20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5415 í B-deild Alþingistíðinda. (4678)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu lýtur að því atriði sem mestum deilum hefur valdið f umræðum um efnahags- og kjaramál mörg undangengin ár. Hv. 3. þm. Reykv. vék að því að með þessu frv. væri ríkisstj. að hverfa frá stefnu sinni eða hörfa undan þeirri stefnu sem hún hefði lagt í efnahagsog kjaramálum. Þessi fullyrðing er á miklum misskilningi byggð. Það er að sönnu rétt að þetta frv. markar endalok þeirra tímabundnu aðgerða, sem ákveðnar voru í maí 1983, með því að öll ákvæði um vísitölubindingu launa eru nú felld úr lögum um stjórn efnahagsmála, svokölluðum Ólafslögum, og engin áform eru uppi um að framlengja það bann við vísitölutengingu launa sem þá var ákveðin.

Það var grundvallaratriði þegar efnahagsaðgerðirnar voru ákveðnar í maí 1983 að þar var um að ræða tímabundnar aðgerðir sem takmörkuðu á vissan hátt samningsfrelsi. Í fyrsta lagi var þar um að ræða ákvörðun um lögbindingu kaupgjalds í nokkra mánuði. Það voru uppi ýmsar hugmyndir um miklu lengra tímabil lögbundinna kauphækkana eða lögbundinna samninga, en niðurstaðan varð sú að ákveða með lögum kauphækkun í stað vísitölubóta 1. júní og 1. september 1983 og framlengja síðan þá samninga sem falla áttu úr gildi 1. október þar til 1. febrúar 1984. Síðan var ákveðið að bann við vísitölutengingu launa stæði í tvö ár. Hér var því um að ræða tímabundnar aðgerðir eðli máls samkvæmt vegna þess að það er ætlun stjórnarflokkanna að viðhalda hér samningsfrelsi. Aðstæður voru á hinn bóginn þær á vormánuðum 1983 að útilokað var annað, ef uppræta átti þá miklu meinsemd sem þá hafði grafið um sig í íslenskum þjóðarbúskap, en að grípa til þeirra aðgerða sem gripið var til. Það var ekki hægt, miðað við það neyðarástand sem í raun og veru var upp komið þá vordaga, annað en að grípa til aðgerða af þessu tagi og um það var reyndar ekki mikill ágreiningur. Hv. 3. þm. Reykv. lagði t. a. m. til í stjórnarmyndunarviðræðum, sem þá fóru fram, að öllum vísitölubótum yrði frestað 1. júní um nokkurn tíma meðan menn ræddu með hvaða hætti staðið skyldi að breytingum á útborgun vísitölu á laun. Það var m. ö. o. hans afstaða og afstaða Alþb. að óhjákvæmilegt væri að grípa til aðgerða á þessu sviði og fyrir því lagði hann fram tillögu um það að 1. júní kæmu engar vísitölugreiðslur á laun til þess að menn fengju nokkurn tíma til að ræða með hvaða hætti verðbætur skyldu skerðast. Um það var sem sagt ekki ágreiningur á þeim tíma að aðgerðir af þessu tagi voru nauðsynlegar og óhjákvæmilegar.

Að því er vísitölubannið varðar var ákveðið að það skyldi standa í tvö ár svo að menn hefðu tíma til þess að vinna sig út úr þeirri ringulreið sem komin var í íslenskum efnahagsmálum með verðbólgu vel yfir 100%. Það hefðu auðvitað verið ákveðin rök fyrir því að halda vísitölubanninu áfram ef tekist hefði að ná verðbólgunni niður að því marki sem að var stefnt. Vísitölutenging í sjálfu sér er engin trygging fyrir kaupmætti og það hefur glöggt komið fram í þessum umræðum að gamla vísitölukerfið á sér nú formælendur fáa. Ég hef sannast sagna ekki heyrt einn einasta mann upp á síðkastið óska eftir því að það verði tekið upp á nýjan leik, enda hafði reynslan sýnt að meðan það var við lýði og verðbólgan var sem mest varð hér veruleg kaupmáttarskerðing. M. ö. o., það var ekkert sjálfvirki samband á milli þess vísitölukerfis sem þá var í gildi og kaupmáttarþróunar í landinu nema síður sé. Reyndin varð líka sú að kaupmáttarskerðingin, sem menn hafa gert að umtalsefni að undanförnu, var að mestu leyti komin fram áður en aðgerðirnar í maí 1983 voru ákveðnar.

