11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6290 í B-deild Alþingistíðinda. (5722)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það hefur verið vikið að því áður í þessari umr. að senn er kominn miður júní og enn eru menn á Alþingi að ræða um lánsfjárlög fyrir árið 1985. Lánsfjárlög eru ein aðalstýring í fjármálum ríkisins. Það er stórkostlegt skipbrot fyrir ríkisstj., sem ætlaði að byggja upp andrúmsloft festu og trausts og ætlaði að leggja línur fyrir fólk og fyrirtæki til langs tíma þannig að hægt væri að stefna að arðsemi og traustum rekstri, að hafa staðið þannig að málum að það er liðið hálft það fjárlagaár sem um er að ræða þegar lánsfjárlög munu loksins skreiðast út úr þinginu ef að líkum lætur.

Slík seinkun veldur ótrúlegum erfiðleikum, ekki bara í opinberum rekstri heldur í rekstri fjölda fyrirtækja í landinu sem illu heilli eru afar háð framlögum frá ríkinu af ýmsu tagi. Sjóðir hafa átt í erfiðleikum með að leggja sínar línur og þar af leiðandi hafa bæði fólk og fyrirtæki orðið fyrir margvíslegum búsifjum vegna þessa sleifarlags ríkisstj. Það hefur leitt til ýmiss konar kostnaðar, vanskila fjármagnskostnaðar af ýmsu tagi og ótaldrar angistar sem sleifarlag af þessu tagi hlýtur óumflýjanlega að leiða til. Því er það að mínu mati stórkostlegt pólitískt hneyksli að svo skuli vera komið.

Það ætti að vera mikið athugunarefni fyrir þá sem standa að ríkisstj. hvort vinnubrögð þeirra, samlyndi eða einhverjir aðrir þættir valdi hér um. Ríkisstj. sem ekki getur nokkurn veginn búið svo um hnútana að svona lagað komi ekki fyrir aftur hlýtur að verða að gera upp við sig hvort hún eigi að stjórna annað ár í viðbót. Þetta eru ekki þau föstu tök í efnahagslífi, þetta eru ekki þau föstu tök á vinnuháttum stjórnarráðs sem verður að krefjast af þeim sem með völdin fara. Þetta veldur slíkri óvissu og þetta veldur slíkri lausung í allri starfsemi ríkisins að það má ekki gerast. Það er algerlega óviðunandi að menn yppti yfir þessu öxlum og segi sem svo að þetta sé vegna þess að gengið hafi illa að koma málinu í gegn í viðkomandi þingflokkum. Það er ekki nokkur afsökun. Ef menn koma sér saman um að standa að ríkisstjórn eru þeir um leið að lofa sambúð og vinnubrögðum sem tryggir að slíkt gerist ekki. Þeir sem ekki geta gert betur eiga ekkert erindi í ríkisstjórn. Málið er svo einfalt. Þeir sem eru að lufsast með lánsfjárlög fram á mitt sumar eiga ekkert erindi í ríkisstjórn. Sá er lærdómurinn sem ríkisstj. á af þessu að draga.

Fyrir utan þessi almennu verklagsatriði, þ. e. ábyrgð þess sem þannig stendur að málum, er hér á ferðinni stórpólitískt mál. Þetta ætti að vera eitthvert mesta áherslumál og mesta umhyggjumál sérhvers fjmrh. Þess vegna er algjörlega óviðunandi að hann hlaupist á brott af landinu. Þetta mál er fylgiböggull fjárlaga, sem menn telja skyldu sína að afgreiða fyrir áramót, og auðvitað á að afgreiða það fyrir áramót og ef það tekst ekki, þá svo snarlega sem hægt er eftir áramót. Hér er tekist á um og hér er rætt um mjög mikilvæg atriði. Hér er t. d. rætt um það sem er kannske eitt af stærstu umræðuefnunum í pólitík í dag, en það eru erlendar skuldir. Það er algjörlega óviðunandi að ráðh. sem um þetta mál fjallar, sá ráðh. sem ber á þessu ábyrgð og sá ráðh. sem hefur útbúið þetta mál í hendur á Alþingi sé ekki viðstaddur.

Ég ætla ekki að rekja efnislega atriði þessa máls vegna þess að þau hafa löngu komið fram. En skömm þeirra sem að þessu standa er stór og þeim ber skylda til að nota nú kvarnirnar og reyna að draga þann lærdóm sem hægt er að draga af svona vinnubrögðum. Þeir eiga að gera upp við sig hvort þjóðin hefur efni á því að setja þá á öllu lengur.