvers vegna reyndi hv. þm. að gera lítið úr tillöguflutningi Alþfl. með því að segja að við hefðum loksins látið málið til okkar taka þegar það vakti athygli í fjölmiðlum, þegar hann veit betur? Er það af því að hann les ekki málið? Veit ekki hv. þm. að tillaga Alþfl., þáltill. Alþfl. um að fella niður þessi fríðindi hefur verið flutt á undanförnum þingum, þó hún hafi verið endanlega samþykkt af Alþingi Íslendinga á seinasta þingi, nánar tiltekið þann 22. maí? M. ö. o., það er langt síðan þm. létu þetta mál til sín taka, gagnrýndu það og fluttu um það tillögu. Það var ekki að gerast í dag, eins og hv. þm. sagði, það var m. ö. o. ósatt.

En það er náttúrlega erfitt að eiga orðastað við mann sem kemst að fyrirframniðurstöðum um mál og er svo ofstækisfullur að hann gefur hér yfirlýsingu um og þykist af þvílíku ofstæki að hann segist ekki einu sinni lesa þingmál. Það er nóg að mönnum bjóði það í grun af málflutningi hv. þm. þótt slíkar játningar séu ekki gerðar. Þá sagði hv. þm.: Þessi tillaga var samþykkt í bankaráði Landsbankans og hún var samþykki í bankaráði Útvegsbankans með atkvæðum bankaráðsmanna Alþfl. — Þetta er staðreynd og ekki höfum við reynt að draga fjöður yfir þá staðreynd.

Hvað er að segja um bankaráð Landsbankans? Jú, fulltrúi Alþfl. í því bankaráði heitir Bjarni P. Magnússon iðnrekandi. Hann var hins vegar ekki endurkjörinn á vegum Alþfl. í þetta bankaráð þannig að þingflokkur Alþfl. getur ekki beitt neinum viðurlögum að því er það varðar. Það er hins vegar út af fyrir sig athyglisvert að þessi hv. fyrrv. bankaráðsmaður sótti landsfund Bandalags jafnaðarmanna og skýrði frá því í útvarpsþætti skömmu síðar að hann hefði sérstaklega mikla samúð með siðfræðingasjónarmiðum BJ. Ég get ekki sem formaður Alþfl. komið neinum aga yfir þann mann, en það gæti verið að bræður vorir í BJ gætu það.

Það er rétt að fulltrúi Alþfl. í bankaráði Útvegsbankans samþykkti þetta. Hvernig brást Alþfl. við? Er það til marks um það að hann leyni ekkert málinu eða að þetta sé aðeins yfirdrepsskapur? Ég er búinn að svara því þegar.

Þingflokkur Alþfl. brást við þessu máli á þann veg að gera ályktun um málið og skora á ríkisstj. að framfylgja samþykkt Alþingis og bankaráðsmenn að segja af sér. Því næst er það upplýst að þingflokkur Alþfl. hefur í framhaldi af þessari ályktun sinni sent umræddum bankaráðsmönnum, þ. e. þeim sem aðild áttu að þessari ákvörðun og enn eru í bankaráðum, bréf þar sem ályktanir þingflokksins í þessu máli eru þeim birtar og frá því skýrt að þessar samþykktir hafi verið gerðar einróma í þingflokki Alþfl. og mælst til þess við umrædda bankaráðsmenn að þeir verði við samþykkt þingflokksins og áskorun í þessu efni. Þetta bréf er undirritað fyrir hönd þingflokksins af hv. formanni þingflokksins Eiði Guðnasyni.

