12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6368 í B-deild Alþingistíðinda. (5763)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 4. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það eru ýmis atriði úr ræðu hæstv. menntmrh. sem mig langar að víkja að, en sá er hængur á að kl. 17.15 hefur forseti Sþ. boðað þingflokksmenn og forseta til fundar um skipulag þinghaldsins í dag og geri ég ráð fyrir að forseti muni þá fresta fundi hér um skamma hríð. Mitt mál verður ekki langt nú, en þó treysti ég mér ekki til að ljúka því á þremur mínútum.

Hæstv. ráðh. sagði að frv. það sem hér væri um að ræða væri málamiðlunarfrv. sem lengi hefði verið fjallað um og sem flestir ættu að geta sameinast um. Þetta er rangt, hæstv. ráðherra. Þegar þetta frv. var borið undir atkv. í Nd. voru það bara 16 af 39 þm. í hv. Nd. sem treystu sér til að greiða atkv. með málinu. Það get ég ekki kallað málamiðlunarfrv. Það eru tólf þm. á móti því og ellefu þm. velja þann kostinn að sitja hjá. Þess vegna er alveg útilokað að segja að þetta sé málamiðlunarfrv.

Ég hafði líka uppi þau orð að þetta frv. væri klastur. Með því er ekkert verið að segja um þá nefnd sem samdi fyrir þremur árum upphaflega útvarpslagafrv. Það er allt annað frv. sem liggur nú fyrir. Það er heldur ekkert verið að segja um lögfræðinga menntmrn., ekki nokkurn skapaðan hlut. Það eru hv. þm. í Nd. sem bera ábyrgð á því hvernig þetta frv. lítur út núna.

Hæstv. menntmrh. minntist á ábendingar útvarpsráðs. Ég taldi ekki viðeigandi, þó að ég eigi sæti í útvarpsráði, að ég væri að fjalla um frv. til útvarpslaga þar. Minn vettvangur til þess að fjalla um það mál er hér á hinu háa Alþingi. Ég kom ekki nálægt umfjöllun málsins í útvarpsráði. Minn varamaður mætti stundum á þeim fundum, en álitsgerð eða sérálit frá mér var þar ekki.

Síðan ræddum við hér um eignarhald á boðveitum. Ég verð að segja alveg hreint eins og er að mér kemur afskaplega mikið á óvart og spánskt fyrir sjónir afstaða talsmanna Sjálfstfl., þ. á m. hæstv. samgrh. sem því miður er ekki á þinginu í dag. Mér var sagt að hann hefði farið til útlanda í morgun. Hann hlýtur að hafa átt þangað mjög brýn erindi að þurfa að víkja af þingi síðustu daga þess. Ég dreg ekkert úr því og geri ekkert lítið úr því að ráðh. hafi átt brýn erindi til útlanda og þurft að fara. Það hlýtur að vera svo, þegar menn víkja af þingi síðustu daga þess, að það sé eitthvað mjög brýnt sem kallar á og skal ég svo sem ekki gera neinar aths. við það. Ráðherrar hafa sínum embættisskyldum að gegna, en það hljóta að hafa verið einhver afar aðkallandi verkefni sem kölluðu hæstv. samgrh. burt úr þinginu núna. (Forseti: Má ég biðja hv. ræðumann að gera hlé á máli sínu.) Já, að sjálfsögðu. (Forseti: Ég hafði upphaflega frekar reiknað með því að hafa fund hér í kvöld. En það hefur ekki náðst fyllilega um það samkomulag. Þess vegna hefur verið boðað til fundar núna með forseta Sþ. og þingflokksformönnum til að ræða framhald þinghaldsins í dag og mun ég því fresta fundi núna í 15 mínútur, til hálfsex.) –[Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni, sem ég sífellt þarf að gera hlé á ýmissa orsaka vegna, að ég var að ræða um boðveitukerfin og eignarhald á þeim og lýsa furðu minni á þeirri skoðun helstu forvígismanna Sjálfstfl. að boðveitukerfin eigi að einhverju leyti að vera í eigu Pósts og síma. Ég hafði áður á það bent að það gengur þvert á samþykkt síðasta landsfundar Sjálfstfl. og er furðulegt að heyra talsmenn flokksins halda fram skoðunum sem ganga þvert á landsfundarsamþykkt. Það er a. m. k. næsta óeðlilegt og ég harma það mjög að hæstv. samgrh. skuli í krafti síns embættis hafa þurft að halda til annarra landa og ekki vera hér því að ég hefði gjarnan viljað fá álit hans á þessu og ég áskil mér rétt til að fá það álit hans við 3. umr. málsins.

