06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5975 í B-deild Alþingistíðinda. (5387)

Um þingsköp

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég lýsi furðu minni á viðbrögðum hæstv. menntmrh. við þessari sjálfsögðu beiðni hv. þm. Kristínar Kvaran um að þetta mikilvæga mál verði tekið hér til umræðu utan dagskrár. Ég tel það hreina lítilsvirðingu við þetta brýna mál sem dagvistarmálin eru að hæstv. menntmrh., sem fer með þennan málaflokk, fer með yfirstjórn dagvistarmála, skuli ekki telja að það sé þess virði að eyða í það orðum hér á hv. Alþingi þegar við blasir að loka getur þurft dagvistarheimilum sem fyrir eru og útilokað að manna nýjar dagvistarstofnanir. Hæstv. menntmrh. ber það fyrir sig að hún hafi haft lítinn tíma til að kynna sér þessi mál, hún hafi fyrst séð þetta í NT á morgun. Þetta mál var þó í fréttum ríkisfjölmiðlanna í fyrrakvöld þannig að ég tel að hæstv. ráðh. hefði átt að hafa nægan tíma til þess. Hæstv. ráðh. segir að hún viti ekki um hvað fsp. snúist, um hvað sé verið að spyrja. Það er verið að spyrja um þennan vanda hér, hvaða úrlausnir hæstv. ráðh. hafi til þessa að leysa það vandamál sem blasir við á dagvistarheimilum. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, ef hún telur sig hafa haft lítinn tíma til að kynna sér þessi mál, hvort hún sé þá reiðubúin til þess, þegar hún hefur tekið sér þann tíma sem hún þarf til að kynna sér þessi mál, að svara þeirri fsp. utan dagskrár. Ég tel að hæstv. ráðh. ætti að nægja sá tími að við getum hafið hér umr. ef ekki síðar í dag, þá á morgun. Það sneyðist um tíma Alþingis og ég tel að það sé of seint að bera fram formlega fsp. um þetta mál, þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort hún sé þá reiðubúin til svara utan dagskrár um dagvistarmálin síðar í dag eða á morgun.

Eins og allir vita, þá eru dagvistarrými langt frá því að vera fullnægjandi. Ef til viðbótar kemur svo að loka þurfi einhverjum af þeim heimilum sem fyrir eru, þá er ekki hægt að jafna því við neitt annað en neyðarástand, enda eru dagvistarheimill forsenda þess að margar konur geti verið úti á vinnumarkaðinum. Og hvað eiga þessar konur að gera ef dagvistarheimili lokar? Hefur hæstv. ráðh. virkilega engar áhyggjur af því eða telur að það sé þess virði að ræða þau mál hér á hv. Alþingi? Þessi viðbrögð hæstv. ráðh. við þessari sjálfsögðu málaleitan hv. þm. Kristínar Kvaran eru vægast sagt ámælisverð og ég skora á hæstv. menntmrh. að endurskoða sína afstöðu þannig að við getum tekið þetta mál upp með eðlilegum hætti og til umræðu hér á hv. Alþingi.