20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5411 í B-deild Alþingistíðinda. (4676)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrsta og stærsta aðgerð hæstv. ríkisstj. þegar hún settist á valdastóla og setti fram stefnu sína um aðgerðir gegn verðbólgu var að setja lög um launamál, nr. 71 frá 1983, um bann við sjálfvirkum tengslum verðlags og launa, m. ö. o. að nema úr gildi það vísitölukerfi sem þjóðin hafði búið við lengst af í rúmlega fjóra áratugi. Öllum er kunnugt um hvernig til hefur tekist um þessa tilraun. Hæstv. forsrh. hefur látið hafa eftir sér að það hafi verið stærstu mistök ríkisstj. að gera þetta án þess að því fylgdu aðrar ráðstafanir.

Á sínum tíma, bæði fyrir kosningar 1983 og í stjórnarmyndunarviðræðum þá um vorið sem og í atkvgr. hér á hinu háa Alþingi síðar, kom fram sú afstaða okkar Alþfl.-manna að við vorum fylgjandi afnámi þessa vísitölukerfis í ljósi reynslunnar. Hitt er svo annað mál að það hefur komið fram í okkar málflutningi árum saman, reyndar í téðum stjórnarmyndunarviðræðum, að við töldum með öllu óviðunandi að þetta yrði gert eitt sér án þess að aðrar ráðstafanir fylgdu með. Þar minni ég sérstaklega á að strax árið 1982 þegar ljóst var að farið var að gæta misgengis milli lánskjaravísitölu og kaupgjaldsvísitölu, var flutt af hálfu Alþfl. frv. til laga — þá þegar — um að við því skyldi brugðist þeim hætti að mismunurinn færðist aftur fyrir höfuðstól lána í formi lengingar á lánstíma þannig að greiðslubyrði skuldara að því er varðaði sérstaklega húsnæðismál yrði hið sama hlutfall af launum. Þessi till. hefur verið flutt hvað eftir annað á hinu háa Alþingi, en ekki fengist samþykkt.

Nú þegar hæstv. forsrh. vísar til þess að einhliða aðgerð um afnám vísitölukerfis launa hafi verið mistök rifjum við upp að það er kannske of mikið sagt að um mistök sé að ræða þegar stjórnarflokkar og meiri hl. á Alþingi háfa í atkvgr. hér hvað eftir annað fellt tillögur um að koma í veg fyrir þetta misgengi sem nú hvílir hvað þyngst á húsbyggjendum. Ég vil reyndar vekja athygli á því, af því að um leið og lögin falla úr gildi nú 1. júní mundu, ef þetta frv. yrði ekki samþykkt, koma til framkvæmda aftur ákvæði Ólafslaga um vísitölubindingu launa, að í nefndum Ólafslögum voru einnig ákvæði um að allt frá árinu 1979, þegar verðtrygging var tekin upp, átti að fylgja því eftir með lengingu á lánsskuldbindingum og fjárskuldbindingum til lengri tíma, en við þetta var ekki staðið af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem þá tók við.