Hv. 3. þm. Reykv. fullyrti í sinni ræðu að einu rök ríkisstj. fyrir þessum aðgerðum væru þau að með þessu móti einu væri hægt að lækka verðbólgu og jafna viðskiptahalla og átaldi mjög, að slíkum aðgerðum skyldi beitt til að ná markmiðum af þessu tagi. Þessi hv. þm. hefur þó í umræðum hér á Alþingi og víðar haldið því fram að sá árangur sem náðist á árinu 1983, að ná viðskiptahalla úr 10%, eins og hann var á síðasta hella starfsári fyrri ríkisstj., niður í 2.5 eða 3% á árinu 1983, eigi ekki rætur að rekja til efnahagsaðgerða þessarar ríkisstj. heldur til aðgerða sem fyrri ríkisstj. ákvað. Og hverjar skyldu þær hafa verið? Þær aðgerðir voru að skerða vísitölutengingu launa í desember 1982 um 50%. Þetta var sú aðgerð sem leiddi til þess að viðskiptahalli byrjaði að minnka á árinu 1983, og það er að sönnu rétt að sá árangur sem náðist í þessu efni á því ári á að nokkru leyti rætur að rekja til þessara ákvarðana. Það er því fjarri sanni að þetta séu ný rök eða í fyrsta sinn sem aðgerðum af þessu tagi hefur verið beitt til þess að ná niður viðskiptahalla. Og hv. 3. þm. Reykv. hefur mjög svo komið þar við sögu á ráðherraferli sínum og beinlínis fært rök fyrir því hér á hinu háa Alþingi og víðar að aðgerðir af þessu tagi hafi leitt til þessarar niðurstöðu, hafi verið gerðar á árinu 1982 í þessu skyni og þá þótti það bæði gott og gilt. Það er þess vegna heldur dapurlegt að hlusta á umræður af þessu tagi, að verið sé að gera lítið úr því að ná árangri á þessu sviði, því að flestum er ljóst að skuldir af þessu tagi verða menn að endurgreiða. Þetta er í sjálfu sér lítið annað en þegar launþegar taka fyrir fram af launum sínum. Þeir geta aukið ráðstöfunartekjur sínar þann mánuðinn, en það kemur að því að menn verða að borga slíka fyrir fram úttekt til baka og þá minnka ráðstöfunartekjurnar. Viðskiptahalli eins þjóðarbús er í sjálfu sér ekki annað en þetta. Menn auka ráðstöfunartekjur sínar um stund, en verða að greiða þær til baka. Þetta sá hv. 3. þm. Reykv. á árinu 1982 og greip þess vegna, í samstarfi við aðra, til aðgerða af þessu tagi. Aðgerðirnar í maí 1983 voru í sjálfu sér ekki annað en framhald af því.

Hv. 3. þm. Reykv. vék einnig að því að þessi kjaraskerðing hefði leitt til þess að fjármagn hefði flust til í þjóðfélaginu og misgengi skapast á milli atvinnugreina. Ég held að þessi fullyrðing eigi ekki við rök að styðjast. Það misgengi sem hér hefur orðið á milli atvinnugreina, bæði atvinnufyrirtækja og launafólks sem starfar í ólíkum greinum, á miklu fremur rætur að rekja til þess að ríkisstj. sem nú situr hefur ekki náð þeim markmiðum, sem sett voru, að draga úr erlendum lántökum og ekki náð að draga svo úr viðskiptahalla sem að var stefnt, en hann fór aftur vaxandi á síðasta ári eftir þann árangur sem náðist 1983. Þetta er ein meginástæðan fyrir því að misgengi hefur orðið og ólíkar aðstæður á milli atvinnugreina, þar sem ýmiss konar verslunar- og þjónustustarfsemi hefur af þessum sökum haft betri aðstöðu en framleiðslugreinarnar.

