06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

72. mál, forræðislausir foreldrar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans. Mér fannst þess gæta í máli dómsmrh. að varðandi þetta ákvæði barnalaganna væri þetta í frekar góðu lagi allt saman. Ég get ekki verið alveg sammála hæstv. dómsmrh. um það. Ég held að þarna sé einmitt nokkuð stór brotalöm að því er varðar umgengnisrétt forræðislausra foreldra við börn sín. A.m.k. hafa forræðislausir feður séð ástæðu til að hafa með sér samtök um hagsmunamál sín og er þar m.a. sett á oddinn þetta mál, að geta notið umgengnisréttar við börn sín. Ég held að feður sérstaklega eigi verulega undir högg að sækja og dæmi séu um það að feður þurfi að berjast í því langan tíma, jafnvel mörg ár, að fá umgengnisrétt við börn sín og fái jafnvel ekki að sjá þau á þeim tíma.

Hæstv. dómsmrh. gefur hér upplýsingar um að 71 úrskurður hafi fallið í slíkum málum, þar af umgengnisréttarkröfu tvívegis hafnað. Ég held að jafnvel þó úrskurðir dómsmrn. séu feðrum í vil þá virðist það ekki nægja. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann hafi ekki frekari upplýsingar en fram komu í hans máli. Jafnvel þó þessir úrskurðir hafi gengið, 71 úrskurður, hvernig hefur gengið að framfylgja þessum úrskurðum? Ég held að það sé nokkuð mikilvægt að fá það fram.

Ég geri mér grein fyrir því að hér er vissulega um flókin og viðkvæm mál að ræða og kannske bitnar það ekki síst á börnunum ef þeim er meinaður umgengnisréttur við foreldra sína. Ég held líka að umgengnisréttarmál taki of langan tíma í dómskerfinu. Margir telja að mjög sé á reiki hvernig ákvæði um dagsektir eigi að beita og hver eigi að innheimta slíkar dagsektir, enda kemur í ljós í máli hæstv. dómsmrh. að slíkum dagsektum hefur ekki verið beitt. Því vil ég spyrja hann í framhaldi af þessu hvort erfiðleikar séu á framkvæmd við þessar dagsektir þar sem þeim hefur ekki verið beitt hingað til, og hvernig hafi gengið að framfylgja þessum 71 úrskurði sem hann upplýsti að hafi fallið í slíkum málum. Ég held að það sé mikilvægt að fá það fram vegna þess að jafnvel þó þessir úrskurðir hafi gengið feðrum í vil þá held ég að það sé mjög erfitt um alla framkvæmd á þeim.