28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5685 í B-deild Alþingistíðinda. (4961)

477. mál, jarðhiti í heilsubótarskyni

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er fjallað um till. til þál. um nýtingu jarðhita í heilsubótarskyni. Hv. 1. flm., 2. þm. Reykn., hefur gert glögga grein fyrir málinu. Ég er sammála málsútlistun hans. Ég tel að hér megi taka svo til orða að við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar í þessum efnum.

Í 6. mgr. í grg., neðst á bls., er minnst á jarðvarma, hveravatn, hveraleir og ölkelduvatn.

Fyrir nokkrum árum flutti ég þáltill. um jarðhitaleit á Snæfellsnesi sem samþykkt var einróma hér á Alþingi. Þessari þál. var fagnað af vísindamönnum á sviði jarðfræði og jarðeðlisvísinda svo sem vænta mátti því að svo hefur verið sagt að á Snæfellsnesi sé öll jarðsaga Íslands bundin í eitt bindi. Er það því ærið fróðlegt viðfangsefni vísindamönnum á þessu sviði. Ég minnist þess að þeir fræðimenn sem þá létu frá sér heyra, ræddu um að lítt væri kannað ölkelduvatnið og samband þess við jarðvarmann. Þar er sjálfsagt mikið verk óunnið eins og víðar í þessum fræðum. En það hefur lengi verið vitað á Snæfellsnesi og víðar að ölkelduvatnið er holli til neyslu, til lækninga. Því fylgir máttur og lífsorka og mætti ég vitna í margan manninn þessum orðum til staðfestingar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, aðeins segja það að ég vildi ekki láta þessa umr. líða hjá svo að ekki væri alveg sérstaklega minnst á ölkelduvatnið og lífsmátt þess.