Að því er varðar húsbyggjendur er það auðvitað rangt að misgengi það sem talað hefur verið um í greiðslubyrði húsnæðislána og svo launaþróunar eigi endilega rætur að rekja til þess að vísitala var afnumin af launum. Þar á milli er ekkert sjálfsagt samband. Við getum horft til þess að þetta misgengi var þegar hafið og kannske að mestu leyti komið fram áður en vísitalan var afnumin með lögum. Það er fyrsta sönnun þess að þarna á milli er ekkert sjálfvirkt samband.

Í annan stað getum við sýnt fram á það að á síðasta ári var, frá upphafi til loka þess árs, fullkomið samhengi á milli launaþróunar og hækkunar á lánskjaravísitölu þó að vísitala hafi ekki mælt þá launahækkanir. M. ö. o.: það er hægt að búa við jafnvægi á milli lánskjaravísitölu og launaþróunar þó að vísitala sé ekki tengd við launin og það sanna dæmin frá síðasta ári og það sanna dæmin frá því að þetta misgengi varð á milli launa og lánskjara meðan launin voru tengd við vísitölu.

Hér er lagt til að öll ákvæði svokallaðra Ólafslaga, laga um stjórn efnahagsmála frá 1979 að því er varðar vísitölu, verði felld úr gildi, bann við vísitölu verði ekki framlengt og aðilar vinnumarkaðarins fái heimild til að semja um kaup og kjör með þeim hætti sem þeir telja skynsamlegast. Ég lít svo á að þetta sé nauðsynlegt skref og óhjákvæmilegt við þessar aðstæður. Það er mjög mikilvægt nú að okkur takist að koma á sáttum í þjóðfélaginu, verja kaupmátt, hefja hagvaxtarskeið sem geti leitt til vaxandi kaupmáttar og bættra lífskjara. Mikilvæg forsenda þess að hér geti hafist nýtt hagvaxtarskeið er sú að friður ríki á vinnumarkaðinum. Til þess að svo megi verða og menn geti samið til lengri tíma þurfa menn að hafa heimildir til að finna lausnir á því hvernig breyttar efnahagsaðstæður koma við kjarasamninga þannig að þeir geti tryggt kaupmátt á samningstímabilinu. Þetta er hægt að gera með öðru móti en viðgekkst meðan gamla vísitölukerfið var í gildi, enda viðurkenna nú flestir að ekki komi til álita, hvorki í samningum né lögum, að taka það upp á nýjan leik.

Ef þetta frv. og brottfall allra ákvæða um vísitölu úr lögum leiðir til þess að menn finna farveg til samninga af þessu tagi, farveg til samninga sem um leið geta skapað það andrúmsloft að við getum tekist á við ný verkefni í atvinnumálum og hafið hér nýtt hagvaxtarskeið, þá er hér verið að stíga framfaraspor. Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. benti hér á, að það er ekki aðeins markmið okkar að lífskjör í þessu landi séu sambærileg við það sem best gerist, heldur hefur efnaleg velsæld auðvitað áhrif á allt atvinnulíf og framleiðslu í landinu og er þáttur í því að skapa öflugt atvinnulíf og öfluga atvinnustarfsemi. Hitt er jafnljóst að okkur verður að auðnast að ná friði á vinnumarkaði, okkur verður að auðnast að koma í veg fyrir að launakollsteypur, sem einungis leiða til verðbólgu en ekki kaupmáttaraukningar, verði áframhaldandi veruleiki í okkar hagkerfi. Með því móti getum við náð því marki að auka kaupmátt samhliða því að við hefjum hér nýtt hagvaxtarskeið í atvinnumálum.