07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6028 í B-deild Alþingistíðinda. (5467)

526. mál, Seðlabanki Íslands

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mér er það út af fyrir sig ljúft ef hæstv. viðskrh. vill taka upp almennar umr. um peningapólitík og ekkert óeðlilegt að það sé gert í tilefni af þessu frv. Sannleikurinn er sá að það sem ræður í peningamálum á Íslandi er svokallaður monetarismi, fjármagnskenning hefur það verið þýtt á Íslandi. Kenningin er sú, að ríkisvaldið eigi að sjá til þess að borgararnir hafi sem minnsta peninga undir höndum. Þetta hefur verið reynt víða um lönd. T. d. þegar olíukreppan byrjaði. Þá var byrjað á því að reyna að frysta peninga. Það var talað um að hæfilegt atvinnuleysi þyrfti að vera til ef ekki verðbólga o. s. frv. Árangurinn af þessari stefnu: Nú er Ísland eina ríkið þar sem frystir eru peningar allt upp í marga tugi prósenta. Það veit ég ekki til að þekkist í nokkru vestrænu ríki — ekki í þróuðu lýðræðisríki. Það mun þekkjast í Brasilíu og Suður-Ameríkuríkjum þar sem engir peningar eru í umferð og verðbólgan þar af leiðandi 600–800% .

Ég held að hæstv. viðskrh. hafi mjög gott af að hlusta á þetta. Er ráðh. þarna? (Gripið fram í.) Nei, nei, ég held að hann hefði gott af að hlusta á svolitla kennslustund í peningamálum miðað við þá ræðu sem ráðh. flutti hér áðan. (Viðskrh.: Það er nú eins og ráðh. hafi heyrt þetta áður.) Já, en lítið lært af því. Það er kannske kominn tími til að læra eitthvað. En staðreyndir mætti kannske hlusta á. Það væri gaman að heyra hvort hæstv. viðskrh. gæti bent okkur á eitthvert vestrænt land sem ræki álíka peningapólitík og rekin er hér, að frysta nú 18%, það var miklu meira áður eins og menn vita, og hér var samþykkt 10% heimild ofan á allt saman þannig að í lögum stendur nú að Seðlabankinn geti fryst 28% af öllu sparifé þjóðarinnar. Og þá er nú komið að því: Hvað er sparifé þjóðarinnar? Það var fyrir svona tólf árum eða svo, eitthvað nálægt 40% af þjóðarframleiðslu, spariféð. Það var fyrir nokkrum árum komið niður undir 20%. Það hafði sem sagt helmingurinn horfið í verðbólguflóðinu og í monetarismanum. peningamagnsskömmtuninni. Þá gufaði það allt saman upp. Það fór allt út úr bönkunum að sjálfsögðu. Það voru neikvæðir vextir og peningastjórn ofan á allt saman. Nú segja að vísu bankamenn að þetta hafi aukist á ný. en hvernig hefur það gerst? Ósköp einfaldlega þannig að það eru stanslaust tekin erlend lán. Skv. upplýsingum hæstv. forsrh. eru 55% af öllum útlánum viðskiptabankanna orðin í erlendri mynt. Og nú kom síðast í Morgunblaðinu í morgun frétt af því að lögmætir gjaldeyrisreikningar á Íslandi væru orðnir 40 þúsund talsins. Í þeim stæðu, ef ég man rétt, 1.8 milljarðar kr. sem Íslendingar eiga inni í þessum reikningum. Krónan er sem sagt dauð. Það hefur vísvitandi verið haldið þannig á málum að myntin okkar er ekki lengur við lýði. Hún er horfin. Við ættum kannske þess vegna að takmarka þá mynt í umferð.

