10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6127 í B-deild Alþingistíðinda. (5591)

129. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. allshn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 55/1981, um breytingu á umferðarlögum nr. 40/1968. Ég ætla að lesa álitið, með leyfi forseta:

„Meiri hl. n. telur að varanlegur grunnur að bættri umferðarmenningu og meira öryggi verði ekki lagður með sektarákvæðum. Úrbætur verða að fást með jákvæðri löggæslu, hvatningu og upplýsingum. umferðarkennslu og aðgerðum á sviði gatnaframkvæmda og skipulags, svo að dæmi séu nefnd. Notkun einstaklinga á bílbeltum verður að byggjast á fullvissu þeirra sjálfra um nytsemi hennar en ekki á ótta við lögreglu og dómsvald. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði fellt.“

Undir þetta skrifa: Guðmundur Einarsson sem er frsm., Ólafur Þ. Þórðarson, Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson með fyrirvara.

Það má margt um svona mál ræða. Í þessu nál. er drepið á örfá atriði, þ. e. að menn velti fyrir sér hverjar séu hinar raunverulegu og varanlegu umbætur sem á hverjum tíma sé mögulegt að ná fram í umferð. Þar er augljóst að stefna ber að því að bæta þessi mál með jákvæðum aðgerðum svo sem eins og hvatningu og upplýsingum. Við höfum um það dæmi hérlendis að þegar verulegt átak hefur verið gert í þeim efnum, eins og gert var þegar hægri umferð var tekin upp á landinu, þá breytist umferðarmenning mjög til bóta. Þá gerðist það samtímis að í fyrsta lagi var mjög mikil fræðsla og mikill áróður hafður í frammi um umferðarmál. Til þess var beitt þeim aðferðum sem þá voru tiltækar. Þær voru nýttar mjög vel enda lét árangurinn ekki á sér standa. Sömuleiðis var gert mikið átak í því að bæta og breyta umferðarmannvirkjum þannig að umferð yrði sem auðveldust og það yrði sem ljósast fyrir hvern mann hvernig hann ætti að þessu að standa.

Það er álit mitt og þeirra sem undir þetta nál. skrifa að aðgerðir af þessu tagi hljóti að vera þær sem mest og best áhrif hafa og stefna beri að. Einnig er augljóst að ýmsar aðgerðir til skipulagsbóta, aðgerðir t. d. sem beina umferð frá íbúðarsvæðum og aðgerðir sem miða að því að flytja umferð á sem auðveldastan hátt, eru hinar nytsamlegustu.

Þegar að því kemur síðan að taka afstöðu til þess hvort eigi að skylda fólk til að nota bílbelti og sekta fólk fyrir að nota ekki bílbelti þá koma ýmis sjónarmið til greina. Í fyrsta lagi geta menn velt fyrir sér hvað eigi að ganga langt í þá átt að setja borgaranum á þennan hátt ákveðnar umgengnisreglur og skylda hann til að fara eftir þeim. Um þetta er ekki hægt að setja neina eina algilda reglu, það hlýtur að verða matsatriði hverju sinni sem óskir um slíkt koma upp. En þetta eru erfiðar ákvarðanir vegna þess að öll viljum við reyna að feta hinn gullna meðalveg, við viljum setja þau lög og þær reglur sem tryggja okkur sæmilega vandræðalausa umgengni hvert við annað, en við viljum ekki ganga svo langt í þá átt að hægt sé að segja að við séum með óeðlilegri forsjárhyggju að hafa vit fyrir fólki beinlínis.

Það er hægt að nefna um þetta ýmis dæmi. Við vitum t. d. að menn hafa sagt sem svo: Reykingar eru óhollar fyrir fólk og beinlínis skaðlegar. Engum dettur samt í hug að banna vindlingareikingar með lögum að viðlögðum lögregluaðgerðum eða refsingum. Sumir telja t. d. að það sé óhollt fyrir þjóðina að hafa marga framsóknarmenn en það hefur enginn beinlínis mælt með því að þeir verði bannaðir með lögum heldur. Þannig verða menn að leita sátta og reyna að þræða milliveginn eins og hægt er hverju sinni.

Ég tel ekki rétt að fara inn á þá braut að setja fólki þær skorður sem gert er með löggildingu og sektum vegna þess að nota ekki bílbelti. Það er líka atriði sem vert er að ræða í þessu sambandi hvort menn telja yfirleitt unnt að framfylgja svona lögum. Menn ættu að velta fyrir sér hvert álag slík löggjöf yrði á dómskerfið í landinu og í framhaldi af því hvort menn telji að það yrði almenn hlýðni við svona löggjöf.

Í sambandi við þessi mál hafa menn litið dálítið til útlanda og reynt að taka hliðstæður og dæmi og sagt sem svo að erlendis hafi það sýnt sig að þetta fyrirkomulag, sem lagt er til í þessu frv., hafi leitt til þess að fólk noti bílbelti miklu meira en ella og þar af leiðandi segja menn að slíkt mundi gerast hérlendis. Það er hins vegar alveg óreynt. Það eru ýmsir sem telja sig með nokkrum rétti geta haldið því fram að Íslendingar séu a. m. k. í umferðarmálum alls ekki löghlýðið fólk. Þetta hvarflar stundum að mér þegar ég geng úr Þórshamri og hér út í þinghúsið og þarf að klofa fyrir einn eða tvo bíla sem lagt er ólöglega á gangstéttinni fyrir framan Þórshamar. Síðan liggur kannske við að keyrt sé yfir mann á horninu hérna við Dómkirkjuna og loks standa ráðherrabílarnir hér í röðum fyrir framan þinghúsið þar sem tryggilega er merkt að ekki megi leggja bílum.

Ég held sem sagt að Íslendingar hafi ekki sýnt mikla áráttu til að virða umferðarlög þótt beitt sé sektum. Um það er hægt að nefna ýmis dæmi. Ég hef nefnt nokkur í sambandi við almenna umgengni í umferðinni hér í Reykjavík, við getum nefnt atriði eins og hlýðni við reglur um hámarkshraða o. fl. o. fl. Við vitum líka að þessi atriði sem ég nefndi hér áðan og sektir, lögregluaðgerðir og dómsaðgerðir í sambandi við þau valda miklu álagi á skrifstofum dóms- og lögregluvaldsins og tefja að ýmissa mati framgang stærri mála á þeim sviðum þannig að til baga er. Það er því að mörgu að hyggja.

Það eru ýmsar aðferðir til að ná fram með góðu aukinni notkun bílbelta. Ég er ekki í nokkrum vafa um að notkun bílbelta er af hinu góða en það eru til ýmsar aðferðir sem virka hvetjandi á fólk til þess að gera þetta og þær aðferðir hafa verið reyndar víða erlendis. Það er fróðlegt fyrir þá sem hafa áhuga á þessu máli að lesa grein sem birtist í DV þann 3. apríl árið 1984 eftir Stefán Má Stefánsson lagaprófessor. Hann skrifar þar um bílbeltafrv. Þar eru ýmsar hugmyndir, upplýsingar og vangaveltur um þetta mál. Þar er vísað til reynslu annarra þjóða og það er vissulega þess virði að hyggja að því sem rætt er í þessari ágætu grein. Það gæti hugsanlega gerst við frekari umræðu þessa máls. Mér fyndist það vel við hæfi að þær hugmyndir sem varpað er fram í þessari grein kæmu hér fyrir eyru þm. og færu í þingtíðindi. En í þetta sinn ætla ég ekki að hafa mál mitt lengra.