14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6651 í B-deild Alþingistíðinda. (5983)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það má um þetta mál tala lengi, en ég veit svo sem ekki hverjum tilgangi það þjónar að teygja lopann mjög lengi hér á kvöldfundi. Ég mun þess vegna heldur stytta mál mitt.

Þetta frv., sem nú er komið til okkar eftir umfjöllun í Nd., er mikið að vöxtum og ekki einfalt mál fyrir þá sem ekki eru innvígðir í alla leyndardóma landbúnaðarkerfisins að setja sig inn í þá í snarheitum. Framtakssemi hv. 11. landsk. þm., sem er formaður í landbn. hv. Ed., var slík að byrjað var að ræða þetta lítillega í landbn. og voru engar athugasemdir gerðar við það þó málið væri ekki komið til nefndar með formlegum hætti. Bjarni Guðmundsson aðstoðarmaður landbrh. kom á fund hjá landbn. og skýrði megindrætti frv. og fór yfir þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir.

Það er öllum ljóst að það kerfi sem unnið er eftir í landbúnaðinum er meingallað á margan hátt og því þarf að breyta. Það hefur komið býsna skýrt í ljós á mjög mörgum sviðum. Meðal bænda er megn óánægja með kerfið. Hún er meðal neytenda líka. Óánægja bænda hefur m. a. verið að brjótast fram í stofnun sérgreinasambanda, sauðfjárbænda, kúabænda o. s. frv., þannig að það eru verulegar líkur á að skipulag bændasamtakanna sé kannske ekki að riðlast - ég vil ekki nota það orð — en a. m. k. að breytast, það er alveg ljóst.

Það hafa verið miklar deilur um skipulag í landbúnaðarmálum, ádeilur á þetta kerfi, og hefur þar margt verið til nefnt. Við Alþfl.-menn höfum í áratugi, er mér óhætt að segja, þeir Alþfl.-menn meðtaldir sem sátu á þingi á undan okkur sem nú erum hér, bent á hversu bjagað þetta kerfi væri að ýmsu leyti. Það var fyrir margt löngu að dr. Gylfi Gíslason benti á að það yrði að takmarka búvöruframleiðsluna, ekki væri hægt að halda áfram þessari óheftu framleiðslustefnu. Hann benti á þetta og studdi þessa sína ábendingu gildum rökum. Hvernig var brugðist við? Jú, allt hét þetta fjandskapur við bændur.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í stjórnmálum minnist ég framboðsfundar sem haldinn var að Logalandi í Borgarfirði, það er heldur óskemmtileg mynd í minningunni, þar sem ég gerði grein fyrir gagnrýni á stefnuna í landbúnaði. Því var mætt með hrópum, frammíköllum, stappi. Þetta var skipulagt af pólitískum andstæðingum. Ég man að Guðmundur heitinn Hagalín rithöfundur var á þessum fundi og tók þannig til orða eftir fundinn að sárt væri til þess að vita ef það væri blómi borgfirskrar bændamenningar sem þannig hefði svarað gagnrýni. En það var auðvitað ekki.

En allri gagnrýni okkar á þetta kerfi hefur verið svarað þannig: Alþfl, fjandskapast við bændur. — Það er auðvitað reginmisskilningur. Þetta kerfi hefur komið illa við bændur og komið betur og betur í ljós með hverju árinu hve illa þetta kerfi kemur við bændastéttina. Ég hygg t. d. að það sé alveg staðreynd, þó að ég hafi ekki aðgang að slíkum upplýsingum, að fjárhagsstaða bænda sé lakari nú en kannske nokkurn tíma áður, skuldir þeirra við lánastofnanir, reikningsstaða þeirra við kaupfélögin. Ég held að þetta sé lakara en áður. En á sama tíma og hagur bænda hefur hríðversnað er eins og milliliðafyrirtækin, vinnslustöðvarnar, blómstri betur en nokkru sinni fyrr. Sjáum Mjólkursamsöluna í Reykjavík sem er að byggja stórhýsi fyrir mörg hundruð milljónir króna og hefur ekkert fé tekið að láni — eða hafði ekki síðast þegar ég vissi. Hér við Hótel Sögu, eign bændasamtakanna, rís mikil viðbygging. Manni sýnist ekki að seðlaskortur standi þar framkvæmdum neitt fyrir þrifum. Nú skal ekkert haft á móti því að byggð séu hótel hér í borginni. Á því er þörf og á því er m. a. s. nauðsyn nú í sumar. Mér er sagt að ferðamenn fái ekki inni í Reykjavík fleiri en þegar hafa beðist gistingar. En annars vegar sígur á ógæfuhliðina fyrir bændum og búaliði, hins vegar eru fyrirtækin, sem sögð eru eign bænda, að springa úr þenslu og virðast hafa fúlgur fjár úr að spila.