Þá rifja ég einnig upp að í drögum að málefnasamningi af hálfu Alþfl. í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka vorið 1983 settum við fram tillögur um verulega lækkun skatta sem af okkar hálfu var hugsuð til þess að draga úr því mikla kaupmáttarfalli sem fyrirsjáanlega hlytist af þessari einhliða ráðstöfun ef ekki fylgdu aðrar aðgerðir. Af okkar hálfu var því a. m. k. bent á tvær leiðir sem hefðu þurft að koma til framkvæmda samhliða afnámi vísitölukerfisins: annars vegar lengingu lána til þess að mæta aukinni greiðslubyrði lántakenda og hins vegar verulega lækkun á skattbyrði til þess að koma í veg fyrir það kaupmáttarhrun sem fyrirsjáanlega hefði fylgt og reyndist síðan ein meginástæðan fyrir því að hæstv. ríkisstj. mistókst, hún náði ekki þeim árangri til langs tíma sem hún vafalaust stefndi að. Niðurstaðan er sú að nú hefur skapast hér neyðarástand í húsnæðismálum sem yfirskyggir og yfirgnæfir önnur vandamál sem rekja má beinlínis til annars vegar misgengis lánskjaravísitölu og kaupgjaldsvísitölu, þ. e. þeirra mistaka sem hæstv. forsrh. hefur lýst, og svo hins vegar til þeirrar gríðarlegu hækkunar á raunvöxtum umfram verðbólgu miðað við laun sem átt hefur sér stað og mun vera einsdæmi á byggðu bóli þar sem sú hækkun er talin vera á undanförnum tveimur árum á bilinu milli 20 og 30%. Þetta tvennt hefur síðan aukið greiðslubyrði lántakenda að því er varðar húsnæðismál svo hrikalega á s. l. tveimur árum að ljóst er að þeir fá ekki undir risið nema gerðar verði sérstakar ráðstafanir sem nú eru til umræðu hér á hinu háa Alþingi.

Að þessu sögðu vil ég hins vegar árétta það, að þó að við munum að sjálfsögðu styðja að á það verði látið reyna í frjálsum kjarasamningum að aðilar á vinnumarkaði hafi heimild til frjálsra samninga og þá til þess að beita tiltækum skynsamlegum ráðum til að tryggja kaupmátt kjarasamninga, þá áréttum við andstöðu okkar við gamla vísitölukerfið og rifjum reyndar upp að að fenginni reynslu hafa ekki verið settar fram kröfur um að það verði tekið upp aftur.

Það er kannske ástæða til þess sérstaklega, vegna þess að svona hlutir fyrnast skjótt í minni manna, að rifja upp hvers vegna það vísitölukerfi var afleitt. Það var afleitt m. a. vegna þess að þetta sjálfvirka kerfi reyndist ekki tryggja kaupmátt launa til lengri tíma litið, en tryggði hins vegar gersamlega sjálfvirkar víxlhækkanir verðlags og launa, var m. ö. o. mikilvægt sprengirúm þeirrar verðbólguþróunar sem átti sér stað allt frá árinu 1971. Verðhækkanir voru að vísu bættar, en kauphækkunum var velt jafnóðum út í verðlagið með þeim afleiðingum að oftast nær voru það launþegar sjálfir og þá þeir sem minnst höfðu launin sem greiddu sínar kauphækkanir sjálfir.

Í annan stað er rétt að rifja upp að þetta sjálfvirka vísitölukerfi mældi t. d. oft, eins og nefnd voru dæmi um af hæstv. ráðh., verðbætur af stærðargráðunni 1012 þús. kr. á sama tíma og launþegum á lægstu töxtum voru mældar verðbætur fyrir 2000 kr.

Það er ástæða til þess að rifja upp að á þeim 43 árum sem vísitölukerfið var við lýði, frá 1939 til 1983, var það aðeins látið afskiptalaust af ríkisvaldinu í þrjú ár. Í 40 ár af 43 töldust ríkisstjórnir af hvaða tagi sem var tilneyddar að skerða verðbætur á laun með einum eða öðrum hætti. Það segir sína sögu um það hversu óhagkvæmt þetta kerfi var og þá sérstaklega hversu stóran þátt það átti í að útiloka að hægt væri að grípa til skynsamlegra efnahagsráðstafana er stuðluðu að einhverju jafnvægi.