Í öðru lagi er talað um nefnd til að endurskoða ákvæði fjarskiptalaga. Að vísu fullyrti hæstv. menntmrh. ekki að búið væri að skipa slíka nefnd, en á henni var að skilja að hún vissi ekki betur en slík nefnd hefði verið skipuð. Ég hef kannað þetta mál í samgrn. og þar hefur mér ekki tekist að fá staðfestingu á því að slík nefnd hafi verið skipuð eða hafi hafið störf. Ég leyfi mér því að draga það í efa að slík nefnd hafi verið skipuð. Ég skal þó ekkert fullyrða. Mér tókst ekki að ná í ráðuneytisstjórann. Ráðh. fór til úflanda í morgun, ráðuneytisstjórinn er í sumarfríi og sá fulltrúi í rn. sem mest hefur með þessi mál að gera var á samningafundi, en í samgrn. kannast menn ekki við að slík nefnd hafi verið skipuð. Þó má það vel vera og kemur það væntanlega í ljós. Ég skal ekki heldur fullyrða neitt í þessu efni, til þess hef ég einfaldlega ekki nógu traustar upplýsingar, en ég hef efasemdir um það að þessi nefnd sé komin á laggirnar.

Ég lofaðist til þess að tala hér ekki lengi og ég skal standa við það. Ég spurði hæstv. menntmrh. um það ákvæði 7. tölul. 3. gr. að þeir aðilar aðrir en þeir sem leyfi hafa fengið til útvarpsrekstrar megi ekki kosta almenna dagskrárgerð og þó gildi það ekki um einstaka dagskrárliði. Ég er búinn að segja það hér áður að mér finnst þetta ákvæði merkingarlaust. Ég hef flutt brtt. við það til að koma merkingu í það. En ég verð að segja það alveg eins og er að eftir að hæstv. menntmrh. gerði tilraun til að skýra þetta ákvæði áðan skil ég enn þá minna, þá er mér enn þá síður ljóst hvað felst í ákvæðinu. Með leyfi forseta ætla ég — ég hef fengið útskrift af því sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan að lesa hér orð ráðh.:

„Það sem hv. þm. skildi ekki var þetta, að aðrir aðilar en sá sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar kosti almenna dagskrárgerð. Ég skal skýra þetta fyrir hv. þm. Þetta er einfaldlega það, að þeir sem leyfi fá til útvarpsrekstrar kosti sjálfir dagskrárgerðina í stöðinni. Ef það væri við skulum segja Jón Jónsson sem sækti um leyfi til útvarpsrekstrar, en svo væri það bara Sigurður Sigurðsson og Jóna Jónsdóttir kona hans sem sæju um alla dagskrá stöðvarinnar, þá er verið að sækja um leyfið á fölskum forsendum.“

Þetta skil ég. Sem sagt: ef aðili B sækir um leyfi til útvarpsrekstrar, en aðili A tekur að sér reksturinn á stöðinni. En ég hef hugboð um að það sé ekki hægt að skilja þessa grein með þessum hætti. Ég fæ ekki séð hvernig menn geta tengt saman þennan skilning hæstv. ráðh. og það sem stendur í greininni. Lög eiga að vera skýr. Það er engin leið að skilja 7. tölul. 3. gr. með þessum hætti. Það er ekki heldur neinn vegur að skilja hann yfirleitt eins og nú er og ég segi það aftur og enn: þessum lið verður að breyta. Hann er óskiljanlegur eins og hann er. Hann þýðir ekki þetta skv. orðanna hljóðan í frv. eins og það nú liggur fyrir.