Þá kemur að þeirri athugasemd hv. þm. Halldórs Blöndal sem sagði að Alþfl. gæti þá gengið feti framar og beitt þeim viðurlögum að vísa umræddum mönnum úr Alþfl. Af því tilefni skal það sagt að ég frábið mér reyndar alla ráðgjöf frá hv. þm. Halldóri Blöndal um innanhúsmál Alþfl. og þau agaviðurlög sem þar kunni að vera beitt. Og ég segi þetta af sérstöku tilefni vegna þess að miðað við reynslu er ég hræddur um að hv. þm. hafi enga burði til þess að kenna öðrum neitt í því efni. Hv. þm. minnast þess að á því tímabili sem hæstv. fyrrv. forsrh. Gunnar Thoroddsen veitti hér forstöðu ríkisstj., hvar í sat reyndar hæstv. fyrrv. dómsmrh., þá höfðu menn stundum það á orði að hv. þm. Halldór Blöndal væri eins og naut í flagi í stjórnarandstöðu og sæi gjarnan rautt ef hann sá hæstv. forsrh. hér á vettvangi. Það vildi nefnilega svo til að í þeim flokki, sem hv. þm. er þm. fyrir, gerðist það að þessi þingflokkur klofnaði, tiltekinn hópur þm. veitti ríkisstj. stuðning og sat í þeirri ríkisstj. við hlið dr. Gunnars Thoroddsen en flokkseigendafélagið var í stjórnarandstöðu. Með leyfi að spyrja, hv. þm. Halldór Blöndal, hvar var nú húsaginn og viðurlögin í hinum tyftunarsama Sjálfstfl. á þeim tíma? Ekki efa ég að hv. þm. hefði viljað koma fram viðurlögum, en af einhverjum ástæðum var það nú ekki gert, þrátt fyrir það að þingflokksmenn og flokksbræður sætu bæði í ríkisstj. og veittu henni forstöðu og teldust jafnvel að hinu leytinu vera í stjórnarandstöðu. M. ö. o., Sjálfstfl. skipti sér. Það er hátt til lofts og vítt til veggja í Sjálfstfl., í húsi föður míns eru margar vistarverur, sagði Jóhann Hafstein fyrrv. forsrh. einu sinni. En ég minnist þess ekki að við höfum ráðlagt þeim sjálfstæðismönnum neitt um þennan innanflokksvanda þeirra. Ég held við höfum bara orðið að treysta því að þeir réðu fram úr því eftir bestu getu. Og eins er það að við frábiðjum okkur ráðgjöf hv. þm. í því efni. Þan mál munum við útkljá sjálfir án hans atbeina.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson tók sér í munn orðið ránskjaravísitala og lýsti mikilli hneykslan sinni að menn skyldu nefna þetta orð, minnti á hvort menn myndu ekki eftir baráttu Alþfl. fyrir verðtryggingu. Jú, hvort menn muna. Og muna reyndar að þeirri verðtryggingu var komið á með atkvæði hv. þm. Garðars Sigurðssonar sjálfs og flokks hans og fyrir atbeina forustumanna þess flokks í ríkisstj. En menn minnast þess líka að í þeim lögum, sem kváðu á um að verðtryggja skyldi fjárskuldbindingar, var jafnframt kveðið á um það að lengja skyldi lánstíma. Þeim fylgdu einnig margvísleg önnur lagaákvæði í svokölluðum Ólafslögum, sem í tíð þeirrar ríkisstj. sem við tók, sem naut stuðnings flokks hv. þm., kom aldrei til framkvæmda.

Orðið ránskjaravísitala er mikið notað í Þjóðviljanum, sem ég held að hv. þm. hafi reyndar á jafnvel enn þá minni mætur en Alþýðublaðinu. En merking orðsins ránskjaravísitala er dálítið önnur en verðtrygging. Það vill nefnilega svo til að hópur fólks, sem er með eignir sínar á uppboðum núna þessa stundina, hefur átt viðræður við þingflokka að undanförnu og lagt fram tölulegar niðurstöður hlutlauss athuganda, sem reyndar er í þjónustu ríkisins, þar sem menn benda á að það er búið að leggja á þetta fólk reikning umfram verðtryggingu sem samsvarar frá því á árinu 1982 til dagsins í dag u. þ. b. 2.6 milljörðum króna. Hvers vegna, hv. þm.? Það er vegna þess að á þeim tíma, sem liðinn er frá því að fólk tók þessi lán, er búið að afnema vísitölubindingu launa en halda áfram verðtryggingu eftirstöðva skv. lánskjaravísitölu, þeirri hinni sömu sem nota átti til þess að verðtryggja hlunnindi bankastjóra, hv. þm. Í leiðinni voru vextir hækkaðir þannig að nú er hér hæsta vaxtastig sem þekkt er á byggðu bóli umfram verðbólgu. Með þessum hætti var kjörum þessa fólks breytt. Enginn þessara manna, talsmanna þessa hóps, hefur gert þá kröfu að verðtrygging á fjárskuldbindingum yrði felld niður. Það gerir aftur á móti Alþb. eða sumir Alþýðubandalagsmenn. Enginn þessara manna er að fara fram á það. Það sem verið er að fara fram á er það að þeir verði ekki látnir greiða hundruð milljóna umfram verðtryggingu og umfram upphafleg umsamin ávöxtunarkjör.