Það er sjálfsagt ýmislegt í þessu frv. sem horfir til nokkurra bóta. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki lesið það frá orði til orðs allt saman, eins og auðvitað ætti að gera. Við höfum verið uppteknir við önnur mál í hv. Ed. að undanförnu. En ég mun auðvitað gera það. Ég sé hér t. d. að að draga á úr útflutningsbótunum skv. 36. gr. í áföngum á ákveðnu tímabili. Þetta er tillaga sem við Alþfl.-menn höfum flutt hér árum saman, ekki endilega þessar tölur og ártöl heldur sú hugmynd að dregið sé úr útflutningsbótunum í þrepum þannig að við hættum að greiða með mat ofan í útlendinga.

En ekki fæ ég skilið hvers vegna ekki er breytt reglum í sambandi við útreikning á heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar. Hér segir að það skuli miðað við afurðir nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína og alifugla, svo og garðávexti, gróðurhúsaframleiðslu og afurðir hlunninda. — Afurðir hlunninda. Hvað þýðir þetta? Ef leitað er skýringa í skýrslum við frv. þýðir þetta að til búvöruframleiðslunnar telst rekaviður sem nýttur er og berst hér á land frá Síberíu eða guð má vita hvaðan. Og þetta þýðir að laxveiðileyfi eru tekin þarna með. Slíkt kemur málinu ekkert við. Æðardúnn kemur þessu máli ekkert við. Það á auðvitað að miða við framleiðslu þeirra afurða sem fluttar eru út. Það er einföld og augljós reikniregla.

Hins vegar kemur fram í skýringum við 36. gr. sömuleiðis að ekki er gert ráð fyrir að afurðir „alifiska“, eins og hér er orðað, þ. e. framleiðsla fiskeldisstöðva, séu teknar með við útreikning útflutningsbóta, gagnstætt tekjum af veiddum vatnafiski og veiðileyfum. Hver er munurinn? Hvers vegna er þessi greinarmunur gerður á? Þetta eru heldur vitlausar reglur, sýnist mér. En í heild er lækkun á útflutningsbótunum góðra gjalda verð. Þetta er það sem við Alþfl.-menn höfum flutt tillögur um ár eftir ár. En reikningsgrundvöllurinn er út í hött, að ekki sé meira sagt.

Í sambandi við útflutningsbæturnar og útflutninginn er það auðvitað sorgleg staðreynd hversu slaklega, að mínum dómi, hefur verið unnið að því að kynna íslenskt lambakjöt erlendis, skapa því sess sem lostæti, eins og það er. Það er raunar ákaflega lítið gert fyrir þessa vöru á innanlandsmarkaði líka til að fá fólk til að neyta aukins kjöts, en ég er sannfærður um að það er mikil nauðsyn núna vegna þess að ég held það hljóti að hlaðast upp miklar birgðir af lambakjöti. Ég fer stundum í kjötbúðir og kaupi þar í matinn. Verðhlutföllin milli kjúklinga, nautakjöts, svínakjöts og lambakjöts eru orðin lambakjötinu mjög í óhag. Það segir sig sjálft að það hlýtur að koma niður á sölunni. Úti í verslun í Austurstræti var í dag nautakjöt selt fyrir 198 kr. kg. Ég sá ekki betur en lambakjöt væri á boðstólum í sama kjötborði sem kostaði 398 kr. kg. Ég man ekki lengur hvað það var, en það voru dýrari partarnir af skepnunni. En þarna munar 200 kr. á kílói. Auðvitað hefur þetta áhrif á innkaupin. Kjúklingar eru ódýrari en lambakjöt og ég hef grun um að svínakjöt sé kannske á viðlíka verði nú.

En hér er ekkert gert eða ákaflega lítið til að auka söluna á lambakjötinu. Mér er kunnugt um að t. d. kjúklingabændur fóru þá leið til að auka söluna á sinni framleiðstu að þeir keyptu ofna til að steikja kjúklinga, fóru með þá í kjötverslanir og komu þeim þar fyrir í samráði við kaupmenn. Þetta hefur aukið söluna mjög verulega, sagði mér kjúklingabóndi einn fyrir fáeinum dögum.

