21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5457 í B-deild Alþingistíðinda. (4704)

445. mál, kísilmálmverksmiðja á Grundartanga

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka iðnrh. þessi svör og tel mig reyndar hafa fengið þau svör sem ég var að vonast eftir hér úr þessum ræðustól, að Elkem hafi verið gerð grein fyrir þeim lögum sem gilda hér á landi um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og það sé ekki meining stjórnvalda að gerð verði breyting á þeim lögum. Ég tel þetta þýðingarmikla yfirlýsingu sem nauðsynlegt var að fá hér úr þessum ræðustól.

Ég vil ítreka það að leitað verði allra leiða til þess að af þessari uppbyggingu verði á Austurlandi. Þetta mál hefur nú verið undirbúið um langan tíma og allar aðstæður eru fyrir hendi á Austurlandi til að reka slíkt fyrirtæki ef það er á annað borð arðbært að reka slíka starfsemi hér. Ég vil því láta í ljós þá von að að þessu verði unnið af fullum krafti og hef reyndar ekki ástæðu til að efast neitt um hellindi hæstv. iðnrh. í því sambandi.