En þessi kenning um seðlaprentun í umferð er nú sem betur fer að syngja sitt síðasta vers hvað sem hver segir. Seðlamagn í umferð skiptir orðið sáralitlu máli og því minna máli sem lengra dregur. T. d. er það svo í Bandaríkjunum að menn eru varla með nokkurn eyri í vasanum, kannske einhver sent fyrir strætó. Hitt er allt saman komið í kreditkort og í tölvur, telexsendingar o. s. frv. Allar meiri háttar peningasendingar í þessum þróuðu löndum eru komnar í þessa farvegi þannig að þetta leysist kannske af sjálfu sér.

Það er kannske rétt á þessu stigi að nefna að mér er ekki kunnugt um að nokkurs staðar hafi verið alvarleg verðbólga þar sem nægilegt framboð hefur verið af peningum, en hins vegar alls staðar verðbólga þar sem ofstjórnarbrjálæði hefur verið í peningamálum.

Við skulum bara taka dæmi. Tökum Svissland. Getur einhver sagt mér hve verðbólga hefur verið mikil þar? Þar standa bankastjórarnir á tröppunum og biðja fólk að taka lán á hóflegum vöxtum. Það var töluverð verðbólga orðin í Bandaríkjunum, en með efnahagsaðgerðum, góðum eða illum, hvernig sem menn vilja líta á það, sem Reaganríkisstjórnin gerði, byrjaði fé að streyma til Bandaríkjanna í stórum, stórum stíl og verðbólgan hvarf. Það geta allir fengið lán á einhverjum vöxtum auðvitað. Svo komum við hér. Það verður bankasprenging í fyrra, vaxtasprenging, góðu heilli vil ég segja. En hvernig í ósköpunum er hægt að reka peningapólitík þar sem allir peningar eru lokaðir inni? Það er enginn aðili í þjóðfélaginu sem fæst til þess að ávísa á verðmæti þjóðfélagsins. Peningar eiga ekki að vera neitt annað en ávísanir á verðmæti. Meginskylda Seðlabankans er að sjá til þess að nægilegt fjármagn sé í umferð til að atvinnuvegirnir séu reknir með sem hagstæðustum hætti. Ég held að ég muni þetta orðrétt. Það er aðalstefnumark bankans, en Seðlabankinn hefur verið neyddur til, — ég er ekki að kenna Seðlabankanum eða seðlabankastjórum um þetta, það hafa verið ríkisstjórnir sem hafa neytt bankann til þess. — að bregðast þessu meginhlutverki sínu og enn er verið að gera þetta og harkan er svo mikil og ofstækið að það er varla hægt að fá mál hér rædd. Málið sem var rætt hér fyrr held ég að hæstv. viðskrh. hafi tafið sjálfur um einar fimm vikur með eilífum beiðnum um frest og annað slíkt. Það fékkst ekki afgreitt með eðlilegum hætti. Og nú er verið að víta forsetann fyrir það þó að ráðh. komist að með þessa snilldarræðu sína einum eða tveim sólarhringum seinna en ella hefði verið!

Nei, þetta eru nefnilega alvörumál. Þarna er röng stjórnarstefna sem fylgt hefur verið í vaxandi mæli á síðustu árum. Ólafslög voru kannske toppurinn á þessu sem rangnefnd voru nú Ólafslög af því að ég veit að þáv. hæstv. forsrh. var ekki mikið hrifinn af þeirri löggjöf. Þetta voru greinargerðir einhverra hagspekinga um hvernig ætti að ráða við verðbólguþróun með því að frysta sífelli meiri og meiri peninga. Það var aðalúrræðið eins og menn vita. Og hvernig fór það? Þegar sú stjórn. sú seinni af þessum tveimur sem fylgdi þessari stefnu, hrökklaðist frá, þá var verðbólgan komin í 130% og allir atvinnuvegir á vonarvöl. Og hvað gerðist allan þennan tíma, t. d. með útgerðina? Það voru engir peningar til í bönkum, alltaf svarað: engir peningar til í rekstrarlán eða annað slíkt. En við skulum taka mið af dollaranum. Útgerðin var öll sett á hausinn með því að það voru tekin dollaralán sem reyndust svo á raunvöxtum kannske 20–30% meðan voru neikvæðir vextir á þessu litla sem lánað var út í Seðlabankanum og gegnum viðskiptabanka og mönnum þar auðvitað hyglað og það fór ekki til meginatvinnuveganna. Það fór í allt aðrar hítir og það sjá allir menn fyrir sér nú.

