05.06.1985
Neðri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5932 í B-deild Alþingistíðinda. (5308)

290. mál, ríkisendurskoðun

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1070 um ríkisendurskoðun. Það hljóðar svo og er að sjálfsögðu frá fjh.- og viðskn.:

„Nefndin hefur athugað frv. vandlega og leggur hún til að það verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Það er vilji nefndarinnar að Ríkisendurskoðun verði óháð stofnun undir yfirstjórn Alþingis. Forsetar Alþingis tilnefni forstöðumann Ríkisendurskoðunar og svari fyrir hann á Alþingi. Fjárhagsbeiðnir Ríkisendurskoðunar berist með fjárlagatillögum Alþingis.

Guðrún Agnarsdóttir sat fundi n. og er samþykk þessu áliti.“

Undir þetta rita Páll Pétursson, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur Einarsson, Þorsteinn Pálsson, Halldór Blöndal, Svavar Gestsson og Friðrik Sophusson.

Á þskj. 1071 eru ítarlegar brtt. Meginefnisbreyting er sú að sjálfstæði stofnunarinnar er aukið frá því sem áformað var í frv. og þessi stofnun heyrir beint undir Alþingi. Forsetar Alþingis tilnefna til sex ára í senn forstöðumann stofnunarinnar og ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og ber eingöngu ábyrgð gagnvart því. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninga halda áfram að starfa og þá í líkingu við félagskjörna endurskoðendur.

Breytingar eru einnig frá upprunalegu frv. að Ríkisendurskoðunin fer ekki inn á það svið sem okkur þótti eðlilegra að héldist hjá hagsýslunni, þ. e. við ætlum henni ekki að vinna sérstaklega að undirbúningi fjárlaga, heldur kemur hún til með að fylgjast með framkvæmd fjárlaga.