04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5866 í B-deild Alþingistíðinda. (5227)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að vekja athygli á því að þetta verkefni kann að vera of einskorðað við það að fela félmrn. að standa fyrir námskeiðum í tölvufræðum fyrir fatlaða. Ég vil geta þess að ég tel að þetta sé gert að því marki sem tölvufræðslan er á annað borð komin á einhvern rekspöl, m. a. á vegum skólanna og það er auðvitað sjálfsagður hlutur að fatlaðir eiga ekki síður en aðrir aðgang að þeim námskeiðum sem í boði eru í þessum fræðum. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að fræðsla fyrir fatlaða á að standa til boða engu síður en fyrir annað fólk.

Þessi till. olli því að mér fannst eins og hér væru menn e. t. v. óvart að setja fatlaða í sérhóp. marka þeim of einangraðan bás. Ég geri ekki ráð fyrir að sú hafi verið ætlunin, heldur þvert á móti að gera fötluðum kleift að fylgjast með einmitt þeirri þróun sem er á þessum tæknisviðum sem hér er fjallað um og að gera þeim kleift að taka þátt einmitt í atvinnu sem krefst tölvuþekkingar. Þetta vildi ég einungis taka fram. En það má vel vera að hér sé átt við enn önnur og afmarkaðri námskeið sem eru fyrir utan allt skólakerfi og önnur tölvunámskeið. Það má vera að það sé það sem menn hafa í huga og ef svo er vil ég óska skýringar á því af hálfu hv. nefndar. Ég tel að það sé alveg sjálfsagt að stuðla að námskeiðahaldi í tölvufræðum bæði fyrir fatlaða og aðra og ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim stórkostlegu möguleikum fyrir fatlaða sem felast í því að nota tölvur í sjálfu náminu í öðrum greinum og þar eru alveg nýir möguleikar sem áhersla hefur verið lögð á að kynna mönnum. Það er m. a. einn af þeim kostum sem tölvuþekkingin og notkun tölva í skólum hefur í för með sér. Þess vegna var það sem mér fannst kannske ástæða til að setja spurningarmerki við það hvort ætti að gera tölvufræðslu fyrir fatlaða að einhverri grein sem ætti að vera afmörkuð frá annarri tölvufræðslu. Ég er ekki viss um að svo sé, en hins vegar þarf að vera vakandi yfir því að gera hinum fötluðu kleift að nota tölvurnar í ýmsu námi í framtíðinni einmitt til þess að þeir geti náð betri árangri og þeirra fötlun standi þeim minna fyrir þrifum í námi en ella mundi vera.