14.06.1985
Efri deild: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6566 í B-deild Alþingistíðinda. (5919)

532. mál, útvarpslög

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Það er vissulega full ástæða til þess að halda uppi umræðu um stjórnskipan og stjórnkerfi íslenska ríkisins eins og hv. 8. þm. Reykv. sagði. Ég held að ekkert hafi skort á það fyrir seinustu kosningar að þau mál hafi verið rædd. Þau komu upp á fjölmörgum fundum, enda var þá Bandalag jafnaðarmanna að kynna þær hugmyndir sínar, sem ekki hlutu mikinn hljómgrunn, enda næsta óskiljanlegt hvernig þeim dettur í hug að afnema þingræðisskipan sem hér hefur verið um alllangt skeið og tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar nema Bandaríkjum Norður-Ameríku og Frakklandi.

Í Frakklandi er málum þannig komið að menn hafa miklar áhyggjur af þeirri stjórnarskrá sem þar er í gildi enda var hún samin við alveg sérstakar aðstæður og nánast handa einum manni. Það liggur nefnilega fyrir að þar geti farið eins og hefur gerst í Bandaríkjum Norður-Ameríku að framkvæmdavaldið styðjist ekki við þingmeirihluta og þá er kominn upp vandi. Það vandamál hafa Bandaríkin leyst m. a. með mjög sterkum hagsmunasamtökum, einmitt því sem hv. 8. þm. Reykv. telur af hinu illa og sé eitt af því sem valdi miklum glundroða og sé til mikils skaða í íslenska stjórnkerfinu og íslensku þjóðfélagi.

Fulltrúaþingin voru ekki eitthvað út í bláinn. Fulltrúaþingin voru til komin vegna þess að ekki var lengur hægt að stjórna eftir þeirri fornu skipan að ákveðnar stéttir réðu, að konungsvald og framkvæmdavald væri allsráðandi og löggjafarvaldið, þ. e. fjárveitingavaldið væri í höndum stéttanna. Fulltrúaþingin voru hin mikla framför frá stéttaþingunum. Fulltrúaþingin voru svar hinna nýju ríkja, iðnríkja, þar sem mannfjölgun var mikil, þar sem taka þurfti tillit til fjölmargra aðstæðna í þjóðfélaginu, þar sem sjálf samfélagsgerðin krafðist þessa kerfis og svo er það enn í dag.

Lýðræði og þingræði þarf ekki endilega að fara saman. En þingræðið er að mínu mati mjög veigamikill þáttur lýðræðisins því að lýðræðisskipanin er ekki einungis í því fólgin að meiri hlutinn ráði, heldur að sinnt sé þörfum og vilja og óskum hinna mörgu minni hluta sem byggja upp nútíma samfélag. Það er því næsta furðulegt að leggjast gegn því að Alþingi kjósi stjórnir og ráð ýmissa ríkisstofnana, þar sem þau ráð og þær stjórnir eru í fyrsta lagi spegilmynd af vilja þeirra mörgu minni hluta sem skipa þingið og í öðru lagi eru þessar nefndir og þessi ráð á ábyrgð þingsins og þingið getur vikið þeim frá eftir vild. Að færa slíkt yfir á ráðherra einan, að hann sé hinn eini aðili sem fólkið í landinu gefi snúið sér beint til og hann beri ábyrgð gagnvart fólkinu, er ekki rétt því það er gagnvart Alþingi sem ráðherra ber ábyrgð og það er einungis Alþingi, sá sami aðili sem skipar og setur af nefndir og ráð ríkisstofnana, sem einnig samþykkir og setur af ráðherra. Ég held að þau rök að skilja að framkvæmdavald og ríkisvald geti ekki talist jákvæð í nútíma samfélagi, heldur bjóði það miklu fremur upp á óþarfa átök, hagsmunabaráttu, lobbyisma, sem ekki hefur orðið til þess að styrkja það lýðræði sem fulltrúalýðræðið vissulega gerir.