31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5795 í B-deild Alþingistíðinda. (5137)

416. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þingskapanefnd, sem fjallað hefur um frv. til l. um þingsköp Alþingis, hefur nú lokið störfum sínum og útbýtt hefur verið nál. þingskapanefndarinnar sem ég mæli hér fyrir. Í þingskapanefndinni áttu sæti níu fulltrúar. Það voru fulltrúar allra flokka í þessari nefnd og allir nm. tóku þátt í störfum nefndarinnar og lokaafgreiðslu þess sem liggur fyrir hér í þessu nál. Meginniðurstaðan er sú að leggja til að gerðar verði breytingar á tveim greinum frv., annars vegar 28. gr. og hins vegar 47. gr. og stendur nefndin öll að þessum brtt.

Ég vil og minna á það, sem reyndar hefur komið hér mjög rækilega fram við umr. áður í hv. þd., að þetta mál hefur hlotið, vil ég meina, mjög góðan undirbúning vegna þess að frv. sjálft er samið af sérstakri mþn. sem Alþingi kaus í desembermánuði 1983. Nefndin vann síðan að þessu máli mjög lengi og hélt marga fundi um þetta mál. Í þeirri mþn. voru og fulltrúar allra flokka, kjörnir af Alþingi.

Eins og hv. þdm. munu vita hefur góð samstaða ríkt um þetta frv. í öllum meginatriðum. Eigi að síður hafa tilteknar athugasemdir verið gerðar við einstakar greinar frv. Það var gert í Ed. og það var að sjálfsögðu gert hér í þessari hv. þd. og einnig í þingskapanefndinni. En niðurstaðan af nokkuð miklum umræðum innan þingskapanefndar, þar sem þessar athugasemdir og aðfinnslur voru teknar til meðferðar og ræddar, varð sú að nefndin sá ekki ástæðu til að flytja aðrar brtt. en þessar sem ég nefndi hér í upphafi og eru við 28. gr. og 47. gr. Ég vil taka það skýrt fram að þó að hér sé ekki á neinn hátt verið að raska meginstefnu frv., eins og það kom frá Ed. og eins og það var búið í hendur þinginu af milliþinganefndinni, þá er hér þó um efnisbreytingar að ræða.

Ég nefni fyrst síðari brtt., við 47. gr.. en 47. gr. frv. fjallar um atkvæðagreiðslu. Eins og frv. er núna og eins og það kom frá Ed. og eins og það var búið í hendur þinginu af milliþinganefnd, þá var gert ráð fyrir því að handaupprétting yrði hin venjulega og eina aðferð, má segja, aðalaðferðin við atkvæðagreiðslu. Jafnframt var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að nafnaköll geti farið fram. En það kom mjög greinilega fram í þingskapanefnd þessarar hv. deildar, ég held ég megi segja að mjög margir af þessum níu fulltrúum sem sátu í nefndinni hafi gert sérstaklega að umræðuefni 47. gr. og töldu brýnt að hverfa til þess ráðs sem tíðkast orðið nú í flestum þingum að atkvæðagreiðsla fari fram með sérstökum rafmagnsbúnaði. Það mun þýða að handauppréttingunni gömlu verður hætt. Menn færa ýmis rök fyrir þessu og telja þetta að ýmsu leyti öruggari aðferð.

Líka er á það bent að þessi aðferð, að hafa rafmagnsbúnað við atkvæðagreiðslu, þýði það að nafnaköll verði þá óþörf vegna þess að hver atkvæðagreiðsla, sem fer fram með því að menn styðja á hnapp, sé nafnakall í sjálfu sér. Eftir þeim upplýsingum sem við frekast höfum mun venjan sú að allar atkvæðagreiðslur, sem þannig fara fram hér í þingunum í grennd, eru birtar í þingtíðindum eins og gerist um nafnaköll hjá okkur. Þau rök hafa einnig verið færð fram fyrir gildi þessarar rafmagnsatkvæðagreiðslu, ef svo má til orða taka, að þm. séu yfirleitt fúsari til að vera við atkvæðagreiðslu, einmitt vegna þessarar reglu, að það kemur greinilega fram hvernig þm. greiddu atkvæði í hverju máli. Þetta varð niðurstaðan í nefndinni og átti mikinn hljómgrunn þar og allir tóku undir það að eðlilegt væri að gera þessa breytingu.

