01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Það er ekkert álitamál að staða íslensk sjávarútvegs er erfið í dag.

Þetta vitum við öll hér á hv. Alþingi og þarf engum að koma spánskt fyrir sjónir eða eyru. En því miður er þessi staða ekki að koma upp nú á þessu ári eða því síðasta. Hv. síðasti ræðumaður mætti minnast stöðunnar eins og hún var orðin í maímánuði 1983. Hún var óglæsileg að ekki sé meira sagt. Ég þóttist þekkja nokkuð til þessara mála, en þegar maður sá ofan í þennan pakka þá reyndist hann miklu verri en ég gat búist við. Þetta er ég ekki að segja hv. þm. til lasts. En þetta eru staðreyndir sem við höfum orðið að búa við og taka við. Þannig var þetta búið að ganga í nokkur ár. Það var búið að flytja fjármagn frá sjávarútveginum í aðra starfsemi í þjóðfélaginu án þess að valdhafar tækju raunverulega eftir því. Sú uppbygging og gróska sem við sjáum í fjölda fyrirtækja hér á stór-Reykjavíkursvæðinu og úti á landi byggjast á því fjármagni sem var tekið frá sjávarútveginum og — ég orða það þannig — lenti inn á þessar brautir. Þessi atvinnuvegur, sem hefur verið undirstaða þessa þjóðfélags frá því að það mátti með réttu kallast þjóðfélag í nútíma skilningi hefur gleymst í þeim darraðardansi sem hér hefur verið stiginn undanfarin ár. Ég ætla ekki að ásaka einn eða neinn. Þarna eiga allir stjórnmálaflokkar hlut að máli. Þetta hefur gleymst í því velferðarþjóðfélagi sem við höfum verið að leika okkur í undanfarin ár. En nú er komið að skuldadögunum. Þetta gengur ekki lengur.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan: Svo á að fara að kenna launþegum um þá verðbólgu og þær gengislækkanir sem hér verða á næstunni. Það stendur ekki til að kenna einum eða neinum um, en hv. þm. má best ljóst vera að þegar kaupgjald stígur í þessum undirstöðuatvinnuvegi, sem allt byggist á, þá hefur það sín áhrif. Ég er ekki að andmæla því að fólkið þurfi meira kaup. En hver á að borga það þegar að því kemur? Þessi atvinnuvegur sem hefur ekki annað úr að spila en tekjur af framleiðslu á lækkandi markaði? Hvar á að taka fé til þess? Á að leggja á aukna skattbyrði? Hver ætlar að skila því aftur sem búið er að taka? Auðvitað á þjóðin að gera það sjálf. Er hún reiðubúin að skila því aftur sem búið er að taka til annarra þarfa í þjóðfélaginu? Ég dreg það í efa.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessi mál hér. Það er búið að ræða þau mikið. Um þessa till. til þál. sem hér liggur fyrir ætla ég að vera fáorður. Ég fagna því aðeins að bætast skuli liðsstyrkur í þann hóp sem vill vinna að þessum málum hér á hv. Alþingi sem annars staðar. Ég sé ekkert athugavert við það og tel það raunar sjálfsagt að leita allra ráða til lausnar á þeim. Miklar upplýsingar liggja fyrir alls staðar. Það má safna þeim saman. Og þó að ég sé ekki sammála öllum leiðum sem Alþb. vill fara, þá má kannske notast við einhverjar þeirra. Ég vil ekki slá á útrétta hönd þess eða annarra sem vilja leysa þessi mál af heilindum á farsælan hátt. Þetta er mín skoðun á málinu. Þess vegna leggst ég ekki gegn þessari till.