Undir lokin var svo komið eins og t. d. vorið 1983. Þá um vorið hefði átt að greiða út 22% verðbætur 1. júní, en fyrirsjáanlegt var að þær hefðu staldrað við í launaumslögum fólks aðeins í örfáa daga. Vitað var að skv. hinu sjálfvirka kerfi hefðu hrikalegar verðhækkanir, búvöruverð, fiskverð, gengi, fylgt í kjölfarið og innflutningsverð hefði hækkað. Þetta hefði að lokum þýtt nýjar kauphækkanir til þess að bæta þessa skriðu og þá var skammt eftir í 180% verðbólgu og algert stjórnleysi. Það hefði innan skamms tíma þýtt stöðvun útgerðar, fiskvinnslu, atvinnulífs og endað óhjákvæmilega í fjöldaatvinnuleysi. Í raun má komast svo að orði að áframhald þessa kerfis hefði stefnt efnahagslegu sjálfstæði okkar, eitt út af fyrir sig, í bráðan voða og var nú nóg að gert af öðrum sökum, þ. e. vegna hinnar erlendu skuldasöfnunar.

Þetta vísitölukerfi lýsti sér þannig að ytri áföll, sem þjóðarbúið varð fyrir, og þar nefni ég sem dæmi olíuverðsprenginguna 1973 og minni verðsprengingu 1979, lýstu sér þannig að samfara hærri framfærslukostnaði og minni greiðslugetu þjóðarbúsins vegna ytri áfalla var geta þess til að standa af sér slík áföll enn skert með því að í kjölfar slíkra ytri áfalla fylgdu sjálfkrafa verð- og kauphækkanir. Reyndar má lengi telja skondin afbrigði þessa sjálfvirka kerfis, t. d. að stjórnvöld leituðust sérstaklega við að halda niðri óhjákvæmilegum verðhækkunum á ýmsum greinum til þess að þær mældust ekki í framfærsluvísitölu. Sígilt dæmi um þetta var t. d. verðlagning hjá Strætisvögnum Reykjavíkur eða Hitaveitu Reykjavíkur, en verðhækkanir á þjónustu þessara aðila hefðu þýtt sjálfvirkar kauphækkanir um land allt.

Ein af alvarlegum afleiðingum þessa kerfis var sú, að stjórnvöld leituðust við að halda niðri verði á rafmagni og heitu vatni, halda því óeðlilega lágu, því að ella hefði það hækkað kaup í landinu. Þetta átti ekki litinn þátt í linnulausum erlendum lántökum, bæði til þess að fjármagna fjárfestingu og rekstur orkumannvirkja. Þannig var hagkvæm fjárfesting til gjaldeyrissparandi aðgerða gerð óhagkvæm og dýr vegna greiðslu afborgana og vaxta af erlendum lánum. Niðurstaðan blasir við okkur nú, þ. e. fjárfesting fjármögnuð því nær eingöngu með erlendum lánum upp á 25–30 milljarða kr. í orkumannvirkjum og dreifikerfum sem rísa ekki lengur undir ávöxtunarkröfum þessa erlenda fjármagns og hefur það að lokum leitt til þess að verð á orku til almennings og til atvinnurekstrar á Íslandi er hið hæsta á Norðurlöndum.

Vísitölukerfið hafði áhrif á skattakerfi og almennar hagstjórnaraðgerðir vegna þess að óbeinir skattar voru inni í vísitölukerfinu en beinir skattar ekki. Það var raunverulega farið að ráða skattakerfinu líka. En tekjuskattur var hækkaður þrátt fyrir að hann væri óréttlátur launamannaskattur og með þeim hætti verkaði vísitölukerfið hvetjandi í átt til skattsvika. Óbeinir skattar voru inni í vísitölukerfinu. Ef ríkisstj. taldi sig þurfa að draga úr þenslu og eftirspurn með því að hækka óbeina skatta þýddi það hækkun kaupgjalds og þar með jókst þensla og eftirspurn. M. ö. o.: aðgerðir til að draga úr eyðslu höfðu þveröfug áhrif þegar til lengri tíma var litið.

