06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5975 í B-deild Alþingistíðinda. (5388)

Um þingsköp

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. 1. landsk. þm. Mér eru að vísu ekki kunn orðaskipti þm. og ráðh. en mig undrar að hæstv. ráðh. skyldi ekki taka jákvætt í beiðni hennar um að ræða þetta mál utan dagskrár og ég vil taka undir tilmæli hv. síðasta ræðumanns um að svo verði gert. Hér eru að vísu miklar annir en ég leyfi mér að fullyrða að oft höfum við fórnað dýrmætum tíma okkar í ómerkari mál en þau hvernig við búum að börnunum okkar.

Í tilefni af þessu væri fróðlegt að vita hvort það er algengt að hæstv. ráðherrar neiti að ræða mál utan dagskrár eins og hv. 10. landsk. þm. kom að hér áðan. Ég veit aðeins um eitt annað tilvik á þessu þingi. Það var þegar hæstv. fjmrh. neitaði hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur um að ræða kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins utan dagskrár. Það er vafalaust alger tilviljun að í báðum tilvikum eru það konur sem hafa farið fram á þessa utandagskrárumræðu.

Ég vil svo þakka virðulegum forseta þolinmæði við hv. 1. landsk. þm. og raunar fleiri, sem hér hafa talað, þótt þær færu lítillega út í efnislega umræðu. En ég hygg að þm. geti fallist á þá fullyrðingu að konurnar hér á Alþingi séu ekki stórlega sekar um aðgangshörku við þennan ræðustól. (Forseti: Já, ekki veitir af þakklætisorðum til forseta. Hann er orðinn óþolinmóður.)