31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5793 í B-deild Alþingistíðinda. (5134)

74. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem varðar fyrst og fremst greidd meðlög með börnum á aldrinum 16–18 ára, en lög hafa breyst um það efni. Um þetta mál hafði nefndin áður fjallað og þá mælt með því að frv. yrði samþykkt í óbreyttri mynd eins og það lá fyrir. Síðan fékk nefndin nánari upplýsingar frá ríkisskattstjóra, sem höfðu reyndar misfarist í millitíðinni og þá þótti henni rétt að taka málið til frekari skoðunar.

Í upphaflegri mynd hafði verið gert ráð fyrir því að í undantekningartilvikum, þegar mönnum væri úrskurðað að greiða með börnum sínum allt til tvítugs, væri þar einnig heimild til þess að veita frádrátt vegna slíkra meðlaga, en á því komu fram ýmsir meinbugir í álitsgerð frá ríkisskattstjóra. Þess vegna þótti nefndinni rétt að skoða þetta mál nánar. Við þá athugun og á grundvelli umsagnar ríkisskattstjóra kom í ljós að það var einungis samstaða í nefndinni um að mæla með fyrri mgr. 1. gr. sem fjallar um greidd meðlög fram til 18 ára aldurs. En á hinn bóginn fóru fram ítarlegar umræður og athuganir á vegum nefndarinnar varðandi námskostnaðarfrádrátt sem áður hefur reyndar komið til umfjöllunar og umræðu hér í deildinni. Nefndarmenn töldu að ekki væri nægilega mikið tillit tekið til þess hversu mikinn kostnað menn hefðu í raun af því að hafa börn í námi. En í því máli náðist ekki endanleg niðurstaða. Það var ætlun nefndarinnar að það kæmi þá að hluta til í staðinn fyrir hina síðari mgr. í 1. gr. að leiðrétta þennan námskostnað. En um það varð sem sagt ekki endanleg niðurstaða og nefndinni þótti ekki rétt að láta málið bíða öllu lengur. Því gerði nefndin sérstaka bókun um þetta sem fram kemur í svohljóðandi framhaldsnál.:

„Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu að síðari hluti 1. gr. falli niður. Nefndarmenn telja eðlilegt að námskostnaðarfrádráttur verði athugaður ekki síðar en á næsta þingi.“

Nefndarmenn náðu sem sagt saman um þetta á þennan hátt eftir allmiklar umræður og athuganir. Í samræmi við þessi sjónarmið, sem að lokum náðist samstaða um í nefndinni, flytur nefndin brtt. á sérstöku þskj. sem er þess efnis að síðari mgr. 1. gr. falli niður en í annan stað komi skýrt fram að lögin komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1985 vegna tekna ársins 1984. Það er breyting við gildistökuákvæðið sem þýðir að menn munu fá að njóta þessa þegar í sköttum þeim sem þeim verður gert að greiða á yfirstandandi ári, árið 1985.