22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5544 í B-deild Alþingistíðinda. (4782)

509. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Á þskj. 905 er flutt frv. til l. um breyt. á lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands.

Hér er um það að ræða, eins og fram kemur í grg., að til tryggingar vaxtabréfum og öðrum skuldbindingum veðdeildarinnar er gerð sú breyting að í stað ábyrgðar ríkissjóðs, sem hefur þar verið, kemur ábyrgð Búnaðarbankans. Aðrar tryggingar hjá deildinni eru í fyrsta lagi veðskuldabréf þau sem veðdeildin fær frá lántakendum, í öðru fagi varasjóður deildarinnar og svo hefur það verið svo að í þriðja lagi hefur verið ábyrgð ríkissjóðs. Hér er gerð breyting í samræmi við það sem er hjá öðrum ríkisbönkum, að ábyrgðin verður Búnaðarbankans skv. þessum lögum. Hins vegar liggur ljóst fyrir að Búnaðarbanki Íslands, sem er eign ríkissjóðs, er með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs eins og aðrir ríkisbankar.

Í grg. kemur fram í hverju þetta liggur og hér hefur orðið samkomulag á milli þeirra aðila sem fjalla um þessi mál, en formaður í þeirri nefnd sem vann þessa breytingu m. a. er Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbankans.

Ég vísa að öðru leyti til grg. frv. og leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. fjh.- og viðskn.