Sjálfsagt er það, herra forseti, ekki sanngjarnt af mér að fara að eyða miklu púðri almennt um efnahagsmál eða taka alvarlega gagnrýni hv. þm. á málflutning Alþfl., í ljósi yfirlýsingar hans um það að hann lesi aldrei þingskjöl sem frá þeim flokki koma. Það er dálítið bágt að eiga orðastað við slíkan mann. Ómögulega vil ég gera honum upp skoðanir en ég frábið mér líka að hann geri okkur upp tillögur eða hugmyndir sem hann ekki hefur kynnt sér. Hann sagði nefnilega að Alþfl. legði fram tillögur um það að lækka skatta en auka ríkisútgjöld — og þótti bág hagfræði lærð í Skotlandi. Þetta mundu þeir ekki skilja í lúkarnum. En því miður, það er eins og annað sem hv. þm. sagði, hann hefur ekki haft fyrir því að kynna sér málið. Hann er svo upptendraður af forstokkun og hleypidómum að honum er bókstaflega fyrirmunað að kynna sér mál, þar með reyndar fyrirmunað að taka skynsamlega afstöðu. Ætti honum því raunverulega að vera ljóst að hann á ekki að vera að koma hingað upp í ræðustól til þess að tala um hluti sem hann ekki veit og eyða þar með tíma þingsins, láta sér bara nægja að greiða atkvæði um þau þingskjöl sem hann ekki hefur lesið.

Má ég minna á það að við afgreiðslu fjárlaga á s. l. hausti flutti Alþfl. tillögur um tekjuöflun fyrir öllum þeim útgjaldatillögum sem hann flutti, og reyndar gott betur, því hann flutti tillögur um tekjuöflun til þess m. a. að mæta fyrirhuguðum hallarekstri ríkissjóðs í tíð núv. ríkisstj. Alþfl. hefur hér á þingi lagt fram tillögur um að leggja á stighækkandi eignarskattsauka á skattsvikinn verðbólgugróða stóreignafyrirtækja og stóreignamanna, sem mundi ná til lítils hluta framteljenda en er áætlað að mundi skila ríkissjóði um 2 milljörðum í auknar tekjur. Alþfl. hefur lýst hugmyndun hér á þingi og lagt fram, m. a. með tilstyrk fjmrn., upplýsingar um nauðsyn þess að þurrka út skattsvik í þessu þjóðfélagi með því að taka upp einfaldara og skilvirkara söluskattskerfi sem mundi skila ríkissjóði verulegum tekjuauka. (Gripið fram í.) Það kemur að því, hv. þm., bara sýna biðlund. Þetta er hv. þm. sjálfum að kenna. Ef hv. þm. er að segja eitthvað um þingmál sem hann ekki hefur lesið, þá neyðist maður til þess með allri virðingu fyrir þm. að segja honum frá helsta inntaki þessara þingmála, ef maðurinn vill ekki lesa. Hann er prýðilega læs sjálfur. Hann á eftir að greiða atkvæði um þetta og þá er eiginlega ekki forsvaranlegt að hann greiði atkvæði um það sem hann veit ekki hvað er, allra síst eftir að hann er búinn að eyða tíma þingsins í að lýsa þessar tillögur út í hött. Sömuleiðis hefur Alþfl. flutt tillögur um það að draga úr ríkisútgjöldum, þannig að þessi fullyrðing, eins og reyndar allar fullyrðingar hv. þm., hver ein og einasta, var ýmist sparðatíningur, útúrsnúningur, dylgjur, allavega gersamlega víðs fjarri efniskjarna þessa máls, allt nema eitt. Þetta var allt saman ræða tilkomin vegna þess að það er rétt, að hv. þm. sýndi þann manndóm á sínum tíma í bankaráði að greiða atkvæði gegn lögbrotum og gegn því að framlengja þessi hlunnindi, reyndar með því að bæta ögn við þau. Ég vil endilega að þetta komi fram skilmerkilega, alveg eins og það gerði í Alþýðublaðinu, því að þetta er hróss vert, þm. á hrós skilið fyrir þetta. M. ö. o., hann sýndi þarna afstöðu í bankaráðinu sem fleiri hefðu átt að gera. Þarna var maðurinn til fyrirmyndar, hefur væntanlega í þetta skipti kynnt sér málið, komist að réttri niðurstöðu, og auðvitað er það á allan máta ómaklegt, hvort heldur Alþýðublaðið á í hlut eða aðrir, að veitast að slíkum manni.