En það er ýmislegt í grg. till. sem væri freistandi að fjalla svolítið um. T.d. það sem sagt er um raforkuverðið. Ég er algerlega sammála því. Það þarf að lækka raforkuverð til fiskiðjuveranna í landinu. Núna er t.d. raforkan til loðnubræðslnanna 40% dýrari en ef hún væri framleidd með dísilvélum. Þetta er okkar innlenda raforka. Auðvitað stafar þetta af kolvitlausri fjárfestingu í orkugeira okkar undanfarin ár. Það hefur gleymst að taka tillit til arðseminnar og eiga kannske ýmsir sök á. Það verður einhvern veginn að skila þessu aftur. Hvernig á að gera það, það er annað mál. Ætli það sé ekki með skattinum einu sinni enn sem þarna kemur til með að verða að borga, hvernig sem að því verður farið.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi dæmi áðan um misgengi dollars og punds á okkar gjaldeyrismörkuðum. Ég dreg ekki í efa að útreikningar hans í þessum efnum eru réttir. Það er einmitt þetta sem hefur skeð. Bankamenn — og ég segi valdhafar í þjóðfélaginu hafa beint atvinnurekstrinum inn á þá braut að taka dollaralán í þeirri trú að dollarinn væri að lækka. Það hefur verið skoðun manna á undanförnum árum. En það hefur því miður alltaf orðið á hinn veginn, að hann hefur hækkað. Það hvarflar ekki að mér að halda að sá ágæti maður hv. 3. þm. Reykv., sem var, ef ég man rétt, bankamálaráðherra 1978–1979, þegar mikið var tekið af dollaralánum, hafi gert það vegna þess að hann vildi þjóðinni illa, alls ekki. Þetta var bara það sem allir mæltu með á þeim tíma og það er þetta sem við erum að súpa illilega seyðið af í dag. Þannig er til orðin staðan í Fiskveiðasjóði. Þar er búið að ræða þau mál mikið.

Ég óska ekki eftir að ræða hér sérstaklega um það ágæta skip Óskar Magnússon sem hér hefur verið fjallað um. Það mál er enn þá í athugun og ég vona að það verði leyst, en vil ekki tala meira um það hér. Það eru því miður nokkur skip í Fiskveiðasjóði sem liggja með þennan hala. En uppboðið á Óskari Magnússyni er ekki af Fiskveiðasjóðs hálfu, heldur einkaaðila sem óskar uppboðs á skipinu. Mér vitanlega hefur Fiskveiðasjóður ekki enn þá farið fram á uppboð á neinu þessara skipa. Þeir bíða eftir niðurstöðu um þetta skuldbreytingalán, sem boðið er upp á, að menn tjái sig um það hvort þeir treysta sér til eða geta sinnt því. Fyrr verður ekki tekin um þetta ákvörðun. En því miður eru þetta nokkur skip sem illa er ástatt um og það eru okkar innlendu smíðar, okkar innlenda vandamál. Það eru nær eingöngu skip smíðuð hér á landi sem eru í mestum kröggum í Fiskveiðasjóði. Það ber að harma að þegar við byggðum upp myndarlegan skipasmíðaiðnað og eignuðumst ágæta fagmenn verður það óbeint til þess að útgerðin er látin borga þessa framleiðslu á þessu himinháa verði og enginn ræður við neitt. Við skulum bara gera okkur ljóst að svona liggur í málinu. Það eru sárafá, ef þá nokkur skip, smíðuð erlendis, nema hugsanlega tvö smíðuð í Portúgal á vegum ríkisstj. á sínum tíma, sem eru í basli með lán sín á vegum Fiskveiðasjóðs og ríkisábyrgðasjóðs. Þetta vil ég aðeins minna á hér svo að menn viti hvar þau mál standa.

En eins og ég sagði ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég fagna því aðeins að hér skuli koma til umræðu um sjávarútveginn. Hún hefur ekki verið mikil í þjóðfélaginu og því miður hefur hún verið neikvæð. Við verðum að hafa það hugfast að þrátt fyrir sjálfsagða uppbyggingu á öðrum sviðum í atvinnulífinu verður íslenskur sjávarútvegur um ókomin ár sú undirstaða sem við verðum að lifa á. Og við verðum að sinna því verkefni með sóma hér á hv. Alþingi að gera hlut þess atvinnuvegar sem mestan.