28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5723 í B-deild Alþingistíðinda. (5008)

478. mál, tónlistarskólar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir upplýsingarnar. Það er ljóst að það málið sem fyrr kom fram liggur óafgreitt, en hitt hefur fengið afgreiðslu.

Ég er ekkert hissa á því þó hv. þm. geti ekki gefið yfirlýsingu um það hvort málið verði afgreitt úr n. eða ekki, en forvitnilegt væri að heyra hvort hv. formaður menntmn. Nd., hv. þm. Halldór Blöndal, hefði um það einhverja vitneskju hvort það mál yrði afgreitt úr nefnd og einnig um hinn þáttinn hvaðan fyrirstaða kemur gegn því frv. sem í n. liggur. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði að ekki væri samstaða um kostnaðarhlutdeildina af hálfu ríkisins. Gott væri að fá um það vitneskju hverjir það eru sem eru andvígir því frv. sem nú liggur óafgreitt hjá menntmn. en eðli málsins skv. ætti að vera búið að afgreiða vegna þess að það mál er miklu eldra hér í þinginu en það sem nú er verið að ræða um. (ÓÞÞ: Formaður Alþfl. hefur ákveðnar skoðanir á því máli.) Það skiptir ekki meginmáli hér og nú, þó að það geri það oft, hvaða skoðanir formaður Alþfl. hefur, en það skiptir miklu máli hvaða skoðanir þeir hafa sem eru að fjalla um málin hverju sinni. Það er um þær skoðanir sem ég er að spyrja og vildi gjarnan fá um það upplýsingar frá hv. formanni menntmn. hvaðan fyrirstaðan kemur.