Tveir hv. þm. hafa vikið að þeirri spurningu, sem vefst svolítið fyrir þeim, hverjir eigi Ísland, hverjir eigi það nú með gögnum þess og gæðum. Frá því var skýrt nýlega í fréttum að borgarstjórn Reykjavíkur stæði í samningum um það að greiða af skattfé almennings, útsvari almennings 60 millj. kr. fyrir jörð hér í nágrenni Reykjavíkur sem skv. sömu upplýsingum var metin á 400 þús. kr. Það sem hér er verið að kaupa er auðvitað orkurétturinn og það skiptir engu máli í þessu samhengi hverjir áttu í hlut. Hverjir eiga Ísland? Hverjir eiga gögn þess og gæði? Hverjir eiga auðlindirnar? Það er spurning sem framsóknarmenn ættu að velta svolítið fyrir sér. Spurningin er kannske sérstaklega fróðleg um það hversu langt niður til þess í neðsta þessi eignarréttur nær. Höfuðborgin hefur vaxið og dafnað. Fólk hefur þar til orku nýtingu á jarðvarma. Eigendur þessa hvers, framsýnir menn, skynsamir fjáraflamenn, hafa ekki fjárfest í þeirri auðlind. Hún er óbreytt. Spurningin er hins vegar sú: Er það skynsamlegt, er það réttlætanlegt að krefjast þess af almenningi í Reykjavík, sem hefur gert þessa auðlind verðmæta vegna þéttbýlismyndunar hér, að hann reiði fram 60 millj. kr., sem kreistar eru undan blóðugum nöglum þess fólks sem fær borgaða hungurlús fyrir sín störf oft og tíðum, reiða það fram í sjóði til þriggja framsýnna fjáraflamanna fyrir afnotaréttinn af þessari auðlind?

Það mætti líka spyrja hv. þm. að því, af því að honum er málið skylt og kært: Var það skynsamleg ráðstöfun hjá forsjármönnum orkumála og ráðherrum að verða við kröfum landeigenda norður í landi, vegna áforma ríkisins, þjóðarinnar, um virkjun Blöndu. að reiða fram af almannafé mörg hundruð milljónir kr. til þess að verða við því sem næst öllum kröfum svokallaðra landeigenda, með þeim afleiðingum að framleiðslukostnaðarverð orku frá Blöndu fullvirkjaðri mun þegar nú sýnilega verða 2–2.5 millidölum hærra en ella hefði orðið, en það gæti skipt sköpum um það hvort þessi orka verður seljanleg eða ekki, svo að ég tali nú ekki um hvort rétt hafi verið að verða við þeim kröfum, sem nutu eindregins stuðnings þm. Framsfl., að verðlauna menn, sem neituðu að hlíta reglugerð um upprekstur hrossa, með því að reiða fram almannafé til þess að greiða þeim fyrir það að verða við reglum? Þetta eru aðeins örfá dæmi af mörgum.

Með þessu er ég að vísa til tillagna. sem þm. Alþfl. hafa flutt ár eftir ár. þing eftir þing. um það að í stjórnarskrá lýðveldisins verði því yfir lýst að auðlindir þjóðarinnar sameiginlegar, fallvötnin og jarðvarminn. verði skv. stjórnarskrá lýst alþjóðareign. Hér er ekki um að ræða nein þau verðmæti sem einkaaðilar hafa fjárfest í. Þetta eru náttúrlegar auðlindir landsins. Þær verða æ verðmætari eftir því sem fólki fjölgar og þéttbýli vex og það er auðvelt fyrir fjárplógsmenn hvers kyns að nýta sér þessar aðstæður.

Það má svara spurningunni: Hverjir eiga Ísland? á þann máta að landinu, gögnum þess og gæðum. eignarréttinum er misskipt og sumir virðast hagnast bærilega á því ef einhverjar framfarir verða í þjóðfélaginu. Það má líka minna hv. þm. á það að niðurstaðan af stjórnarfari, sem hér hefur ríkt allt frá árinu 1971. undir forustu mestan part flokks hans, hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að þjóðarframleiðsla Íslendinga, eða 65% af henni. er veðsett erlendum fjármagnseigendum og að næstu árin. kannske 10 árin eða svo, fara tveir fiskar af hverjum fjórum, sem sjómenn draga á land. í að standa undir afborgunum og vöxtum af þessari skuldsetningu þjóðarframleiðslunnar íslensku. Partur af svarinu er því líka sá, að í stjórnartíð Framsfl. hefur farið svo að þjóðarframleiðsla Íslendinga. lífskjör vinnandi fólks á Íslandi hafa verið veðsett erlendum fjármagnseigendum og kjör þess keyrð niður vegna óbærilegrar greiðslubyrði þessara skulda. sem reyndar skiluðu okkur ekki þeim arði sem menn gerðu sér vonir um. líka vegna misráðinna ákvarðana þess pólitíska hrossakaupa- og spillingarkerfis sem Framsfl. er sérstakur umboðsaðili fyrir í íslensku þjóðlífi.