13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6469 í B-deild Alþingistíðinda. (5869)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Frsm. minni hl. (Páll Dagbjartsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. allshn., en að því standa Páll Dagbjartsson og Stefán Guðmundsson. Þetta er skráð á þskj. 1213. Nál. er svohljóðandi.

„Nefndin tók þetta mál fyrst á dagskrá 22. maí, en frv. var þó ekki rætt þá. Þann 29. maí komu fulltrúar frá ÍSÍ á fund n., þeir Sveinn Björnsson, Valdimar Örnólfsson og Jón Ármann Héðinsson. Háskólarektor, Guðmundur Magnússon, kom einnig á þennan fund, svo og fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands, þeir Oddur Ólafsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Við endurskoðun laga um getraunir árið 1972 var komið inn í 2. gr. laganna viðbótarákvæði um talnagetraunir. Þar segir m. a. að með getraunum sé átt við að „á þar til gerða miða - getraunaseðla, sem félagið eitt (þ. e. Íslenskar getraunir) hefur rétt til þess að gefa út og selja, eru merkt úrslit kappleikja (íþróttagetraunir) eða skráð niðurröðun ákveðins fjölda talna (talnagetraunir).“

Í nágrannalöndum hefur þetta getraunaform hlotið nafnið Lottó.

Í nokkur ár hefur þetta kerfi verið til ítarlegrar athugunar hjá íþróttahreyfingunni og með bréfi dags. 21. okt. 1983 til dómsmrn. er skýrt frá því að Íslenskar getraunir hafi ákveðið að hefja starfrækslu talnagetrauna skv. ákvæði í 2. gr. laga um getraunir, nr. 50 frá 29. maí 1972. Síðan þetta bréf var ritað hafa fulltrúar frá ÍSÍ kynnt sér þessa starfsemi í Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi og víðar. Íþróttahreyfingin hefur nú tryggt sér tækjabúnað til þessarar starfsemi og áætlað er að starfsemin geti hafist síðar á þessu ári.

Stefnt er að því að rekstur íþróttahreyfingarinnar muni á þessu ári kosta um 250 millj. kr. Íþróttahreyfingin hefur hingað til fjármagnað sína starfsemi að mestu með eigin fjáröflun og sjálfboðavinnu og verður að telja ákjósanlegt að slíkt geti haldið áfram.

Þetta frv., ef samþykkt verður, getur haft veruleg áhrif á fjáröflunarmöguleika íþróttahreyfingarinnar og annarra sem hafa tekjur af rekstri happaspila. Það er álit minni hl. n. að mál þetta þarfnist frekari athugunar og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Eins og hér kemur fram voru uppi efasemdir í nefndinni um hvort það ætti að gefa frjálsa alla starfsemi til reksturs peningahappdrætta. Ef þetta frv. verður samþykkt er í raun búið að brjóta ísinn hvað það varðar að ýmis félagasamtök geta komið á eftir og óskað eftir sams konar leyfi og hér er farið fram á. Auðvitað er þörfin brýn hjá Öryrkjabandalagi Íslands til að fjármagna húsnæði fyrir sína umbjóðendur og ýmis önnur verkefni. Það er okkur fyllilega ljóst. Hins vegar viljum við vekja athygli á því, eins og fram kemur í nál., að íþróttahreyfingin hefur á undanförnum árum unnið ómetanlegt starf í fyrirbyggjandi aðgerðum fyrir æsku þessa lands. Það ber að hafa í huga þegar menn taka um það ákvörðun hvort þetta mál verður stutt eður ei.

Það liggur fyrir að margir fleiri aðilar mundu óska eftir slíku leyfi. Það kom fram í máli háskólarektors, Guðmundar Magnússonar, er hann kom á fund nefndarinnar, að Happdrætti Háskólans hefur haft til athugunar að fara út í rekstur á svona lottói. Það gæti verið sama að segja um Rauða kross Íslands eða Slysavarnafélagið. Svona væri hægt að telja upp fleiri félög sem öll þurfa á peningum að halda til sinnar starfsemi.

Það má svo að lokum benda á það líka og ítreka að það er þegar búið að gefa íþróttahreyfingunni einkaleyfi á að reka slíkt happdrætti sem þetta og er að áliti margra ekki mikill munur á því hvort um er að ræða tölustafi eða bókstafi með orðum, táknum. Þetta er spurningin um hvort þarna er um verulegan mismun að ræða.

Ég held að komið hafi fram hjá mér þau atriði sem urðu til þess að við treystum okkur ekki til að svo komnu máli að styðja þetta frv. og töldum að það þyrfti frekari skoðun. Tími var ákaflega naumur og það hefði þurft að senda það út til umsagnar f. d. til hinna ýmsu svæðisstjórna út um allt land.