23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5605 í B-deild Alþingistíðinda. (4857)

507. mál, þróunaraðstoð Íslands

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka utanrmn. fyrir umfjöllun hennar um þetta mikilvæga mál og sömuleiðis hv. frsm. nefndarinnar fyrir góða grg. fyrir þeirri till. sem hér liggur fyrir. Þessi till. er byggð á samþykkt stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og við umræðu um þá samþykkt í utanrmn. var fjallað ítarlega um ýmsar hliðar þessara mála. Ég taldi það auðvitað skyldu mína að kynna þetta mál í ríkisstj. Þar kom fram sú ábending að e. t. v. væri varlegra að ætla sér 7–10 ár til að ná því marki sem hér er sett og flutti ég þau skilaboð til utanrmn., en hún taldi rétt að halda sér við sjö ára tímabil til að ná þessu markmiði og skal ég síst gera athugasemdir við það. Ég hlýt þó að undirstrika mikilvægi þess að hv. alþm. og Íslendingar almennt geri sér grein fyrir því að til að ná þessu markmiði verða þeir að neita sér um fjárframlög til ýmissa velferðarmála og framkvæmda innanlands og í raun má e. t. v. segja að þróunaraðstoðin sé ekki mikils virði eða mikill hugur fylgi máli ef menn eru ekki reiðubúnir til þess þegar á hólminn er komið.