Mér þykir jafnframt eðlilegt að skýra frá því að forsetar Alþingis hafa nú í vetur og að undanförnu verið að vinna að því að hönnuð verði húsgögn í þingsalina vegna þess að nú sjáum við fram á það að þm. muni fjölga á næsta kjörtímabili. Þess vegna var það augljóst að hanna yrði búnaðinn upp á nýtt, fá ný borð og nýja stóla til þess að þessi þingsalur fengi rúmað þá fjölgun sem þarna verður.

Í sambandi við þetta hafa forsetar ákveðið að gera skuli tillögur um það af hálfu þeirra sem koma til með að hanna þennan búnað að þar verði rafeindabúnaður fyrir atkvæðagreiðslur. Þetta er því ekki að því leyti til alveg ný hugmynd. Það hefur verið á döfinni hjá forsetum að taka upp með þessum hætti þegar búið er að gera þingsalinn upp að nýju, búa hann nýjum húsgögnum og búa salinn undir þá fjölgun þm. sem hér verður á næsta kjörtímabili. Þetta er sú efnisbreyting sem nefndin flytur við 47. gr. og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Eftir að við höfðum rætt margar afhugasemdir sem fram höfðu komið, bæði af hálfu nm. og í umræðunum í þingdeildum urðum við sammála um að eðlilegt væri að taka inn nýtt efnisákvæði í 28. gr. sem yrði þá viðbót við 3. mgr. þeirrar greinar. 28. gr. fjallar um meðferð þáltill. En sú breyting sem milliþinganefndin gerði tillögu um miðað við gildandi þingsköp er talsvert mikil breyting vegna þess að gert er ráð fyrir því að umræðutíminn um þáltill. og reyndar fsp. einnig verði talsvert skertur, þ. e. að hver sá sem flytur þáltill. megi tala fyrir máli sínu í 15 mínútur og þó tvisvar sinnum 15 mínútur og aðrir þm. megi þá tala 8 mínútur og reyndar tvisvar sinnum 8 mínútur. Þetta á við um ráðh. líka, þeir hafa þennan sama tíma. Á þessa breytingu féllst Ed.

Við sem sátum í þingskapanefnd þessarar hv. deildar, sem ég er hér talsmaður fyrir, töldum eðlilegt að fylgja þessu meginsjónarmiði að stytta nokkuð umræður um þáltill. Hins vegar töldum við eftir frekari athugun málsins að þær aðfinnslur væru ekki óeðlilegar, sem fram hefðu komið hér í umræðunni, að hafa þetta algerlega fortakslaust, enda var það mál talsvert mikið rætt í Ed. og síðan hér í Nd. Athugasemdir voru í því fólgnar að menn töldu að e. t. v. væri verið að draga þarna úr rétti stjórnarandstöðunnar til þess að hafa áhrif á mál og meta mikilvægi mála. Það varð því niðurstaðan að við leggjum til að bætt verði inn í greinina á eftir ákvæðinu:

„Við fyrri umræðu hefur flm. allt að fimmtán mínútur til framsögu fyrir tillögunni og aðrir þm. og ráðherrar allt að átta mínútum. Hver ræðumaður má tala tvisvar. Þá er þessari umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort tillagan eigi að ganga til 2. umr. og nefndar.“ Síðan kemur sú viðbót sem við leggjum til að komi þarna í greinina og hún hljóðar þannig: „Forseti getur ákveðið frávik frá þessari málsmeðferð ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka beiðni fram við forseta einu sinni á hverju þingi.“

Þetta er sú efnislega brtt. sem við gerum við 28. gr. Þá höfum við líka aðeins hnikað til orðalagi í 28. gr. en þar er alls ekki um neina efnisbreytingu að ræða. Við breytum orðinu „þáltill.“ í „ályktunartillaga“ þegar um er að ræða ályktunartillögur sem koma fram í deildum. Það var meining milliþinganefndarinnar og kemur mjög skýrt fram í athugasemdum hennar og skýringum við einstakar greinar að þáltill. skuli eingöngu bera upp í Sþ. og það eitt séu þingsályktanir sem Sþ. ákveður. Af þessum sökum gerum við þessa orðalagsbreytingu. Þarna er eingöngu um að ræða að gera orðalag greinarinnar skýrara fremur en að um nokkra efnisbreytingu sé að ræða.

Ég held, herra forseti, að ég hafi ekki fleiri orð um þetta sem frsm. Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þessum tveimur breytingum sem er að finna á þskj. 1031, umorðun 28. gr. og svo breytingu á 47. gr. sem ég var að lýsa hér einnig.