11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6229 í B-deild Alþingistíðinda. (5699)

519. mál, fiskiðnskóli á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið. Hún gaf skýrt og málefnalegt svar við þessari spurningu og mér fannst að af svari hennar mætti ráða að undirbúningur þessa máls væri á réttri braut. Ég get hins vegar ekki þakkað hv. þm. Birni Dagbjartssyni sérstaklega mikið fyrir hans innlegg því að það fannst mér heldur fljótfærnislegt og snautlegt.

Hann þurfti auðvitað endilega að koma að þeirri pillu að vissulega hefði mér verið í lófa lagið að kippa þessu máli í liðinn, eins og hann orðaði það, meðan ég var menntmrh. eitt árið. Auðvitað veit hann eins og ég að á þeim tíma vorum við að koma upp Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði. Ég átti minn þátt í því að styrkja hann og efla í samræmi við þá lagasetningu sem hafði átt sér stað hér á Alþingi. Það hlaut auðvitað að ganga fyrir og var algerlega óraunhæft að stofna annan skóla á nákvæmlega sama tíma.

Ég held að hann hafi hins vegar hitt naglann á höfuðið áðan þegar hann sagði að það mætti vel hugsa sér að staðsetja slíka skóla víðar. Ég held að það sé staðreyndin að við fengjum miklu fleiri nemendur í þessa skóla ef þeir væru staðsettir víðar og það sé fjarlægðin og erfiðleikarnir við að koma sér til náms á fjarlægum stöðum sem veldur því að oft getur verið erfitt að fá æskulýðinn til að sækja slíka skóla. Þótt skóli af þessu tagi, sem staðsettur væri á Siglufirði, byði kannske ekki upp á jafnalhliða menntun og fjölbreytta og Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði efast ég ekki um að hægt væri að byggja þar upp námsbrautir sem væru nægilega vel sóttar til þess að hægt væri að halda þeim uppi. Ég vek á því athygli að Bændaskólinn að Hólum var að falli kominn og starfsemin þar. Það voru ekki nema örfáir menn sem sóttu hann, en hann var endurskipulagður og komið þar upp skynsamlegum námsbrautum og síðan hefur allt gengið vel.

Ég efast ekkert um að það verður hægt að fá ungt fólk hér á landi til að sækja fiskvinnsluskóla ef rétt er að því staðið, en til þess þarf, held ég, að dreifa þeim eitthvað meira. Ég held að það sé ekki rétt stefna að hafa aðeins einn slíkan skóla hér á landinu.

Ég held að það sé höfuðatriði í þessu máli að efla menntun í sjávarútvegsfræðum. Það er, held ég, meginatriðið og þegar að því kemur að annar slíkur skóli verði stofnaður hér á landi hlýtur að verða tekið nokkurt tillit til þess að aðstæður á Siglufirði eru á margan hátt prýðilegar. Það er boðin þar fram húsnæðisaðstaða, sem er lítið nýtt sem stendur en gæti einmitt hentað ágætlega fyrir heimavist í þessu sambandi, og þar eru aðstæður á sviði sjávarútvegsins á margan hátt mjög heppilegar sem undirstaða menntunar og kennslu. Ég held sem sagt að þegar röðin kemur að því að tekin verði ákvörðun um nýjan fiskvinnsluskóla hér á landi hljóti að verða hafðar í huga bæði þær aðstæður sem ég hef nefnt og svo hitt, að Alþingi hefur beinlínis samþykkt, þótt allmörg ár séu nú liðin, að hefja undirbúning að því að setja á stofn fiskvinnsluskóla í Siglufirði.

Ég held að sú stefna, sem hæstv. ráðh. lýsti í þessu máli, að fengnir yrðu þrír menn til verksins, þ. e. einn frá menntmrn.. annar frá bæjarstjórn Siglufjarðar og sá þriðji frá Fiskifélagi Íslands, til að undirbúa þetta mál frekar, sé eðlileg og rétt stefna og ég vænti þess mjög fastlega að í framhaldi af því sem fram kom áðan í svari ráðh. verði þessu máli fylgt eftir og því hrundið í framkvæmd hið allra fyrsta.