Varðandi lambakjötið eru menn vanir því að þeir fá allt borgað. Það skiptir engu máli. Ríkið er ábyrgt fyrir öllu saman alveg eins og varðandi útflutninginn. Ég sé að hv. þm. Stefán Benediktsson hefur flutt brtt. samhljóða tillögu Guðmundar Einarssonar í Nd. um að þeim sem annast sölu á útfluttum landbúnaðarvörum sé ekki heimilt að taka meiri sölulaun en 2% af söluverðmæti. Ég mun styðja þessa tillögu. Ég hef að vísu einhverjar efasemdir um að það eigi að miða við 2%, en þessi hugmynd er rétt.

Við fengum upplýsingar í vetur um útflutning á niðurgreiddum búvörum. Það kom í ljós að það hefur ekki verið gætt ýtrustu hagkvæmni að öllu leyti kannske að því er varðar útboð á flutningunum. Ég ætla ekki að fara að rifja þá sögu upp né þá döpru staðreynd að hæstv. landbrh. höfðu verið gefnar rangar upplýsingar af þeim aðilum sem annast hafa þennan útflutning. Ég veit að honum gekk það ekki til að segja annað en það sem satt er og rétt, en þeir sem hann óskaði svara hjá gáfu honum einfaldlega rangar upplýsingar um að útboð á þessum flutningum hefðu átt sér stað. Þegar nánar var eftir leitað kom í ljós að þessi útboð höfðu aldrei átt sér stað, enda er það ekki háttur einokunarfyrirtækja að leita fyrir sér um hagstæð kjör með þeim hætti. Yfir öllu landbúnaðarkerfinu situr Samband ísl. samvinnufélaga með sína mörgu arma í allar áttir og hefur alls staðar tök — og það sem meira er: hefur tögl og hagldir í kerfinu.

Í gær var ég að tala um það í þessum ræðustól og vitna í blaðafregnir um að hugsanlega færi Sambandið út í rekstur útvarpsstöðva. Ég veit ekki hvort þm. hlustuðu á fréttir útvarps og sjónvarps í kvöld. Það var samþykkt á aðalfundi SÍS að gera það, í samráði við fleiri samtök hugsanlega. Það hefur þá verið nákvæmlega rétt, sem mér rataðist á munn í þessum ræðustól í gær, að þegar þm. Framsfl. sögðu já við atkvgr. um útvarpslagafrv. hugsuðu þeir: SÍS. Það sannast í dag að þetta, sem ég sagði í gær og var ekki viss um að væri rétt, er rétt. Það var ekki staðfest í gær að Samband ísl. samvinnufélaga hygðist reisa keðju útvarpsstöðva um land allt. Hins vegar liggur ljóst fyrir núna að þeir munu ætla sér að gera það. Ég vona þeirra vegna að það verði enginn framsóknarsvipur á því útvarpi, að það verði svolítið skemmtilegt útvarp. Það getur kannske orðið.

En ég held að þarna hafi menn ekki sinnt kynningu eða — ég veigra mér hálfpartinn við að taka mér það orð í munn sem notað hefur verið í löggjöf í vetur — „markaðsfærslu“. — Það er eitthvert skelfilegasta orð sem ég hef lengi séð. Ég veit ekki hvert á að færa markaðinn. — Þessu hefur ekki verið sinnt. Það er leynt og ljóst komið í veg fyrir að einstaklingar geti stundað útflutning á lambakjöti vegna þess að hagsmunir Sambandsins bjóða að þetta sé eins og það er, “status quo“, óbreytt kerfi. En ef duglegir einstaklingar fengju þarna að spreyta sig og væri ekki sagt að það. væri ekki til kjöt í landinu þegar þeir ætla að fara að flytja út held ég að þarna mundi verða breyting á.

Ég sagði, virðulegi forseti, að ég ætlaði ekki að tala mjög lengi. Ég sé að það teygist úr þessu, en ég tel ástæðulaust að við séum að ræða þetta mál fram á nótt. Þó á ég nokkur orð ósögð enn.

Nú á að setja kjúklingaframleiðslu og svínakjötsframleiðslu og allt þetta undir Framleiðsluráð. Sem sagt: þar sem hin frjálsa samkeppni ríkir enn á að uppræta hana. Það væri nær, held ég, að auka eitthvað frekar frelsið. Það er alveg ljóst að neytendur hafa notið hags af því að kjúklingakjöt, svínakjöt og egg eru ekki undir landbúnaðarkerfinu. Ég er alveg sannfærður um að verðið á öllum þessum vörum væri miklum mun hærra í dag ef þetta væri undir alræðiskápu kerfisins. En þetta gefst auðvitað tækifæri til að athuga þegar málið kemur til nefndar.

