21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5525 í B-deild Alþingistíðinda. (4766)

468. mál, ferðaþjónusta

Árni Johnsen:

Herra forseti. Þegar ég tala um að þessi tillögugrein sé flausturslega sett fram þá geri ég það einfaldlega í ljósi þess að það er ekki nokkur möguleiki, miðað við það stefnuleysi sem ríkir í ferðamálum á landinu í heild, að framkvæma á þessum tíma það sem tillagan gerir ráð fyrir. Að ætlast til að sú stefna sé mörkuð fyrir gerð næstu fjárlaga, fyrir mitt ár, er óraunhæft.

Ég er líka viss um það að hv. 1. flm., sem er nefndarmaður í fjvn., veit að málið er miklu meira um sig en svo að ástæða sé til að gefa það í skyn að hægt sé að leysa það á svo stuttum tíma. Það má segja að það séu vaxtarverkir í okkar ferðamálum í landinu. Það eru t. d. ekki nema örfá ár síðan, svo að ég taki aftur dæmi um Suðurland, að fyrsta ferðamálaráðstefnan var haldin þar, þar sem aðilar í ferðamannaþjónustu komu saman. Það fara flestir ferðamenn um Suðurland, 3400 þús. ferðamenn á ári, flestir um það kjördæmi af öllum kjördæmum landsins, en samt sem áður er svo stutt síðan menn fóru að tala saman og bera saman bækur sínar. Þar er því margt á byrjunarstigi. Margt hefur verið vel gert og vissulega er það aðkallandi að þarna sé tekið vel og myndarlega á. En það verður líka að ætlast til þess þegar slíkar tillögur eru lagðar fram, að þær séu framkvæmanlegar af einhverri skynsemi og það finnst mér á skorta í tillgr. þó að ég taki undir grg. og málflutning flm. En mér finnst að það þurfi að vera afmarkað og meira á hreinu til hvers er ætlast í þessari könnun. Mér finnst hún ekki ná nógu langt eins og ég gat um áðan.