Ég hef fengið allt aðrar skýringar hjá þeim sem sátu í menntmn. Nd. á hvað þetta þýðir og það var raunar til að koma þeim skýringum, a. m. k. sumum hverjum, í orð sem ég flyt mína brtt.

Herra forseti. Það er nýlunda að menn sitji að snæðingi inni í hv. þd. (ÁJ: Hver situr að snæðingi?) Ég sé hvar hv. þm. hefur verið að dreifa sölvum sem eru sjálfsagt hinn ágætasti matur en á ekki heima inni í hv. þd., leyfi ég mér að segja. Það er a. m. k. nýlunda sem ekki hefur borið við áður. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (Forseti: Í þingsköpum eru engin ákvæði varðandi neyslu eins og annars, hvorki vökva né fastrar fæðu, þannig að ég sé mér ekki fært að skipta mér af slíku fyrr en það gengur út yfir almennt velsæmi.) Það verður hver að hafa sína siði — og borðsiði þá líklega líka.

Það er enginn vegur að skilja þessa grein þeim skilningi sem hæstv. menntmrh. vildi vera láta í sínum skýringum áðan. Þegar ég leitaði skýringa á þessari grein var svo að skilja að þarna væri verið að setja undir þann leka að ekki væri leyfilegt að sýna t. d. kvikmyndir sem aðrir aðilar hefðu kostað.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það afskaplega óviðkunnanlegt að menn skuli sitja að snæðingi í hv. þd. þegar verið er að flytja ræður. Það er nýmæli. Þó ekki standi neitt um það í þingsköpum finnst mér það ganga þvert á góða reglu í þd. Það verður að segjast alveg eins og er. (Forseti: Hv. 5. landsk. þm. Í tilefni þessara orða verð ég að taka undir það að mér finnst þetta heldur ekki mjög smekklegt, en það er staðreynd að menn bryðja hér eitt eða annað, hálspillur og hvaðeina, til að viðhalda rödd og glöðu geði, þannig að þó að þessi óvanalega fæða sé komin á borð held ég að ég geti ekki aðhafst neitt í því máli.) Ef hv. þm. sem hér á í hlut telur það nauðsynlegt geðheilsu sinni að sitja hér að snæðingi skal ég svo sem ekki gera neinar sérstakar frekari athugasemdir við það, en mér finnst þetta nýmæli sem ekki sé nein ástæða til að endurtaka hér í Ed.

Herra forseti. Ég hef talað viðlíka lengi og ég sagði hæstv. menntmrh. að ég mundi tala hér. Ég hef ítarlega lýst efasemdum mínum um þetta frv. Ég hef bent á fáein þau atriði sem breyta þarf. Ég hef líka sagt að á frv. séu þeir annmarkar að ekki sé hægt að samþykkja það óbreytt og hef þess vegna flutt brtt. Mér finnst eiginlega liggja við sómi deildarinnar að frv. verði ekki látið fara héðan með þeim alvarlegu annmörkum sem á því eru.

Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan um þá athugasemd sem ég gerði varðandi gildistíma og kosningu nefndar að stundum væru ákvæðin um gildistöku sett inn í seinna um annan tíma. Það er sjálfsagt alveg rétt, en það breytir ekki því að ákvæðin geta ekki staðið eins og þau standa í frv. eins og það kemur til okkar eftir 3. umr. frá Nd. Það gengur einfaldlega í bága við skynsemi og skilning flestra manna, held ég, ef Alþingi lætur frá sér fara lög með þeim hætti sem frv. nú er.