Eitt atriði var að þessari hækkun óbeinna skatta átti að verja til þess m. a. að fjármagna aukna samneyslu, t. d. útgjöld vegna tryggingakerfis eða skólakerfis sem flestum mönnum ber saman um að bæti lífskjör með óbeinum hætti. Það hafði engu að síður í för með sér sjálfvirka hækkun kaupgjalds og þar með verðlags. Ríkisstj. greip stöðugt til falsana á vísitölukerfinu með auknum niðurgreiðslum til að koma í veg fyrir sjálfvirkar kauphækkanir og um leið verðhækkanir. Af þessu hlutust stundum hinar fáránlegustu niðurstöður. Frægt var dæmið um það þegar til þess var gripið að greiða niður verð á kartöflum með 4 millj. kr. til þess að lækka framfærsluvísitölu um 1.4% og þar með lækka laun í landinu um 70 millj.

Niðurgreiðslunum sem vísitölukerfið kallaði á var einkum beitt innan landbúnaðarkerfisins. Ef niðurgreiðslur voru hækkaðar verkaði það framleiðsluhvetjandi í landbúnaði og stuðlaði þar með að offramleiðslu sem skattgreiðendur þurftu síðan að borga með í stórauknum mæli.

Þannig er endalaust hægt að telja dæmin um hversu fáránlegt þetta kerfi var í öllum greinum. Og lokasönnunin um haldleysi þess var auðvitað sú að þótt launþegum væri talin trú um að þetta væri þeim hið eina sanna haldreipi varð niðurstaðan öll önnur og aðgerðir ríkisstj. af hvaða tagi sem voru í 40 ár til þess að reyna að vinna bug á þessu kerfi mistókust auðvitað sem sýnir að kerfið var ónothæft. Það var alveg sérhannað til að viðhalda víxlgangi verðlags og launa og viðhalda verðbólgu. Undir lokin var svo komið að þetta vitlausa vísitölukerfi var farið að ógna sjálfu atvinnuörygginu og um leið efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta er aðeins upptalning á fáeinum dæmum, sem auðvitað er farið að fyrnast yfir, um það hversu skaðlegt þetta vísitölukerfi var, ekki hvað síst launþegum í landinu, með hliðsjón af því að versti óvinur launamanna er að sjálfsögðu stjórnlaust óðaverðbólgukerfi af því tagi sem við bjuggum við.

Á sínum tíma voru víða gerðar samanburðarkannanir á því hvort ekki væru til aðrar leiðir til að stuðla að viðhaldi kaupmáttar umsaminna kjarasamninga án þess að til slíkra ráða væri gripið. Um það voru teknar saman ýmsar skýrslur og reynt að meta reynslu annarra þjóða. Ástæðan fyrir því að það á að láta á það reyna í frjálsum kjarasamningum hvort ekki finnist aðrir kostir er m. a. sú að þeir hafa verið reyndir. Það er hægt að hugsa sér það, ef stjórnvöld bregðast skyldu sinni um að hafa taumhald á verðlagsþróun og reynast vera ófær um að tryggja með almennum efnahagsráðstöfunum samkeppnisstöðu atvinnuvega, tryggja aðgang að lánsfé á viðráðanlegum kjörum og tryggja svo stöðugleika í efnahagslífinu, sem auðvitað er forsenda fyrir gildi kjarasamninga, að launþegahreyfingin hafi þá vörn, komi á daginn að forsendur kjarasamninga breytist, að samningar komi til endurskoðunar eða fari verðlag umfram einhverjar ákveðnar gefnar forsendur, þá verði það sem umfram er bætt. Þetta getur verið nauðsynlegt aðhald að slakri ríkisstjórn, að ríkisstjórn sem ekki hefur tök á stjórn efnahagsmála og þegar launþegahreyfingin er búin að fá langa reynslu af því er auðskilið að eftir því verði óskað. Það er hægt að hugsa sér ýmsa útfærslu á slíkum aðgerðum án þess að menn falli í þá gryfju að taka aftur upp kerfi, sem öllum bar saman um þótt ekki allir vildu viðurkenna það opinberlega, að hefði gengið sér til húðar.