06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

78. mál, löggæsla á Reyðarfirði

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fjarri sé mér sem 5. þm. Reykv. að skipta mér af hvort heldur er kristnihaldi undir Jökli eða eftirsjá þeirra Reyðfirðinga eftir lögregluþjóni sínum. En þar sem fyrirspyrjandi er hv. 2. þm. Austurl. vil ég rifja upp að flokkur hv. þm. hefur mjög mótaða stefnu í þessu máli. Sú stefna kom fram á ráðstefnu um sveitarstjórnarmál þar sem rædd var reglugerð um nauðsyn löggæslu og hversu margir lögregluþjónar skyldu vera til halds og trausts per íbúafjölda. Þá stóð upp merkasti bæjarstjórnarmaður þeirra Alþb.-manna, Bjarni Þórðarson, og hélt stystu en merkustu ræðu þessarar ráðstefnu, en hún hljóðaði svo með leyfi forseta:

„Samkv. þessari reglugerð ættum við í Neskaupstað að hafa tvo lögregluþjóna. Við höfum einn, þurfum engan. Takk fyrir.“

Með vísan til þess að Neskaupstaður er hin rauða borg og hið sterka vígi Alþb. í sveitarstjórnarmálum, svo sem eins og áður voru rauðu bæirnir Ísafjörður og Hafnarfjörður hjá okkur krötum, þá lít ég svo á að þetta sé stefnumarkandi fyrir Alþb. og vil þess vegna að gefnu tilefni koma þeirri stefnu á framfæri.