04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5861 í B-deild Alþingistíðinda. (5220)

513. mál, fjölgun vínveitingaleyfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga í samráði við áfengisvarnaráð á dögunum komu fram hinar merkustu upplýsingar um margt sem snertir stefnu okkar eða stefnuleysi í vímuefnamálum almennt. Tvennt þótti mér þar athyglisverðast: Annars vegar sú staðreynd að hæstv. ríkisstj. hefði ekkert gert með áfangatillögur stjórnskipaðrar nefndar um stefnumörkun í áfengismálum, í rauninni ekki tekið afstöðu til neinnar þeirrar. Hins vegar sú uggvænlega þróun á fjölgun vínveitingaleyfa sem orðið hefur s. l. tvö ár og nemur um 50%. Munar þar mestu um bjórlíkhúsin svonefndu sem þotið hafa upp eins og gorkúlur og framar öðru skapað grundvöll að kröfunni um áfengan bjór sem frjálsastan, eins og ekki þarf hér að rekja.

Á þessari ráðstefnu var það rifjað upp hvert álit sérfræðinga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna væri á þessum málum sem í hnitmiðaðri framsetningu er svo: Betra aðgengi, meiri fjölbreytni = verri afleiðingar, aukin neysla, fleiri meðferðarsjúklingar, fleiri dauðsföll. Ég hef ekki um þetta fleiri orð því að þau segja allt um þetta mál sem segja þarf, en ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmrh. og biðja hann um skýringu á þessari gífurlega fjölgun, hversu við hefur verið reynt að sporna, hvað veldur þessari aukningu og hvers vegna bjórlíkhúsin fá yfirleitt að blómstra svo sem raun ber vitni. Sömuleiðis hvort hæstv. ráðh. er ekki með á prjónunum einhverjar aðgerðir til að reisa hér við rönd. Vantar máske samstöðu í hæstv. ríkisstj. um að eitthvað skuli aðhafst í þessum efnum, eins og alla samstöðu virðist skorta um að taka á tillögum sem stjórnskipaða nefndin hefur sett fram, nefnd sem kom í kjölfar þál. og hefur svo mikla breidd í sjónarmiðum sem raun ber vitni? En fsp. mín á þskj. 965 hljóðar svo:

„1. Hvaða skýringar eru á 50% fjölgun vínveitingaleyfa s. l. tvö ár?

2. Hefur ráðuneytið í hyggju að draga úr leyfisveitingum eða koma í veg fyrir frekari fjölgun?“