Við þm. Vesturl. höfum fengið ýmsar athugasemdir við þetta frv. Það er ljóst að það er mikill ágreiningur um málið. Bændur setja sig á móti mjög mörgum atriðum í frv. Ég tek ekki undir allar þær athugasemdir sem hafa komið frá bændum. Ég er ósammála mörgum þeirra. Hins vegar kann að vera, og ég tel mjög líklegt, ég hef ekki haft tækifæri til að fara svo gaumgæfilega ofan í saumana á þessu máli, að sumar þeirra athugasemda eigi nokkurn rétt á sér.

Þm. Vesturl. hafa fengið bréf frá aðalfundi Búnaðarsambands Dalamanna, sem haldinn var 6. maí, þar sem er skorað á þm. Vesturl. að fylgja eftir brtt. Stéttarsambands bænda við frv. að framleiðsluráðslögum er málið kemur til afgreiðslu á þingi, með leyfi forseta, „svo tryggt sé að sjónarmið Stéttarsambandsins nái fram að ganga við afgreiðslu málsins.“ Ég er ekkert viss um að öll sjónarmið Stéttarsambandsins eigi að ná fram að ganga í þessu máli.

Við höfum líka, þm. Vesturl., fengið langan lista frá formanni Búnaðarsambands Vesturlands. Eftir viðræður við landbn. Nd. 30. maí höfum við fengið lista frá Guðbjarti Gunnarssyni með tíu atriðum sem þeir gera athugasemdir við. Ég er ekki sammála öllu þessu, en mér finnst hins vegar sjálfsagt að það sé skoðað og hlustað á þeirra rök. Mér dettur samt ekki í hug að segja að það eigi að taka tillit til allra þessara athugasemda og ganga að þeim orðalaust. Ég get alls ekki tekið undir það.

Í hv. Nd. lagði formaður Alþfl. til meðan þetta mál var til umræðu að því yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég get vel hugsað mér að hafa sama háttinn á í hv. Ed. þegar kemur að afgreiðslu málsins, en mun kannske gera það með öðru orðalagi en segir í þessari rökstuddu dagskrá. Ég áskil mér a. m. k. rétt til að breyta því.

Í nál. meiri hl. landbn. Nd., sem ég hef lesið með mikilli athygli, kemur í rauninni ákaflega lítið fram og mér finnst billega sloppið hjá nefndinni, ef nota má það orðalag, að segja hér, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallaði um málið vítt og breitt og komu fram skiptar skoðanir, bæði frá gestum nefndarinnar og eins nm.

Það hefði kannske verið áhugavert fyrir okkur, sem ætlað er að afgreiða þetta á mjög skömmum tíma, að fá eitthvað aðeins meira að vita um þennan ágreining.

Ég hef í kvöld verið að skoða brtt. sem hv. 2. þm. Austurl. vék að áðan. Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. landbrh., sem hlýtur að verða fyrir svörum þar sem ég get ekki átt orðastað við formann landbn. Nd. í Ed., að ég sé ekki hvaða tilgangi sumar þessar brtt. þjóna. Ég skoðaði sérstaklega og áttaði mig ekki alveg á við hvaða rök brtt. við 30. gr. styðjast. Í inngangsmgr. þessarar greinar stendur: „er landbrh. heimilt að gera eftirtaldar ráðstafanir“. en í brtt. eru felld niður orðin „heimilt að gera eftirtaldar ráðstafanir“. Ég fór að athuga þetta vegna þess að mér sýndist setningin ekki geta staðið þannig. Þá kemur í ljós að þessi heimildarmeining, sem er hér, er flutt í greinarnar hverja fyrir sig. Að vísu er þarna blæbrigðamunur; ,.rétt að leita eftir samningum“, „heimilt að ákveða“ eða „heimilt að gera eftirtaldar ráðstafanir“. Ég sé ekki annað en að þetta sé gjörsamlega marklaus og tilgangslaus breyting og kannske verið sett á blað til þess eins að geta gert dálítið áberandi margar brtt.. haft þær 16 eins og hér er. Ég sé ekki að þetta skipti nokkru sköpuðu máli í sambandi við þetta frv.

Fleiri brtt. eru hér. Ég sé að sveppir eru felldir inn í leyfakerfið varðandi innflutning. Það er sjálfsagt gert til að vernda íslenska svepparæktendur.

