24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5653 í B-deild Alþingistíðinda. (4912)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér er rætt um frv. sem fjallar um breytingar á lögum um stjórn efnahagsmála, lögum sem á sínum tíma vöktu miklar deilur og voru með ákvæði um vísitölu sem verkalýðssamtök og stjórnvöld lifðu eftir um langan tíma. Ég kom hingað í ræðustól til að taka undir með forsrh. að því leyti til að það sé mjög vafasamt að sú vísitala sem var áður hafi þjónað þeim tilgangi sem menn töldu vera með henni og mjög vafasamt að hún tryggði þann kaupmátt sem ætlast var til að hún tryggði. Og annað sem verra var, að ég tel að hún hafi átt þátt í því að magna verðbólgu sem er af því vonda og verkalýðssamtökin geta ekki stuðlað að.

Hins vegar er það ófært fyrir launþega að lifa við kjarasamninga sem ekki hafa einhverjar tryggingar í för með sér. Það verður að finna nýja leið til að tryggja kaupmáttinn, tryggja að þeir samningar, sem gerðir eru, standist. En sú vísitala sem fyrir var var þannig að allar ríkisstj. sem við hana bjuggu breyttu kjarasamningum. Það er harla lítils virði fyrir verkalýðssamtökin að gera kjarasamninga sem þriðji aðili telur sig alltaf knúinn til að breyta. Þegar ég mæli þessi orð er ég ekki að segja að einn stjórnmálaflokkur fremur öðrum hafi skert vísitöluna, það gerðu þeir allir, sem aftur hlýtur að kalla á þá spurningu hjá verkalýðshreyfingunni hvort ekki sé ástæða til að fara aðra leið.

Nú eru fram undan kjarasamningar og eitt meginverkefnið verður að finna leiðir til að tryggja kaupmáttinn. Menn gera sér það ljóst að fyrri leiðir hafa ekki dugað. Ég vænti þess að menn séu sammála um það að kollsteypur á borð við þær sem hafa viðgengist séu til hins verra fyrir launþega og allra verstar fyrir þá sem minnst mega sín. Þeir kjarasamningar sem gerðir voru á síðasta ári segja okkur að leið kollsteypna er úrelt, fara verður leið kaupmáttar, kaupmáttarleiðina eins og ég hef orðað það á öðrum vettvangi.