19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6813 í B-deild Alþingistíðinda. (6105)

479. mál, ferðamál

Frsm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það er eins með þetta frv. og önnur síðbúin frv. ríkisstj. að það hefur ekki gefist mikill tími til að skoða það í nefnd. Sérstaklega var það í samgn. Ed. sem lítill tími gafst til umfjötlunar og var ekki gerð tilraun til að senda það frekar til umsagnar eða kalla menn til skrafs um málið. En það var gert í trausti þess að í umfjöllun samgn. Nd. um málið hefði það fengið það góða yfirferð að það væri vel fyrir öllu séð. Efrideildarnefndin samþykkti því að mæla með frv. eins og það kom frá Nd.

Nd. gerði nokkrar breytingar á frv. frá því sem það var lagt fram. Hún fjölgaði fulltrúum í ferðamálaráði, þ. e. lagði til að þeir yrðu fleiri en frv. gerði ráð fyrir, bætti þar inn ferðamálasamtökum landshlutanna. Í síðasta liðnum, 18. liðnum, í þeirri upptalningu eru nefnd „Ferðamálasamtök Reykjaness“, en þar á að standa: Suðurnesja. Það munu hafa orðið mistök í prentun eða í undirbúningi handrits og ég vil beina því til virðulegs forseta hvort sú breyting geti ekki átt sér stað án þess að við gerum sérstaka brtt. að í stað Ferðamálasamtaka Reykjaness komi: Ferðamálasamtök Suðurnesja.

Nd. gerði einnig afgerandi breytingu í sambandi við Ferðaskrifstofu ríkisins, þ. e. þann þáttinn að ríkisstj. skyldi beita sér fyrir stofnun hlutafélags um skrifstofuna og að starfsmönnum yrði boðið upp á að gerast eigendur. Í breytingu Nd. felst að í staðinn fyrir að það var rætt um einstaka starfsmenn er skv. breytingum Nd. rætt um samtök starfsmanna Ferðaskrifstofunnar. Það þýðir að eignaraðild starfsmanna telst bundin innan vettvangs stofnunarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en eins og ég sagði áður mælir samgn. Ed. með að frv. verði samþykki, en fjarverandi afgreiðslu málsins var Guðrún Tryggvadóttir.