06.06.1985
Neðri deild: 87. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6017 í B-deild Alþingistíðinda. (5439)

146. mál, sjómannalög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 1122, sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur. Því miður náðist ekki samstaða í nefndinni um að flytja þessa till. í hennar nafni þótt meðnm. mínir sýndu þessu máli skilning, eins og hv. formaður samgn. og frsm. Stefán Valgeirsson lýsti hér áðan, og ég telji mig geta fullyrt að ýmsir séu í raun fylgjandi henni. En till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef kona, sem er skipverji, verður barnshafandi, getur hún krafist lausnar úr skiprúmi ef hagsmunir hennar eða barnsins krefjast þess og á hún þá aðeins rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hún var í skiprúminu.

Ef kona fær lausn úr skiprúmi eftir ákvæðum 1. mgr. skal útgerðarmaður, sé þess nokkur kostur, veita henni annars konar starf á sínum vegum óski konan þess.“

Fyrri mgr. þessarar greinar er samhljóða frumvarpsgreininni að öðru leyti en því að orðið „barnshafandi“ kemur í stað orðsins „vanfær“. Hér er aðeins um smekksatriði að ræða og ekki beint stórmál.

Síðari mgr. er samhljóða brtt. sem hv. þm. sigríður Dúna Kristmundsdóttir flutti þegar frv. til sjómannalaga var til lokameðferðar í Ed. Till. var felld þar en ég hef ástæðu til að ætla að þau úrslit gefi ekki fyllilega rétta mynd af vilja þm. í þeirri hv. deild, a. m. k. að atkvæðamunurinn hefði ekki orðið jafnmikill og raun varð á, hefði gefist meiri tími til umfjöllunar. Kvennalistinn á ekki aðild að samgn. Ed. og þessi till. kom fram við 3. umr. og fékk að einhverju leyti óheppilega kynningu. Ég tel mig einnig mega ætla að þessari till. hefði áunnist fylgi í hv. samgn. Nd. ef meiri tími hefði gefist til að kynna þetta, en þar hefur verið mikið vinnuálag undanfarnar vikur, mörg mál til meðferðar og hart keyrt.

Með þessari síðari mgr. í brtt. okkar er leitast við að tryggja lágmarksatvinnuöryggi þungaðrar konu sem hefur starfað sem skipverji. Hér er í rauninni um afar lítið skref að ræða og hefði ég vissulega kosið að hafa það stærra og leggja til ákvæði um að slík tilfærsla í störfum hefði ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hennar eða réttindum. Með þeirri till. sem hér er borin fram er auðvitað ekkert tryggt. En með þessu ákvæði væri þó fengin ákveðin lagastoð sem gæti reynst hlutaðeigandi betri en ekki og í það minnsta viss áminning.

Við töldum ekki fært að ganga lengra því að í rauninni eru margir útgerðaraðilar sem alls ekki hefðu möguleika til þess að koma til móts við kröfur í þessum efnum, hefðu einfaldlega ekki upp á önnur atvinnutækifæri að bjóða. En Alþingi væri að því sómi ef það samþykkti þessa till. okkar og tryggði með því lágmarksatvinnuöryggi sjókvenna sem verða að hætta sjósókn vegna þess að þær eru með barni. Meðgöngutíminn er einkar viðkvæmt tímabil í lífi viðkomandi einstaklinga, konunnar og barnsins, og það er áríðandi að gera allt sem unnt er til að tryggja sem bestan hag þeirra meðan á því stendur. Ég bið hv. þm. að skoða þessa till. með jákvæðu hugarfari og bera hana m. a. saman við 36. gr. þessa frv. sem tryggir skipverjum allan rétt til óskertra launa ef þeir verða óvinnufærir vegna sjúkdóm, eða meiðsla og gildir þá einu hvort slíkt hefur borið að í vinnutíma eða ekki.