04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5854 í B-deild Alþingistíðinda. (5207)

490. mál, fóstureyðingar

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin sem voru að mörgu leyti mjög athyglisverð. Mér sýnist ljóst að framkvæmd ýmissa ákvæða laganna skv. þeim upplýsingum sem fram hafa komið hafa að einhverju leyti verið frjálsari en löggjöfinni var ætlað að gefa tilefni til. Enn aðrir þættir laganna hafa þar fyrir utan verið vanræktir svo að til vansa er.

Þegar lögin voru sett á sínum tíma þóttu þau hafa verið eðlileg málamiðlun sem flestir gátu sætt sig við, en undirstöðu- og grundvallaratriði laganna spanna fjóra liði, þ. e. fræðslu og ráðgjöf varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma þótti fræðsluþátturinn verða hvað mest til bóta frá þágildandi lögum. Þess vegna er það að ég vil leggja áherslu á í sambandi við þau svör sem fram hafa komið að það er vissulega þörf stórátaks hvað þennan málaflokk varðar. Það var þörf og það er vissulega þörf stórátaks vegna þess að það hefur nánast ekkert verið gert til að uppfylla þau ákvæði sem varða þennan lið í lögunum. Það hefur sýnt sig af þeim tölum sem við höfum fengið að heyra hér í dag að það er ekki vanþörf á ráðgjöf og fræðslu og það verður að vinda að því bráðan bug svo fljótt sem er auðið að hefja þennan þátt til vegs og virðingar og gera stórátak í skólakerfinu til að framfylgja lögunum.

Að mörgu leyti má segja að lögin, eins og þau voru samþykki árið 1975, hafi byggst á því að það væri á hreinu að þörf fyrir fræðslu og ráðgjöf væri tvímælalaus og að ljóst væri að fóstureyðingin sjálf eyðir aldrei þeirri félagslegu örbirgð og neyð sem fyrir hendi er í slíkum tilvikum. Þess vegna er alveg út í hött að tala um að taka það ákvæði út úr lögunum að fóstureyðingar séu heimilar af félagslegum ástæðum. Þeir sem enn þá er annt um það ættu að snúa sér alfarið að því að rétta hlut kvenna og búa þeim það hlutskipti sem gerir það að verkum að þær hafi löngun til og félagslega séð getu til þess að eiga sem stærstan barnahópinn sé þeim það á annað borð mögulegt og vilji fyrir hendi.