Íslenska peningamyntin var raunverulega hrunin áður en þessi hæstv. ríkisstj. tók við. Ég er svo sem ekkert að ásaka hana sérstaklega. Menn sáu bara ekki að sér í tíma. En ef menn ætla ekki einu sinni að sjá að sér nú líst mér ekki á blikuna. Þá verðum við að afnema íslensku myntina í eitt skipti fyrir öll og taka t. d. upp þessa SDR-mynt, einhverja millimynt eða einhverja Evrópumynt sem er víst orðin til núna eða þá dollar eða mörk eða eitthvað slíkt, t. d. þýsk mörk. Þá yrði sjálfsagt niðurstaðan sú að við tækjum upp nýja mynt. þegar við hefðum undirbúið það nægilega rækilega, og mundum þá sjálfsagt líka kalla hana mörk og eyri, taka upp fornt íslenski heiti á því. Við höfum ekkert að gera með kórónu á okkar peningum. Það er kannske í lagi að láta krónuna fara þess vegna. Það mætti nota hana sem einseyring eitthvert tímabil til að eyðileggja ekki skiptimyntina og breyta því svo í aura. En auðvitað stefnir þetta í þessa átt ef menn ekki átta sig á því að það verður einhver stofnun í þjóðfélaginu að geta gefið út peninga, ávísanir — ekki endilega seðla en einhvers konar ávísanir. Einhver miðlari verður að vera. Það var reynt í Bretlandi að koma á monetarisma. Margrét Thatcher reyndi það. en auðvitað komst hún ekki upp með þann moðreyk. Þar eru bankarnir nefnilega í einkaeigu, háþróaðir fjármagnsmarkaðir, sem hér skortir. Hér eru mjög litlir fjármagnsmarkaðir. Smáfyrirtæki eru að reyna að selja skuldabréfin, eins og þið þekkið. Vextirnir þar verða auðvitað ógnarháir vegna þess að það er ekkert magn af þessum peningum og þessum skuldabréfum í umferð. Það er lokað inni. Stofnunin sem á að sjá um að gefa þetta út neitar að sjá um það í samráði við ríkisvaldið. Þess vegna búum við við þessar aðstæður.

Ég veit að þið, hv. þm., þekkið þessi rök meira og minna og ég held að svo til allir skilji þessi rök. Það þarf bara að manna sig upp í að láta rökin ráða gerðum sínum og að koma á heilbrigðu peningakerfi. Fyrsta skrefið er að það séu einhverjir peningar í umferð. Ef Seðlabankinn ekki gerir þetta verður ríkissjóður auðvitað að gera það að einhverju leyti. Hann er byrjaður á því — a. m. k. með skuldabréfunum. Þau ganga manna á milli. Fólkið er líka byrjað á þessu. Víxlar ganga núna manna á milli. Það eru ekki heilbrigð viðskipti að víxlar sem kannske ganga á milli 6–7–8 aðila eru orðnir að peningum í þessu þjóðfélagi. En það eru að koma peningar. Eins og ég sagði áðan eru peningar bara ávísanir á verðmæti. Auðvitað verður þróunin sú, að ef Seðlabankinn ekki má gera þetta, fæst ekki til að gera það sem honum er boðið, til þess er hann starfræktur að sjá um að það sé peningamagn í umferð. Auðvitað á einhverju verði. Auðvitað verðum við að hafa svipaða vexti og annars staðar eru. En við gerum ekki hvort tveggja að loka peningana inni og hafa vexti frjálsa. Það dæmi gengur hreint ekki upp.

Ég gæti talað hér í allan dag um þetta, en skal ekki vera að því. Ég held að það hljóti að koma að því að það ljós renni upp fyrir mönnum að lengur verður ekki haldið áfram á þessari braut.