14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6610 í B-deild Alþingistíðinda. (5943)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til rökstuddrar dagskrár í þessu máli, frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með eftirfarandi rökum:

Þar sem

— frv. þetta er að meiri hluta til samið af alþm. sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af lögfestingu þess,

— það hefur ekki fengið þinglega meðferð, er m. a. órætt í landbn. og fékkst ekki sent til umsagnar aðila sem geta beðið alvarlegt fjárhagslegt tjón af lögfestingu þess,

— byggir ekki á neinni fræðilegri könnun á fjárhagslegum áhrifum þess á kjör bænda, neytenda, skattgreiðenda, ríkissjóðs né þjóðarbús,

— byggir á úreltum stjórnsýsluhugmyndum frá 18. öld um ríkisforsjá, einokunarverðmyndun, miðstýringu, valdboð og þvinganir sem ganga í berhögg við stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi,

— lokar síðustu smugum sem eftir eru fyrir frjálsa menn við landbúnaðarstörf og gerir þá að þrælum Framleiðsluráðs og ráðuneytis,

— útilokar samkeppni framleiðenda um verð og gæði og afnemur þar með alla hvatningu til að halda tilkostnaði í skefjum og lækka verð og stuðlar þannig að rekstrarlegu ábyrgðarleysi og offjárfestingu vinnslu- og dreifingaraðila,

— felur í sér hóflausa skattlagningu á búgreinar, sem miðstjórnarkerfinu eru vanþóknanlegar, og mismunar þannig einstaklingum fyrir lögum.

— tryggir bændum ekki staðgreiðslu afurða sinna, en mun að öllum líkindum hækka verulega allan tilkostnað við framleiðslu, vinnslu og dreifingu landbúnaðarafurða og þar með „útflutningsbótaþörf“ á næstu árum,

— slær á frest löngu tímabærum uppskurði á úreltu, rándýru, óhagkvæmu og ranglátu ofstjórnar- og milliliðakerfi í landbúnaði sem hefur neytendur jafnt sem bændur að féþúfu,

—mun kosta þjóðina að óþörfu marga milljarða kr. á ári hverju verði það að lögum, legg ég til að Alþingi vísi þessu máli frá, enda tel ég það vera Alþingi til vansa, bændum, neytendum, skattgreiðendum, ríkissjóði og þjóðarbúinu til skaða og legg til að Alþingi taki fyrir næsta mál á dagskrá.