21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5526 í B-deild Alþingistíðinda. (4768)

468. mál, ferðaþjónusta

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að engum blandist hugur um það að ferðamálin eru sá atvinnuvegur sem a. m. k. eins og er hlýtur að eiga mikla framtíð fyrir sér. Eins og menn sjá af þessari till. er ég einn af flm. hennar og tel að hún eigi, eins og hún liggur fyrir, fullan rétt á sér. Hv. 3. þm. Suðurl. og hv. 5. þm. Norðurl. e. telja að hér sé til of mikils ætlast á of stuttum tíma. Mér heyrðist á hv. þm. Árna Johnsen að hann teldi að menn hefðu átt að setja fram í þáltill. formi niðurstöðu um hvað ætti að gera þannig að það lægi á borðinu strax.

Þessi till. er fyrst og fremst um það að fela samgrh. að láta kanna fyrir mitt þetta ár hversu mikið fjármagn þarf til þess að kosta þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að mæta 7–8% fjölgun erlendra ferðamanna á ári, sem ferðamálaráð áætlar að muni verða. Þetta er byggt á því að fyrir liggur skýrsla sem unnin hefur verið að frumkvæði ferðamálaráðs á árunum 1982 og 1983 um stöðu þessara mála og líklega þróun þeirra allt til ársins 1992. Nú hygg ég að því megi slá föstu að yrði till. sem þessi samþykkt mundi hæstv. samgrh. að sjálfsögðu byggja á þeim gögnum sem fyrir hendi eru og liggja fyrir hjá hálfopinberri stofnun, svo að maður segi nú ekki meira, eins og ferðamálaráði. Ég held því að ekki þurfi að tala um að hér sé sett fram þáltill. sem sé nánast óframkvæmanleg. Það er síður en svo. Ég vil hins vegar taka undir það að við skoðun þessa máls í heild þarf auðvitað að hafa víðari sjóndeildarhring, því að örugglega eru þeir margir staðirnir og þau svæði sem fyllilega koma til greina við uppbyggingu ferðamannaþjónustu hér á landi. Ég er því þeirrar skoðunar að ekki þurfi ýkja mikla bjartsýni til þess að ætla að slík könnun geti farið fram eins og till. gerir ráð fyrir.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. varpaði því fram hvort ríkið ætti að gera allt. Það er út af fyrir sig rétt að ríkið á ekki að gera allt og það er því miður orðið sjaldgæft að heyra á það minnst í ræðum þeirra hv. þm. Sjálfstfl., en þessi hv. þm. lét þau orð falla að hið frjálsa framtak væri til enn. Það hefur lítið farið fyrir slíku tali í munni hv. þm. flokks hins frjálsa framtaks á umliðnum tíma. En ég er hv. þm. alveg sammála um það að ríkið á ekki að vafstrast í öllu. Það er nóg til af einstaklingum fullum af brennandi áhuga fyrir hinum ýmsu málefnum sem nauðsynlegt er að gefa tækifæri til að fást við. En það er líka full þörf á því, eins og í þessu tilfelli, að mönnum séu opnaðir möguleikar til þessara hluta og í sumum tilfellum verður hið opinbera að hafa visst frumkvæði.

Eins og hér hefur komið fram er nú til meðferðar hér í þinginu frv. til l. um ferðamál. Ýmsum hefur að vísu þótt það vera lengi á leiðinni frá því að það var tilbúið af hálfu þeirrar nefndar sem það samdi þar til það kemur nú fram hér á Alþingi á vordögum og á að vinnast í nefnd á nokkrum dögum og fara hér í gegnum þingið. Ég hugsa að ýmislegt í því frv. sé mjög til hins betra frá því sem nú er. Ég hygg líka að ýmsir hafi sitthvað að athuga við ýmsa þætti þess sem þurfi frekari skoðunar við. En þó að þessi till. gerði ekki annað en að koma af stað umræðum um nauðsyn þess að brugðið sé við í þessum efnum, þá væri hún að mínu viti vissulega búin að ná nokkrum tilgangi, fyrir nú utan hitt að ég tel að eins og hún er fram sett og frá henni gengið sé á engan hátt með réttu hægt að tala um sýndarmennsku í flutningi þessa máls. Hér er einvörðungu gert ráð fyrir því að hæstv. samgrh. verði falið að láta fara fram könnun í þessum efnum og vitandi vits fram tekið að mikil gögn séu fyrir hendi að því er málið varðar. Ef vilji er fyrir höndum hjá stjórnvöldum á annað borð að sinna þessu verkefni hygg ég að það sé framkvæmanlegt og vel það sem þessi till. gerir ráð fyrir.