06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

92. mál, sérdeild við sakadóm Reykjavíkur

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í þáltill. sem samþykki var á Alþingi í maí 1984 er kveðið á um tafarlausa framkvæmd ýmissa verkefna til að draga úr skattsvikum og gera alla skattheimtu ríkissjóðs skilvirkari og hraðvirkari en nú er. Í þeirri fsp. sem hér er fram borin er óskað svara frá hæstv. dómsmrh. um framkvæmd ákveðinna verkefna í umræddri þáltill. sem er á verkefnasviði dómsmrn. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hefur dómsmrh. beitt sér fyrir endurskoðun laga um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972, með síðari breytingum. svo og laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, með síðari breytingum, í samræmi við ákvæði þál. um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 1984?

2. Hvenær má búast við að eftirtalin verkefni, sem ríkisstj. var falin tafarlaus framkvæmd á, komist til framkvæmda:

a) að stofnuð verði sérdeild við sakadóm Reykjavíkur sem fái m.a. eftirtalin afbrot til meðferðar: skattsvik, bókhaldsbrot, gjaldeyrisbrot, faktúrufalsanir, verðlagsbrot og fleiri skyld brot.

b) fjölgun sérhæfðra starfsmanna hjá embætti saksóknara.

c) að starfsemi rannsóknarlögreglu ríkisins verði efld í þessum málaflokkum?“

Hér er um mikilvæg mál að ræða sem lið í að herða allt skattaeftirlit og meðferð skattsvikamála. Vona ég að hæstv. dómsmrh. hafi þegar hafist handa um framkvæmd þessara liða sem ég hef hér greint frá í samræmi við ályktun Alþingis frá í maí 1984.