14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6626 í B-deild Alþingistíðinda. (5951)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir ítarlega framsögu í þessu máli af hálfu meiri hl. n.

Ríkisstj. setti sér það markmið að endurskoða framleiðsluráðslögin og niðurstaðan er frv. sem hér liggur fyrir. Í því er m. a. kveðið á um staðgreiðslu og um beina samninga við bændur og því hafa stéttarsamtökin óskað eftir sérstökum lögum um beina samninga. Undirbúningur þessa máls tók langan tíma allt of langan, og fór raunar fram um of fyrir luktum dyrum og kom of seint fram á þessu þingi. Það var til of mikils mælst að ætlast til þess að frv. yrði í engu breytt, það væri svo fullkomið eins og sumir héldu fram. Þótt margt sé gott í þessu frv. þurfti breytingar og sumt af því hefur náðst fram. Árangur þess samkomulags sem hefur náðst liggur hér fyrir. Hann hefði mátt vera betri, en ég stend að því samkomulagi.

Það var útilokað að útflutningsuppbótum væri lokið 1990 eins og frv. kvað á um. Raunar get ég tekið undir að það er um of mikla lækkun að ræða á útflutningsuppbótum á svo stuttum tíma. Það sem sparast í útflutningsuppbótum á að renna til landbúnaðarins að öðru leyti. Það þarf að standa. Fyrir nokkrum árum var svo kveðið á um í jarðræktarlögum að sparnaðarfé vegna skerðingar á framlögum ætti að renna til landbúnaðarins með öðrum hætti. Þrjár, fjórar ríkisstjórnir hafa ekki staðið við þau fyrirheit. Það má ekki henda þessa ríkisstj. og næstu ríkisstjórnir að standa ekki við þau fyrirheit sem er kveðið á um í þessu frv., að það fé sem sparast í útflutningsuppbótum fari til landbúnaðarins að öðru leyti.

Niðurgreiðslur hafa farið hraðminnkandi á undanförnum þrem árum. Þær voru um 1800 millj., en eru nú komnar ofan í 700. Áróðurinn gegn landbúnaðinum hefur haft áhrif á ríkisstjórnir á þessum tíma að draga úr niðurgreiðslum. Þær mega ekki minnka frá því sem nú er. Frekar þyrfti að auka niðurgreiðslustigið á nýjan leik. Ég vænti þess að þessi ríkisstj. og næstu ríkisstjórnir bregðist ekki í þeim efnum. Ef útflutningsuppbæturnar eiga senn að hverfa og niðurgreiðslurnar líka á sama tíma, þá verður illa komið eftir stuttan tíma í hefðbundnum landbúnaði. Vonandi kemur ekki til þess.

Þá hefur tekist í brtt. að takmarka heimildir til bygginga afurðastöðva frá því sem kveðið var á um í upphaflegu frv., en það er ekki til góðs að stórauka þær á sama tíma og verulega er að draga úr framleiðslunni. Raunar hefur frelsi í þessum efnum verið of mikið og við sjáum þess mörg dæmi að það hefur verið byggt allt of stórt til stórtjóns fyrir neytendur og framleiðendur þar sem kostnaði við byggingu vinnslustöðva hefur verið um of á þá velt. Við höfum dæmi fyrir okkur hér uppi á Bitruhálsi þar sem byggt var allt of stórt. Eðlilegt var að byggja þar dreifingarstöð, en alls ekki nýja mjólkurstöð. Hana vantaði ekki.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson vakti athygli landbrh. á því að grænmeti hefði verið flutt til landsins í vor eftir að fá mátti íslenskt grænmeti. Það er meginmál að landbrn. sjái svo um að innflutningur fari ekki þannig fram að hann verði til tjóns íslenskri framleiðslu. Í þessu sambandi vil ég varpa fram til hæstv. ráðh. þeirri spurningu hvort ekki sé hægt í kartöflumálum að gera nokkra bragarbót.

Svo sem kunnugt er klúðraði „Grænmetið“ með innflutningi á finnskum kartöflum málum til stjórtjóns fyrir framleiðendur og neytendur. Síðan hafa sölumál þeirra verið í ólestri. Þeir sem fyrst og fremst lifa af og starfa við kartöfluframleiðslu hafa borið skarðan hlut frá borði í sölu sinna afurða, en ýmsir aðrir komið sínum varningi um of á framfæri. Það hlýtur að vera hægt að fullnægja og framfylgja því að ómetnar kartöflur séu fjarlægðar úr búðum ekki síður en þar má ekki selja óstimplað kjöt. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. framfylgi lögum um þetta efni, en að sjálfsögðu tek ég svo undir með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að kartöfluframleiðendur þurfa að mynda með sér samtök og tryggja sína afkomu með því að standa saman um þessi mál.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Hvernig tekst til um framgang°þessa frv. fer fyrst og fremst eftir framkvæmdinni, hvernig tekst að útvega það fjármagn sem þar er kveðið á um. Þess er að vænta að ríkisstj. og öðrum takist að standa við þau fyrirheit laganna.