Þá eru hér ákvæði um að Framleiðsluráð landbúnaðarins hætti rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins frá og með 1. júní 1986. Í þessari hv. deild urðu töluvert miklar umræður um það fyrirtæki fyrir 13 mánuðum eða svo. Þetta er hálfgert huldufyrirtæki að mér hefur fundist. Það virðist óljóst hver á það og því virðist ekki gert að greiða sams konar opinber gjöld og öðrum fyrirtækjum sem stunda slíka sölu. En það verður að segjast samt eins og er að í 52. gr. er einungis talað um yfirtöku á rekstri fyrirtækisins, sölu og leigu á eignum þess og að hið nýja fyrirtæki gefi fastráðnu starfsfólki kost á sambærilegum störfum o. s. frv. Hver selur hverjum? Hvert fer söluverðmætið ef selt verður Gullaugað fræga sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skýrði þetta hús á sínum tíma í Morgunblaðinu og nafnið hefur enst býsna vel? Hver selur hverjum? Fer söluhagnaðurinn í ríkissjóð? Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er hér í deildinni, en ég hugsa að hann yrði kampakátur ef þessi söluhagnaður rynni til hans. Ég held að nauðsynlegt sé að fá frekari skýringar á þessu. En allar eru þessar brtt. afskaplega ómerkilegar og lítilvægar, sýnist mér.

Ég held ég fari að stytta mál mitt, virðulegi forseti. Ég áskil mér rétt til að koma inn í þessa umr. aftur þegar málið kemur úr nefnd. Ég á raunar sæti í hv. landbn. Ed. og hef þar tækifæri til að fylgjast með málinu. Formaður hefur boðað fund í þeirri nefnd á þriðjudagsmorgun.

Hins vegar er það til helberrar háðungar að okkur skuli ætlaður svo skammur tími til að fjalla um svo flókið og mikið mál. Málið kemur til okkar á kvöldfundi 14. júní og ég sé ekki betur en, ef það verður ofan á sem menn eru að tala um þinglok, að okkur sé þá ætlað að afgreiða þetta mál á miðvikudaginn. Það verður að viðurkenna að þetta mál fær þá nánast enga athugun í hv. Ed. hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Lagt er ofurkapp á það af hálfu ríkisstj. að þetta mál verði afgreitt. Þeir hafa sagt það mjög skýrum orðum, forsrh. og formaður Sjálfstfl., í samtölum þingflokksformanna og forseta í samningaviðræðum okkar við forsrh. um lok þinghaldsins að þetta mál verði að afgreiða. Mér væri hugnanlegra að við sætum hérna heldur lengur þannig að Ed. gerði meira en að stimpla frv. eins og það kemur frá Nd. og afgreiða það nánast án allrar skoðunar. Það var ekki skemmtilegt í gær þegar verið var að afgreiða útvarpslögin með öllum þeim göllum sem á þeim eru. Það er kannske í dag að menn fást til að viðurkenna, eftir að spennunni og offorsinu linnir, að líklega verði nauðsynlegt að endurskoða lögin á haustdögum áður en þau taka gildi. Mér heyrist það ekki vera fjarri huga sumra manna, enda er augljóst að þau fá ekki staðist. Þetta er rugllöggjöf. Það eru ruglákvæði í mörgum greinum þarna sem eru hvorki skiljanleg né fá staðist. Ég er ekki að segja að það gildi um þetta frv., en ég held að landbn. og Ed. verði að fá að taka þann tíma til umfjöllunar þessa máls sem þm. telja sig þurfa, fá umsagnir, heyra sjónarmið. Það er alveg ljóst að það eru gífurlega skiptar skoðanir um þetta. Hæstv. forsrh. kom inn á það í ræðu einhvern tíma um daginn og vildi lítið hlusta á bændur í þeim efnum. Það er sjálfsagt rétt hjá honum og ég get tekið undir það að sumar þær kröfur sem bændur gera í sambandi við frv. eiga ekki rétt á sér og eru ekki skynsamlegar. En hvað sem öllu líður held ég að þetta mál verði ekki afgreitt á einum fundi hjá landbn. Það held ég að væri alger ofætlun að ætlast til þess og í rauninni mun ég ekki taka neinn þátt í afgreiðslu þessa máls vegna þess að ég tel að það beri að með þeim hætti að það verði að fá meiri athugun en tími er til núna. Ég sé ekki að það séu hundrað í hættunni þó að málið bíði til haustsins og þá yrði reynt að skapa meiri frið um það. Mér heyrist að það sé bannsettur ófriður um þetta mál hjá öllum sem málið snertir. Það er aldrei til góðs. Það er til bölvunar og gott ef hægt er að komast hjá slíku. Auðvitað verða menn aldrei á eitt sáttir um allt í þessum efnum frekar en öðrum. Ég legg áherslu á að skynsamlegast væri að láta þetta mál bíða og sjá hvort ekki er hægt að sætta menn betur í málinu.