14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6633 í B-deild Alþingistíðinda. (5963)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég veit ekki hversu hægt og rólega ég á að fara yfir þetta með fyrrv. kennara, hv. þm. Halldóri Blöndal, til að hann skilji að ef þessi grein verður uppbyggð eins og brtt. meiri hl. gera ráð fyrir mundi t. d. samlestur á 1. mgr. og stafliðunum hljóma svo: Til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara er landbrh.: Að semja, að ákveða, að, að, að. Þarna fellur út það orð sem áður var fyrirhugað að hafa við, þ. e. „heimilt að gera eftirtaldar ráðstafanir“. Þannig er uppbygging þessarar greinar rökrétt. Hún er það ekki eins og hér á að standa. Ég sé mér ekki annað fært, og skal ekki hafa þau orð fleiri. en að ítreka ósk mína um nafnakall við 1. staflið 30. gr., þ. e. a-lið, og ég legg til að menn felli þá till. þannig að 1. mgr. standi óbreytt eins og hún var í upphaflegri gerð frv. Þannig er 30. gr. merkingarlega rökrétt, herra forseti. (Forseti: Ég mundi vilja fara fram á það við tillögumenn að þessi till. yrði tekin aftur til 3. umr. og fá tækifæri til að leiðrétta og lesa þetta í rólegheitum yfir.) (HBl: Það er sjálfsagt að draga till. aftur til 3. umr. og fara yfir hana með þm.) (Forseti: Já, við förum yfir þetta á milli umræðna og ef þarna er um að ræða einhverja skekkju er sjálfsagt að leiðrétta það. Ég held að meiningarmunurinn þurfi ekki að vera neinn í þessu í sjálfu sér, ekki efnismunur.)