06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

38. mál, tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. til hæstv. fjmrh. um áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti. Fsp. eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hver yrði áætlaður tekjuauki ríkissjóðs ef söluskattur (óbreytt álagningarhlutfall) yrði lagður á allar þær vörur (tollskrárnúmer) og þjónustu sem nú eru lögum skv. án söluskatts?

2. Hver yrði áætlaður tekjuauki ríkissjóðs ef allar undanþágur frá söluskatti á annars skattskylda vöru og þjónustu yrðu afnumdar?

3. Hver gæti tekjuauki ríkissjóðs orðið, að mati fjmrh., vegna bættrar innheimtu söluskatts ef allar undanþágur skv. lögum, heimildum og reglugerðum yrðu afnumdar?

4. Hvað mætti þá lækka núverandi söluskattsálagningu mikið, ef miðað er við að halda tekjum ríkissjóðs af söluskatti óbreyttum frá því sem nú er, til þess að lækka vöruverð?“

Herra forseti. Þetta er af minni hálfu tilraun til þess að knýja hæstv. fjmrh. til svara um einhver þýðingarmestu mál sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi. Á sama tíma og þjóðfélagið er að gliðna í tvennt, í tvær þjóðir, annars vegar þá þjóð sem ber þunga skattbyrði en þiggur lág laun fyrir vinnu sína, eru hins vegar uppi háværar raddir um að önnur þjóð sé í landinu sem skammti sér sjálf kjör, ákvarði laun sín sjálf, ákvarði að verulegu leyti skatta sína sjálf og að undan séu dregnir skattar skv. lögum til ríkisins með löglegum eða ólöglegum hætti svo að nemi mörgum milljörðum kr. Ég minni á umr. vegna tveggja tillagna hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á seinasta þingi, um rannsókn á umfangi skattsvika og tillögur til úrbóta.

Sjálfur er ég sannfærður um að í svari fjmrh. hlýtur að koma fram að þær upphæðir sem hér um ræðir séu afar háar og það er fróðlegt fyrir þm. að leggja við hlustir þegar umr. fer annars vegar fram um það að ríkissjóður er rekinn með halla og atvinnurekendur og ríkisvald svara launþegum í landinu með því að peningar séu ekki til til að greiða mannsæmandi laun.

Að lokum, herra forseti. Þessi spurning hefur vakið nokkra athygli og nú skal ég skýra frá því að til mín kom, áður en ég mætti til þings í dag, maður sem rekur sjoppu, en það er útbreiddur og mikilsvirtur atvinnuvegur á Íslandi. Hann bað mig að færa hæstv. fjmrh., með leyfi forseta, varning af tvennu tagi sem hann selur í sinni sjoppu. Þetta mun vera mjög algeng næring fyrir skólabörn á Íslandi. Annað heitir Hraunbitar og er í pakka, hitt heitir víst bara Hraun og er í poka. Hraunpakkar eru án söluskatts og flokkast undir matvæli. Hraun í poka er hins vegar söluskattsskylt. Það er sælgæti.

Maðurinn sagðist hefði getað tæmt lagerinn af hillum sínum og hrúgað hér inn með spurningu til hæstv. fjmrh. um hvernig í veröldinni ætti að framfylgja söluskattsreglum sem svona væru og nefndi eitt dæmi enn.

Maður kemur inn í búð og biður um heita samloku. Það er matur, söluskattslaus. Hann kemur inn og biður um þessa sömu samloku í plastpoka, kalda, með söluskatti. Þetta eru aðeins tvö dæmi, einföld og auðskilin dæmi, um undanþágufargan frá þessum skatti sem er meginástæðan fyrir því að milljónir kr. eru, að mati margra sem til þekkja, dregnar undan þessum skattskilum til ríkissjóðs. Þetta er stórmál hv. þm. Herra forseti. Ég vænti greiðra svara frá hæstv. fjmrh.